10. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Þrír krabbameinslæknar og margir hattar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Þrír krabbameinslæknar eru á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Allir með vensl við svæðið. Sigurður sleit barnsskónum á Búrfelli í Grímsnesi. Hlynur sínum á Selfossi. „Svo á Helgi konu úr Hveragerði,“ segir Hlynur Níels Grímsson þegar hann sest í hljóðver með þeim Sigurði Böðvarssyni og Helga Hafsteini Helgasyni. Þeir ræða vöxt stofnunarinnar, áskoranir og tækifæri í Læknavarpinu, hlaðvarpi Læknablaðsins

http://Læknavarpið ·

„Ég gerði mér grein fyrir því að þetta væri allt annað starf en það sem ég er að koma úr,“ segir Helgi Hafsteinn Helgason, yfirlæknir lyflækningadeildar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Hann er nú kominn til starfa á Selfossi eftir um 23 ár í Hollandi. Þar starfaði hann sem sérfræðingur í lyf- og krabbameinslækningum við Haaglanden Medical Center í Haag, einu stærsta sjúkrahúsi landsins eftir samruna þriggja sjúkrahúsa á svæðinu.

Sigurður Böðvarsson, Helgi Hafsteinn Helgason og Hlynur Níels Grímsson eru þrír lyf- og krabbameinslæknar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þeir hafa ólíka hatta og sinna ýmsum verkum á stofnuninni. Mynd/gag

Helgi Hafsteinn sat í ýmsum nefndum og ráðum á landsvísu í Hollandi, til að mynda fyrir innleiðingu nýrra krabbameinslyfja. Var formaður krabbameinsráðs sjúkrastofnunarinnar og sat í framkvæmdastjórn krabbameinskjarnans. Hann hjólaði um borgina í vinnuna. Nú keyrir hann yfir Hellisheiðina.

„En á móti kemur að landið trekkir, fjölskyldan og vinnutíminn er almennt styttri en við læknar erum vanir í Hollandi.“ Það vegi upp á móti. „Ég fæ nú tækifæri til að byggja upp og sjá breiðari hóp sjúklinga en ég var kominn með í Hollandi. Það eru margir kostir.“

Helgi keyrir ekki alltaf einn, stundum er hann í samfloti með Sigurði Böðvarssyni, framkvæmdastjóra lækninga, og Hlyni Níelsi Grímssyni, yfirlækni líknarlækninga HSU. Þeir þrír voru gestir í Læknavarpinu, hlaðvarpi Læknablaðsins. Hægt er að hlusta á þá á vef blaðsins, Soundcloud, Spotify og iTunes.

Sigurður segir að töfralausnin við að næla í Helga hafi verið að bjóða honum í mötuneytið á HSU. „Það verður ekkert aftur snúið þegar menn hafa komið þangað. Það virkaði vel á Helga eins og aðra,“ segir Sigurður í léttum tóni í Læknavarpinu.

„Já, talandi um kúltúr,“ segir Helgi. „Ég held það sé teljandi á fingrum annarrar handar hversu oft ég fór í hádegismat í Haag. Hádegin voru notuð til fundahalda eða til að stýra hjúkrunarfræðingum eða sérnámslæknum, fyrir samráðsfundi, að fara á deild og vera með yfirumsjón þar,“ lýsir hann.

„Ég var meira á hlaupum, en starfið á HSU er enn sem komið er nokkuð rólegra. Það hentar mér vel því ég er ráðinn til að straumlínulaga lyflæknisþjónustuna, skipuleggja nám námslækna og styðja við frekari uppbyggingu stofnunarinnar.“

Sjálfur starfaði Sigurður í átta ár í Bandaríkjunum en hefur nú varið nærri fimm árum starfsævinnar á Selfossi. „Ég er forsjóninni þakklátur fyrir að hafa farið á Selfoss.“ Miklar breytingar hafi orðið á heilbrigðisstofnuninni á þessum tíma. „Við erum þó enn svolítið sveitó,“ segir Sigurður kíminn. Til að mynda sé ekki enn hægt að veita ýmsa grundvallarþjónustu.

„Okkur vantar meðal annars næringarfræðing og lyfjafræðing.“ Starfsfólk sem þyki almennt sjálfsagt að hafa í starfsliði spítala. Framkvæmdastjórinn leitar einnig að læknum. „Okkur vantar heimilislækna. Svo bráðvantar okkur bráðalækna.“ Hann segir Selfoss á margan hátt glíma við sama vanda og Landspítali en þó minni í sniðum.

Þakklátur á Selfossi

„Eins og allir vita er mikil fólksfjölgun og uppgangur. Það leiðir til þess að allir innviðir þurfa að vaxa. Það hefur verið gaman að taka þátt í því á Suðurlandi. Þarna er fólki að fjölga um 10-12% á ári,“ segir hann. Hátt í 700 manns vinni nú á HSU. „Þannig að boðleiðir eru stuttar.“ Mikill vöxtur sé í heilsugæslunni og bráðamóttakan sprungin.

„Þar er spáð 20.000 komum á þessu ári,“ segir hann. Þær hafi verið 2000 í júlí. Vöxturinn mikill, eða um 42% frá árinu 2018 þegar 14.000 komu.

„Mitt aðaláhugamál hefur verið að efla sérfræðiþjónustuna,“ segir Sigurður. „Mér finnst skynsamlegra að læknirinn komi til sjúklinganna frekar en allir sjúklingarnir hópist á höfuðborgarsvæðið að hitta lækna á Landspítala eða einkareknum stofum,“ segir hann og nefnir að auk krabbameinslækna starfi sérfræðingar í öllum helstu greinum ýmist í fullu starfi eða hlutastarfi á göngudeildum stofnunarinnar einn eða fleiri daga í viku.

„Svo langar okkur að vaxa sem kennslustofnun.“ Sérnámslæknar þurfi að rótera um landið, kynnast sjúkrahúsum og vinnu á landsbyggðinni, kragasjúkrahúsunum og Akureyri rétt eins og Landspítala. Kennarar í læknadeild séu jákvæðir gagnvart hugmyndinni.

Hlynur hefur nú verið eitt ár á HSU. „Ég held ég hafi gert allt nema að taka á móti barni,“ segir hann um árið. „Það er ákveðinn sjarmi í því og fjölbreytnin gerir starfið alls ekki leiðinlegra.“ Hlynur hafði eiginlega gefið krabbameinslækningar upp á bátinn og lært heimilislækningar þegar Sigurður hringdi í hann.

„Mér líkar vel. Ég hef stundum hugsað það í bílnum á leiðinni austur þegar ég hlusta á útvarpið. Það að vera í heimilislækningum á Íslandi er eins og að vera með stillt á Rás 1,“ segir hann. „Þetta er starf fyrir fólkið í landinu.“ Ekki að það sé rólegt. „En svo kemur maður í krabbameinslækningar og það er eins og að hlusta á BBC World Service. Það er alþjóðlegri heimur.“

Hlynur segir skipta miklu máli að læknar fái val um vinnustaði. „Ég var alinn upp á Landakoti. Mamma starfaði þar eiginlega allan sinn starfsferil. Landakot var lítil stofnun með ekkert of mörgum læknum. Það var samheldni innan læknahópsins. Þeir hittust á laugardögum og fóru yfir mál stofnunarinnar. Það er pínulítið kannski sama tilfinningin á Selfossi,“ segir hann. „Þetta er lítill, en samheldinn hópur, stuttar boðleiðir og hægt að tala saman.“

Allir með marga hatta

En allir eru þeir Sigurður, Helgi og Hlynur krabbameinslæknar, er það ekkert of mikið framboð fyrir Selfoss? „Það væri of mikið ef við værum bara krabbameinslæknar, en við erum með ýmsa aðra hatta,“ segir Sigurður sem segir um 80% vinnutíma hans fara í að vera framkvæmdastjóri lækninga en 20% tímans verji hann á göngudeild. Helgi stýrir 22ja rúma lyflækningadeild. Þá byggir Hlynur nú upp líknarlækningar á Suðurlandi.

„Bæði á spítalanum, þar sem við erum með fjögur líknarrými, en svo langar okkur líka að bjóða heimahlynningu á Árborgarsvæðinu og í Hveragerði.“ Hann fagnar því hve mikill vöxtur stofnunarinnar sé. Líknardeildin skarist við öldrunarteymi Guðnýjar Stellu Guðmundsdóttur öldrunarlæknis sem einnig hafi bæst í hópinn fyrir tæpu ári.

„Hún hefur verið að setja á stofn heimaspítala, það er að segja að hægt sé að sinna fólki heima. Læknir og hjúkrunarfræðingur komi í vitjun og sinni fólki heima. Þannig viljum við draga úr endalausum komum á bráðamóttöku og sjúkrahúsið,“ segir hann.

Þeir þrír nýti þekkingu hvors annars þegar komi að krabbameinum. „Við erum með samráðsfundi á mánudögum þar sem við ræðum og förum yfir stöðu sjúklinga sem koma til okkar á göngudeild og hvaða möguleikar séu í boði,“ segir Sigurður. „Svo höfum við samráðsfundi við kollega okkar á Landspítala í gegnum Teams.“

Hlynur segir kominn tíma til að setja líknarþjónustuna í fastara form. „Svo voru Oddfellow-félagar á Suðurlandi svo rausnarlegir að gefa sex milljónir króna til að geta haft líknarrými inni á HSU. Þetta er framtíðin,“ segir Hlynur.

Sigurður segir bæði gott og slæmt að hafa heilbrigðisstofnunina svo nálægt höfuðborgarsvæðinu. „Þetta eru um 35.000 íbúar. Í uppsveitum eru um sjö þúsund sumarhús. Mörg heilsárshús. Svo fara tvær milljónir ferðamanna um svæðið. Það er því ekkert skrýtið að það sé mikil fjölgun í komum á bráðamóttöku,“ segir hann.

„Við erum því í svipaðri stærð og Eyjafjarðarsvæðið en erum langt því frá að vera jafnflottur spítali og SAK.“ Þar spili nálægðin inn í. Þessi stutta vegalengd á Landspítala hafi hægt á uppbyggingu innviðanna á HSU.

„En að sama skapi er mjög gott að hafa góða nágranna og að það sé aðeins yfir heiðina að fara þegar á þarf að halda,“ segir hann og kallar eftir kerfi þar sem fjármagnið fylgi sjúklingi. En hvaða áhrif hefði slík fjármögnun á HSU?

„Með auknu fjármagni má byggja starfsemina enn frekar upp,“ segir Sigurður. „Það er verið að innleiða fjármögnunarlíkan fyrir heilsugæslu og talað um að það fylgi í kjölfarið fyrir almenna sjúkrahúsþjónustu. Inni í því er bráðamóttaka.“

Í leik og starfi

Þeir ræða framtíðina í Læknavarpinu. Helgi segir augljósa vaxtarverki á HSU og Hlynur að reynslan frá því að hafa unnið á litlum sjúkrahúsum í Noregi, sem og í Svíþjóð og Danmörku, hjálpa nú við þróun stofnunarinnar.

„Það er ágætt að hafa þá reynslu því þá veit maður hvað er hægt að gera á litlum sjúkrahúsum og hvað ekki. Ég held að við séum allir þrír með það í huga að bæta þjónustuna við fólkið sem býr á svæðinu. Svo þarf að finna út úr því í samráði og samstarfi við aðra hvernig það verður best gert.“

Það er létt yfir þeim félögum og margt ber á góma. Elo-skákstig, golf og hjólreiðar. „Já, mér finnst gaman að tefla,“ segir Sigurður eftir skot félagans. En er ekkert mál að aka svona langt í vinnuna? Hlynur nefnir traffíkina í Skandinavíu.

„Mér finnst þessi ferð voðalega lítið mál,“ segir hann. „Viðbrigði,“ segir Helgi, sem hefur hjólað í skóla og vinnu í 35 ár. „Við höfum náð að sameinast í bíla og ræða hlutina,“ segir hann og tíminn því nýst vel.

Sigurður segir árin tæp fimm á Selfossi þess virði. „Já, mér þykir mjög gaman í vinnunni. Mér finnst gaman að sjá hlutina vaxa og dafna. Mér finnst frábært að fá þessa góðu kollega mína með mér í lið. Þetta er bara búið að vera ævintýri.“ En hvað sjá þeir Hlynur og Helgi fyrir sér að vera lengi? Sigurður svarar: „Þeir eru báðir æviráðnir.“

Hlynur lítur upp. „Ég ætla ekki að verða ellidauður í starfi sem læknir.“ Hann verði ekki 75 ára í starfi. „En er á meðan er.“ Helgi segir það oft töluvert átak og breytingu að skipta um starfsstöð og nefnir við Læknablaðið að það sé sérstaklega átakanlegt að kveðja einstaklinga með ólæknandi sjúkdóm sem hann hafi aðstoðað í áraraðir. Læknar hlaupi því ekki á milli starfa að óþörfu.

„Á nýjum stað þarf svo að byggja upp sjúklingahóp, tengslanet, læra á ný misvitur tölvukerfi og verkferla og skapa ákveðinn sess á viðkomandi svæði,“ segir hann. „Og ég er ekki á förum frá Selfossi að svo stöddu.“

En er framtíðin björt á HSU? „Já,“ svara þeir allir. „En okkur vantar fleiri lækna og hjúkrunarfræðinga.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica