09. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Innan við fjögurra mínútna hreyfing getur bjargað kyrrsetufólki

Segja má að hinar svokölluðu sófakartöflur hafi unnið ákveðinn sigur í nýrri rannsókn sem birtist í sumar í tímaritinu JAMA Oncology.

Rannsóknin nefnist lauslega þýtt Kröftug lífsstílshreyfing með hléum og tíðni krabbameins meðal fullorðinna sem ekki stunda líkamsrækt. Hún sýnir að kyrrsetufólk getur dregið úr hættu á krabbameini með því að taka þátt í stuttum lotum af öflugri hreyfingu, eins og að hlaupa á eftir strætó. Þetta er frumniðurstaðan úr rannsókn á 22.398 fullorðnum sem ekki stunda hreyfingu. Þeim var fylgt eftir að meðaltali í nærri 7 ár.

„Við höfum vitað að hreyfing geti haft áhrif á krabbameinstíðni en það er frábært að sjá að styttri hreyfing hjá kyrrsetufólki geti haft svona góð áhrif,“ segir Sigurdís Haraldsdóttir, yfirlæknir krabbameinslækninga á Landspítala og dósent við læknadeild HÍ.

Rannsóknin sýnir að kyrrsetufólk sem stundar kröftuga hreyfingu í 3,4-3,6 mínútur á dag getur minnkað heildaráhættu á krabbameini um 17-18%. Væru mínúturnar 4,5 minnkar áhættan um 20%. Rannsóknin sýnir einnig að áhrifin eru enn meiri fyrir þau 13 krabbamein sem vitað er að tengjast hreyfingu, svo sem brjósta-, ristil- eða lungnakrabbamein. Sambandið er nánast línulegt.

Niðurstöðurnar gætu auðveldað einhverjum læknum að hvetja skjólstæðinga sína áfram, því ljóst er að hvert skref skiptir máli.

Vísindagreinin í JAMA Oncology sýnir árangur af nokkurra mínútna ákafri hreyfingu. Mynd/skjáskot

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica