09. tbl. 109. árg. 2023
Ritstjórnargrein
Nýskapandi nálgun. Gunnar Thorarensen
Allt er breytingum háð. Heilbrigðisþjónusta er í eðli sínu síbreytileg og kvik enda þótt læknislistin sé hefðum og vana undirorpin. Ekki þarf að líta mörg ár aftur í tímann til að sjá hvernig meðferðir og rannsóknir tóku stakkaskiptum í takt við það sem vísindin hafa leitt í ljós hverju sinni.
Framsýn og frjó hugsun er og hefur alltaf verið lykill að framþróun læknisfræðinnar en á undanförnum árum hefur slík hugsun einnig fundið sér farveg innan nýsköpunar, jafnvel þótt nýsköpun innan heilbrigðisgreina sé mögulega skemmra á veg komin en til dæmis í tæknigreinum. Eitt er þó ljóst: grundvallareiginleikar nýsköpunar eiga eftir að miðla nauðsynlegri byltingu í úrlausn þeirra áskorana sem heilbrigðisþjónusta nútímans glímir við. Af tali fjölmargra sem koma að stjórnun og veitingu heilbrigðisþjónustu í heiminum má ráða að aðferðir sem við höfum stuðst við undanfarna áratugi í skipulagi heilbrigðiskerfa standast ekki kröfurnar sem felast í flóknari meðferðarmöguleikum fyrir veikari skjólstæðinga, hlutfallslegri fjölgun aldraðra, aukinni vinnuvelferð heilbrigðisstarfsfólks og bættri öryggismenningu. Tækifærin eru ótalmörg, hvort sem litið er til stafrænna lausna, vísindalegrar nýsköpunar eða nýskapandi hugsunar, til dæmis við endurhönnun vinnuskipulags eða tilflutning verkefna.
Vísindi og nýsköpun
Kraftur vísinda og nýsköpunar er mikill. Samband vísinda og læknisfræðinnar hefur þróast í áraraðir en samband læknisfræði og annars konar nýsköpunar er öllu yngra. Nýsköpun í dag á sér oft stað án læknisfræðilegrar þekkingar eða klínískrar reynslu og læknar eru vanir að starfa í samræmi við vísindalega og gagnreynda þekkingu. Nýsköpun getur aðeins gagnast sjúklingum, heilbrigðisstarfsfólki og heilbrigðisþjónustu fyrir tilstilli trausts, greiðra samskipta og samvinnu hagaðila. Skipulagður vettvangur fyrir samskipti og greiðar samvinnuleiðir, auk þekkingar á nýskapandi hugsun og verkferlum nýsköpunarverkefna verður að vera til staðar meðal lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks. Unnið er hörðum höndum að því að bæta þessar mikilvægu forsendur nýsköpunar á víðum grundvelli, meðal annars innan Landspítala, heilbrigðisráðuneytis og á vegum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis og er von til þess að fræðslumöguleikar lækna á vettvangi nýsköpunar og þróunar munu aukast til muna.
Mörg frábær dæmi má finna hér á landi um spennandi og gagnlega aðkomu nýsköpunarfyrirtækja að bættri heilbrigðisþjónustu, ekki síst meðal þeirra sem sérhæfa sig í stafrænum lausnum. Þá er ekki ofsagt að Ísland sé í fararbroddi í heimi lífvísindanna, eins og nýleg dæmi um vísindalega nýsköpun í meðferð sára og augnsjúkdóma bera eftirtektarverðan vitnisburð um. Í mörgum tilvikum eru læknar virkir þátttakendur eða frumkvöðlar í nýsköpunarverkefnum en í öðrum veigra skipuleggjendur sér við að falast eftir þátttöku lækna, vitandi að dagskrá þeirra er svo þétt að erfitt er að tryggja aðild þeirra að verkefnavinnu utan klínískra starfa. Þetta er áskorun af sama meiði og er uppi um þátttöku lækna í vísindavinnu og er von að þeir svari kallinu sem rennur blóðið til skyldunnar að leiðrétta þetta, þar með talið læknar sjálfir, stéttarfélag þeirra og vinnuveitendur.
Nýsköpun og öryggi í heilbrigðisþjónustu
Nýsköpun í heilbrigðisþjónustu er að vissu leyti frábrugðin nýsköpun í öðrum greinum en öryggi sjúklinga verður að tryggja við innleiðslu nýjunga í hvívetna. Öryggi er hornsteinn öflugrar heilbrigðisþjónustu. Það er mikil áskorun fyrir löggjafann og eftirlitsaðila að leita nýs jafnvægis í takt við hraðari og nýstárlegri breytingar. Eftirlitsumhverfi og regluverk verður í senn að tryggja öryggi og miðla um leið framþróun. Skýrt dæmi um slíka áskorun er að skilgreina hvað telst læknisþjónusta og hvað ekki, til að tryggja viðeigandi eftirlit á réttum stöðum. En í stað boða og banna má með skýru regluverki og öflugri fræðslu til handa öllum hagaðilum, þar með talið sjúklingum, sá fræjum gagnsæis, heiðarleika og trausts. Í réttu umhverfi getur öflug nýsköpun raunar leitt til aukins öryggis sjúklinga.
Nýsköpun í heilbrigðisþjónustu mun miðla mikilvægum og nauðsynlegum breytingum á næstu árum. Læknar eru ef til vill ekki að leita leiða til að finna hjólið upp á nýjan leik, heldur fremur að nýjum og bættum leiðum til að veita heilbrigðisþjónustu með skilvirkari hætti, nýta fjármuni svo að þeir nýtist flestum með bestum hætti og bæta heilsu og öryggi sjúklinga sinna. Til þess þurfa læknar að byggja brýr til samstarfsaðila sinna, fræðast og taka þátt í nýsköpun til framtíðar.