0708. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Hæstánægður með val mitt. Ólafur Pálsson

Hvernig varð sérgrein lækna fyrir valinu? Hvar lærðu þeir?
Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?

Þegar ég var á fjórða ári í læknadeild sagði ég við vin minn Arnar Sigurðsson að ég ætlaði aldrei í lyflækningar, og af öllum sérgreinum lyflækninga allra síst í gigtarlækningar.

Að velja sérgrein er nokkuð sem hefur mikil áhrif á alla starfsævina og í raun lífsstílinn um áratuga skeið. Ákvörðunin velkist því lengi fyrir mörgum, skera eða ekki skera, vaktir eða ekki vaktir. Ég var þó einn af þeim lánsömu þar sem sérgreinin birtist mér smám saman án þess að ég færi í mikið ákvörðunarferli.

Ég áttaði mig fljótlega á því að ég naut þess best að vinna á daginn og sinna langvinnum sjúkdómum frekar en bráðum uppákomum. Ég byrjaði í nýendurreistu lyflækningaprógrammi og kláraði það hér heima 2018. Ég hafði mjög gaman af vel flestum sérgreinum sem ég kynntist á þessum tíma og var því tvímælalaust næmur fyrir utanaðkomandi áhrifum þegar stóð til að velja undirsérgrein.

Að lokum hafði ég grisjað valið niður í gigtarlækningar eða lyflækningar krabbameina. Tveir læknar koma eru efst í huga þegar ég stóð á þessum tímamótum og þeir sveifluðu pendúlnum í sína átt, þeir Ragnar Freyr Ingvarsson með orku sinni og ákefð og Björn Guðbjörnsson sem leiðbeindi mér um vísindaheiminn. Þeir höfðu báðir mikil áhrif á að ég valdi á endanum gigtarlækningar og ég nýt enn í dag ómetanlegs stuðnings frá þeim báðum og á þeim mikið að þakka.

Ragnar kom mér í samband við gigtardeildina í Lundi í Svíþjóð þar sem ég síðan fór út í sérnám. Ég fékk allar lyflækningar metnar frá Íslandi athugasemdalaust (tvö ár samkvæmt sænsku námskránni) og var því einungis tæp fjögur ár erlendis. Hugurinn leitaði fljótlega heim þegar fór að líða undir lok sérnámsins enda vorum við þar heldur einangruð frá upphafi heimsfaraldursins (grínlaust grímulaust). Við vorum flutt heim til Íslands tveimur mánuðum eftir að ég kláraði sérnámið. Úti byrjaði ég doktorsnám við bæði Háskóla Íslands og Lunds Universitet og nýtti mér frábæra möguleika til að sinna vísindavinnu meðfram klínísku starfi í Svíþjóð.

Hvað varðar sjálfa sérgreinina geta sjúkdómar ónæmiskerfisins verið heillandi, en það voru þó ekki fræðin sem toguðu sterkast í mig. Ég hef gaman af því að kynnast sjúklingum mínum, hitta þá reglulega og endurtekið og fylgja þeim í gegnum langt sjúkdómsferli. Að viðhalda vinnufærni og lífsgæðum þrátt fyrir hamlandi sjúkdóma og að styðja við endurhæfingu og verkjameðferð með heildarsýn yfir fjölbreytta sjúkdómsmynd. Að stíga til baka, horfa á skóginn frekar en trén þegar maður er að vinna upp sjúkdóma sem birtist í mörgum líffærakerfum. Síðan að lokum er sjaldnast eitt svar rétt í minni sérgrein og það er mjög gefandi að setja sameiginleg markmið með sjúklingi og leggja upp áætlun til að reyna að uppfylla þau. Ekki spillir fyrir að fá að gera mikið af klínískum ómskoðunum af stoðkerfinu, ég er mikill tækjakall og sé fyrir mér að ómskoðanir komi sífellt meira inn í bæði greiningu og eftirfylgd liðbólgusjúkdóma.

Í dag rek ég stofu í Gigtarmiðstöðinni í Heilsuklasanum og starfa bæði á gigtardeild og almennri lyflækningadeild á Landspítala.

Það er ekkert eitt rétt svar. Aldrei segja aldrei, mögulega endar maður í sérgrein sem manni þótti óspennandi áður. Ég er hæstánægður með val mitt á sérgrein og ég veit vel að ég er nú í einu skemmtilegasta starfi í heimi.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica