09. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Ólafur Baldursson og vinnuhópur móta heilbrigðiskerfið

„Ég tek hattinn ofan fyrir ráðherranum að ráðast í verkið,“ segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala í ársleyfi. Heilbrigðisráðherra hefur falið honum að leiða vinnuhóp um verkefnið „Framtíð læknisþjónustu á Íslandi“ en það á rætur að rekja til nýs kjarasamnings lækna

„Þetta er spennandi og hefði gjarnan mátt gera fyrir löngu síðan,“ segir Ólafur Baldursson læknir sem mun vinna að mótun framtíðarlæknisþjónustu á Íslandi með vinnuhópi skipuðum fulltrúum frá Læknafélagi Íslands og Embætti landlæknis.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að Ólafur eigi að tryggja samhæfingu og samþættingu verkefnisins með viðeigandi aðkomu, samþykki og þátttöku haghafa. Það verður unnið í nánu samstarfi við Landspítala, aðrar heilbrigðisstofnanir og hagaðila og með Landsráði um mönnun og menntun heilbrigðisstarfsfólks, en á ábyrgð ráðherra innan skrifstofu innviða í heilbrigðisráðuneyti.

„Verkefnið á uppruna sinn í bókun í síðasta kjarasamningi lækna og ríkisins. Þar er kveðið á um að vinnuaðstaða og mönnun verði skoðuð sérstaklega,“ segir Ólafur, sem verður í ársleyfi frá stjórnunarstörfum á Landspítala til að vinna verkið. Hann var einmitt í einu slíku og kemur frá Svíþjóð þar sem hann var í ár í stjórnunarstöðu á Karólínska.

„Ég er byrjaður að skoða gögnin,“ segir hann. „En eins og ég sé þetta verkefni þá fjallar það um að ná breiðri sátt um að gera gott kerfi enn betra og sjálfbært til framtíðar. Þetta er metnaðarfullt en maður spyr sig: Var þetta ekki til? Stutta svarið er eiginlega nei, og þess vegna ánægjulegt að heilbrigðisráðherra ráðist nú í þetta.“

Ólafur Baldursson lyf- og lungnalæknir er kominn úr ársleyfi sem framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala og er á leið í annað leyfi til að meta mönnunar- og þjónustuþörf heilbrigðiskerfisins. Mynd/Rut

Ólafur segir alþjóðlega gæðavísa sýna að íslenska heilbrigðiskerfið sé gott en notkunin á því sé býsna mikil. „Það má alveg spyrja um skilvirkni og velta fyrir sér hvort ekki sé hægt að tengja betur saman þætti og gera það þannig skilvirkara.“ Því þurfi að skoða þörf fyrir þjónustu fyrst, sem sé misjöfn eftir landshlutum, og finna leiðir til að mæta henni án þess að takmarka þjónustuna. Þá þurfi að meta hvers konar mannafla þurfi til að uppfylla þörfina. „Markmiðið er að ná sem mestum gæðum og sjálfbærni til lengri tíma.“

En verður hlustað? „Það er alltaf hætta á því að svona stór stjórnsýsluverkefni strandi á leiðinni. Sérstaklega hvað varðar framkvæmdina. Það eru mörg dæmi um það. Það er inni í áhættugreiningunni á þessu verkefni,“ segir Ólafur.

„Það er hins vegar þannig að það er löngu kominn tími til að fara í þetta verk og gefa því góðan séns. Ég mæli eindregið með því að allir geri það. Af hverju? Jú, það er til mikils að vinna. Við viljum öll reyna að tryggja gæði og sjálfbærni þessarar mikilvægu þjónustu til lengri tíma.“

Ólafur segir að út frá sjónarhóli almennings, Læknafélags Íslands og stjórnsýslunnar sé árangur í svona verkefni gífurlega mikilvægur og gæti skapað ákveðinn frið til margra ára ef vel tekst til. „En þetta er margra ára verkefni og ég samþykkti að taka að mér fyrsta árið til að hefja það. Það er engin tilviljun,“ segir Ólafur, og að hann vilji sjá að ári hvernig gangi með framhaldið.

„Það er mikil alvara með verkefninu af hálfu ráðuneytisins og ég reikna með að allir hlutaðeigandi gefi þessu tækifæri,“ segir Ólafur, og að honum finnist vert að reyna á sig og nýta reynsluna sem hann hafi aflað sér. „Þetta er ekki lítið og létt verkefni og ég vona að það fái framgang og hlakka til að vinna að því með starfsfólki Læknafélagsins og ráðuneytisins.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica