09. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Haustverkin. Katrín Ragna Kemp

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.

Ég er með stóran garð, sem þarf mikla umhyggju og helst eiganda með græna fingur. Eftir sumarfríið er þetta meira eins og villigarður – sem minnir mig á að kaupa þá bók.

Þegar ég horfi út í garðinn minn og bý til verkefnalista yfir það sem þarf að gera fyrir veturinn sé ég hliðstæður þess lista og verkefna sem framundan eru hjá Læknafélagi Íslands og aðildarfélögum þess.

Gróðursetja/færa tré og runna.

Hvernig vil ég að garðurinn minn líti út – þarf ég kannski að ráða landslagsarkitekt? Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að setja af stað verkefnið „Framtíð læknisþjónustu á Íslandi“ og tengist það samkomulagi sem gert var í kringum kjarasamninga fjármála- og efnahagsráðherra og Læknafélags Íslands í júní síðastliðnum. Ólafi Baldurssyni er falið að samhæfa verkefnið með viðeigandi aðkomu hagsmunaaðila. Þetta er risavaxið verk-efni og Læknafélag Íslands mun svo sannarlega leggja sitt á vogarskálarnar ásamt öðrum til að þetta verðuga verkefni skili árangri. Mikilvægt er að hvert þjónustukerfi fyrir sig skoði hvernig hægt er að bæta þjónustuna og vonandi fær grasrótin einnig að koma með tillögur um það hvernig er hægt að hagræða, betrumbæta og straumlínulaga vinnuna því svörin reynast oftar en ekki hjá „fólkinu á gólfinu”. Ólafur og fleiri munu svo auðvitað skoða það hvernig þessi kerfi vinna betur saman því heilbrigðiskerfið er stórt og flókið kerfi þar sem bilun á einum stað hefur keðjuverkandi áhrif þar sem sjúklingaflæði er á milli þeirra allra. Væri ekki frábært ef læknisþjónustan á Íslandi í framtíðinni væri einfaldlega best í heimi?

Setja niður haustlauka.

Núna er tíminn til að gróðursetja haustlauka og búa í haginn fyrir vorið. Til þess að heilbrigðiskerfið geti sinnt þeirri þjónustu sem því er ætlað að veita, þarf að skipuleggja og tryggja mönnun kerfisins og horfa til framtíðar. Í tengslum við nýgerðan kjarasamning fjármála- og efnahagsráðherra og Læknafélags Íslands, ákvað heilbrigðisráðherra að settur yrði á laggirnar starfshópur með það hlutverk að skilgreina hversu marga lækna þurfi á heilbrigðisstofnanir, í þéttbýli og dreifbýli, svo að gæði heilbrigðisþjónustu og heilbrigt starfsumhverfi sé tryggt. Ráðuneytið, Embætti landlæknis og Læknafélag Íslands munu tilnefna fulltrúa í hópinn og þessi vinna verður stór hluti vinnunnar við verkefnið um framtíð læknisþjónustu á Íslandi, sem þegar hefur verið vikið að. Vonandi mun þessi vinna skila því að aðgerðaráætlun verði gerð um bætta mönnun til framtíðar.

Uppskeran.

Er eitthvað betra en nýupptekið smælki? Eftir fjögur og hálft ár af samningsleysi milli Sjúkratrygginga Íslands og sérgreinalækna var samþykktur 5 ára samningur milli aðila í lok júní. Mikil vinna og þrautseigja samninganefndar Læknafélags Reykjavíkur skilaði samningi sem tæp 94% félagsmanna samþykktu (tæplega 64% kosningaþátttaka). Sýnir það hversu vel tókst til við gerð samningsins. Einingaverð hækkaði eins og vera bar í takt við verðlags- og launaþróun síðustu ára. Aukagjöld, sem sérfræðilæknar urðu að leggja á því einingaverð hækkaði ekki, en sem lentu auðvitað beint á sjúklingum, falla nú niður. Geiðsluþátttaka sjúklinga í sérfræðilækniskostnaði lækkar þannig umtalsvert, nú þegar þessi samningur tekur gildi, og lækkaði raunar strax frá 1. júlí. Í þessum samningi eru einnig sett ákvæði um samráðsnefnd Læknafélags Reykjavíkur og Sjúkratrygginga sem mun skoða markvisst hvernig efla megi og bæta starfsemi sérgreinalækna í þágu sjúklinga. Þar verður áhersla lögð á nýsköpun, bætt aðgengi að þjónustu, sem og að starfsemin og læknisverkin sem unnin eru taki mið af framþróun læknisfræðinnar.

Frágangur.

Gott er að hreinsa lauf, stinga upp og reyta illgresi þar sem maður vill ekki að það vaxi. Það berast nær daglega fréttir af myglu og raka í opinberum byggingum, svo sem heilsugæslustöðvum, skólum, sjúkrahúsum og á hjúkrunarheimilum. Loka hefur þurft hjúkrunarrýmum vegna myglu og heilbrigðiskerfið – þessi hringrás sem heilbrigðiskerfið er – má alls ekki við því. Myglu í húsnæði þarf að útrýma með góðu og eðlilegu viðhaldi, það borgar sig.

Ekki dugir að horfa bara út um gluggann. Næg eru verkefnin ef maður vill eiga fallegan garð og öflugt heilbrigðiskerfi. Best að bretta upp ermar og koma sér að verki.

Haustverkin sem bíða Læknafélags Íslands og aðildarfélaga þess ráða miklu um hvernig mál munu þróast innan heilbrigðiskerfisins á næstu misserum og árum.

 

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica