09. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Starfið er mjög fjölbreytt og endalaust skemmtilegt. Jenna Huld Eysteinsdóttir

Þegar ég var nýútskrifuð sem læknir og búin með kandídatsárið hafði ég áhuga á mörgum undirsérgreinum, fannst margt spennandi, og þurfti smá tíma til að átta mig á hvað passaði best við mig. Eftir á að hyggja var valið kannski meira tilviljunum háð en ég gerði mér grein fyrir en ég er virkilega sátt við val mitt í dag og finnst mjög skemmtilegt í vinnunni.

Fyrst stefndi ég á barnalækningar og var svo heppin að fá stöðu á barnadeildinni. Veran þar var mjög lærdómsrík en ég fann þó fljótlega að þessi sérgrein átti ekki alveg við mig. Hafði ég þá sótt um á húðdeildinni þar sem mér hafði alltaf fundist sú sérgrein mjög spennandi í gegnum námið en vissi í rauninni ekki alveg út á hvað hún gekk og langaði að prófa hana áður en ég stefndi á hana fyrir alvöru. Ég komst ekki að þar strax og ákvað því í millitíðinni að ráða mig á kvennadeildina. Sú sérgrein kom mér mjög skemmtilega á óvart, sambland af skurðlækningum, bráðalækningum og lyflækningum, jákvæður vinnuandi og hvetjandi andrúmsloft á deildinni. Í rauninni var ég búin að ákveða að halda áfram í þeirri sérgrein þegar ég fékk óvænt stöðu á húðdeildinni. Mér fannst ég þyrfti að prófa það áður en ég tæki endanlega ákvörðun og fann þá mjög fljótlega á húðdeildinni að þessi sérgrein átti mjög vel við mig og þá var einhvern veginn ekki aftur snúið.

Ég var þrjú ár á húðdeildinni hér heima og byrjaði samtímis í doktorsnámi þar sem ég skoðaði klínísk, vefjafræðileg og ónæmisfræðileg áhrif Bláa lónsins á psoriasissjúklinga. Verkefnið var stórt í sniðum og mjög ónæmisfræðilega tengt og vann ég á þessum tíma einnig mikið á ónæmisfræðideildinni. Það er mjög erfitt að komast í sérnám í húðlækningum en það hjálpaði umsókninni mikið að ég var í doktorsnámi og ég fékk stöðu á Sahlgrenska í Gautaborg. Það hjálpaði líka vissulega til að kollegi minn, Anton Bjarnason, vann á Sahlgrenska á þessum tíma og gat gefið mér meðmæli. Dvölin þar var stórkostleg og nýr heimur opnaðist þar sem allir þessir sjaldgæfari húðsjúkdómar dúkkuðu upp reglulega. Svo var einnig miðstöð fyrir MOHS-skurðaðgerðir á Sahlgrenska, sem mér fannst mjög skemmtilegt að vinna við.

Þegar fjölskyldan flutti svo heim árið 2015 þá var það stóra ákvörðunin hvað ég ætti að gera þegar ég kæmi heim, vinna á spítalanum, sjálfstætt eða bæði. Ég var svo heppin að aðalleiðbeinendur mínir í doktorsnáminu, Jón Hjaltalín Ólafsson og Bárður Sigurgeirsson, buðu mér að koma á Húðlæknastöðina á Smáratorgi þar sem þeir báðir störfuðu. Þar voru fyrir 6 húðlæknar og fannst mér mjög spennandi að vinna í svona stórum hópi á svona stórri göngudeild út í bæ.

Auðvitað voru þetta mikil viðbrigði í byrjun og ég þurfti svolítið að hugsa allt upp á nýtt. Hverju hafði ég mestan áhuga á og á hvað vildi ég leggja mesta áherslu út frá þessum nýju forsendum? Á Húðlæknastöðinni var löng reynsla af laserlækningum en ég hafði lítið verið að vinna við laserlækningar í Gautaborg þó að sú deild hafi verið til staðar þar á húðdeildinni. Ég lærði heilmikið af húðlæknum Húðlæknastöðvarinnar í byrjun, þá helst Jóni Þrándi Steinssyni, sem hafði langa reynslu af laserlækningum. Fann ég fljótt eftir að ég kom heim að þetta fannst mér spennandi og ákvað ég því að leggja áherslu á þennan hluta húðlæknisfræðinnar og vatt mér í það að afla mér enn dýpri þekkingar á þessu sviði með því að sækja kúrsa og námskeið í laserlækningum og kosmetískum húðlækningum.

Í dag vinn ég mjög fjölbreytt og endalaust skemmtilegt starf. Húðlækningar bjóða nefnilega upp á svo mikinn fjölbreytileika þar sem blandast saman lyflækningar í almennum húðlækningum og minni skurðaðgerðir í húðkrabbameinslækningum, og svo laserlækningar og kosmetískar húðlækningar. Mjög sátt við valið og get vel mælt með þessu starfi.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica