10. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Sólveig Bjarnadóttir er nýr formaður Félags almennra lækna

„Við erum stærsti hópur starfandi lækna á Íslandi. Það er breyting tilkomin vegna eflingar sérnámsins. Fólk hefur tækifæri til að vinna hér lengur,“ segir Sólveig Bjarnadóttir, nýr formaður FAL

„Við finnum að fólk vill leggja áherslu á fjölskylduvænni vinnu. Það verðmetur frítímann sinn hærra en áður. Yngri læknar eru ekki spenntir fyrir löngum vöktum og við viljum gera vinnutímann eðlilegri og fjölskylduvænni. Það er sama krafa og við sjáum í samfélaginu,“ segir Sólveig Bjarnadóttir sem í maí tók við formennsku í Félagi almennra lækna, FAL, af Þórdísi Þorkelsdóttur. Þórdís situr enn í stjórn félagsins.

Sólveig Bjarnadóttir, formaður Félags almennra lækna, segir sérnámið hafa fjölgað félagsmönnum. Sérnám hér á landi hafi jákvæð áhrif á vinnuumhverfið. Mynd/gag

Sólveig segir sérnámið ásamt kjaramálum stærstu áherslumál félagsins en kjaraviðræður hefjist aftur eftir áramót. „Mér finnst vera hugur í fólki hvað kjaramálin varðar.“

Sólveig hefur setið í stjórn LÍ frá 2022. Hún segir það hafa verið hvatningu til að sækjast eftir formennskunni, enda stjórnin kröftug og öflug. „Hópurinn er samstíga og þar er góður andi. Við hlustum vel á sjónarmið hvers annars.“ Hún segir sérnámsmál hafa ráðið ferðinni í starfsemi félags almennra lækna að undanförnu enda hafi þeim sem sérmennta sig hér á landi fjölgað hratt.

„Undanfarin ár hefur mikilli vinnu verið varið í að byggja upp öflugt sérnám á Íslandi. Það hefur skilað sér í því að fólk kýs að vinna hér lengur og í sumum greinum er hægt að klára fullt sérnám á Íslandi. Það er meira af reyndum sérnámslæknum sem hefur jákvæð áhrif á vinnuumhverfið og er í raun auka þrep í læknamönnun á heilbrigðisstofnunum,“ segir hún.

„Síðustu ár hefur verið unnið að reglugerð um sérnámsgrunn, sérnám og veitingu sérfræðileyfis til lækna. Þetta er gríðarlega mikilvægt og við fögnum því að fá nýjan og bættan lagaramma,“ segir hún. Þessi þróun hafi nú leitt af sér að FAL sé orðið stærsta aðildarfélagið innan LÍ.

Sólveig segir stjórn FAL hafa áhyggjur af óhóflegu álagi í heilbrigðiskerfinu. Almennir læknar vilji geta viðhaldið gæðum þjónustunnar. „Við keppum að því að veita góða heilbrigðisþjónustu og á þeim faglegu forsendum sem við viljum þannig að við og sjúklingarnir séum sátt við hana,“ segir hún.

„Það eru hins vegar brotalamir í kerfinu og við höfum horft á fólk fara í kulnun og höfum áhyggjur af því, ekki aðeins hjá almennum læknum heldur allri læknastéttinni.“ Hún bindur vonir við að hægt sé að taka á vandamálinu.

„Til þess þurfa bæði stjórnendur heilbrigðisstofnana og stjórnvöld að koma að málinu. Þetta snýr að framtíðarmönnun heilbrigðiskerfisins og er á þeim skala að það þarf inngrip úr stjórnkerfinu til að leysa það.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica