0708. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Eigum við nóg af læknum til að svara eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu?

Þegar kórónuveirufaraldurinn (COVID-19) breiddist út um allan heim brugðust þjóðir fljótt við til að takast á við þá ógn. Faraldurinn varpaði ljósi á þörfina að styrkja stoðir heilbrigðiskerfisins því að útgjöld til heilbrigðismála á Vesturlöndum jukust verulega í COVID-19. Þótt útgjöldin hafi aukist er enn umframeftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu enda fór mikið af auknum útgjöldum í baráttuna við COVID-19 en ekki í meiri almenna heilbrigðisþjónustu.

 

Biðlistar eftir ýmsum aðgerðum voru langir áður en COVID-19 brast á og faraldurinn hægði á framleiðni í heilbrigðiskerfinu. Ýmsir biðlistar hafa því lengst og kerfið er víða ekki í stakk búið til að auka við framleiðni og vinna á biðlistunum. Má þar nefna að rúmanýting Landspítala hefur verið óeðlilega há á undanförnum árum. Slíkt getur valdið mikilli pressu á útskriftir og gert það að verkum að erfiðara er að leggja sjúklinga inn á yfirfullan spítala. Þetta veldur meira álagi á þá sem sinna sjúklingunum. Einnig getur þetta lengt bið eftir aðgerðum sem ekki eru bráðaaðgerðir þar sem bráðveikum sjúklingum er forgangsraðað inn á spítalann. Vel þekkt er að þeim sem eru lengi á biðlista hrakar og geta þurft meiri þjónustu þegar loks kemur að þeim.

Lýðfræðilegar breytingar og eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu

Fólksfjölgun og breytingar á aldurssamsetningu þjóða vega þungt í eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu. Í fyrra fjölgaði landsmönnum um 11.510 frá 1. janúar 2022 til 1. janúar 2023. Þetta er mesta fólksfjölgun frá upphafi talningar, aðallega til komin vegna aðflutnings erlendra ríkisborgara.1 Hlutfall aldraðra, 67 ára og eldri, hefur jafnframt aukist. Hlutfallið hefur farið úr því að vera um 7% árið 1970 í um 13% árið 2023. Fyrirséð er að þetta hlutfall muni aukast enn frekar. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar er gert ráð fyrir að hlutfallið verði um 16% árið 2030 og um 18% árið 2040. Þessi aukning mun óhjákvæmilega valda enn meiri eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu.

Offita er vaxandi vandamál á Íslandi, bæði hjá börnum og fullorðnum. Hún getur aukið hættu á sykursýki, heilablóðfalli og hjartasjúkdómum. Algengi offitu er hæst á Íslandi í OECD-löndunum. Ef ekkert breytist í þeim efnum má búast við að kvillar vegna offitu kalli á meiri eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu hér á landi en annars staðar.3

Framþróun í upplýsingatækni hefur aukið væntingar fólks til heilbrigðisþjónustu. Heilsuvera er þar skýrt dæmi en hún er orðin stór hluti af daglegri vinnu heimilislækna. Við hafa bæst fjölmörg skilaboð ofan á fulla vinnu. Þessi þjónusta er því hrein viðbót við hefðbundna þjónustu heimilislækna og eykur þannig eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu hjá þeim sem nýta sér tæknina.

Álag á heilbrigðiskerfið og ferðamenn

Í greiningu Eflu kemur fram að fjöldi koma erlendra ferðamanna á slysa- og bráðadeildir rúmlega þrefaldaðist frá 2010 til 2017 eða frá 1300 í 4300.2 Hlutfall erlendra ferðamanna í komum á slysa- og bráðamóttökur jókst jafnframt úr tæpum 2% 2010 í um 4% 2017. Í sjúkraflutningum var hlutdeild erlendra ferðamanna um 5% 2017 samanborið við um 3% árið 2013. Ljóst er að vaxandi fjölda erlendra ferðamanna fylgir aukið álag á heilbrigðiskerfið. Fjöldi ferðamanna var um 2,2 milljónir árið 2017. Því er spáð að fjöldi ferðamanna árið 2023 verði um 2 milljónir, rúmlega 2,3 milljónir árið 2024 og rúmlega 2,5 milljónir 2025.

Skortur á læknum

Ein helsta áskorunin í heilbrigðiskerfinu er skortur á heilbrigðisstarfsfólki. Stöðugildum sérgreina- og yfirlækna á spítölum á Íslandi fjölgaði einungis um 2,2% árin 2010-2021 sem mætir engan veginn eftirspurn nú, hvað þá á komandi árum. Aðrar þjóðir eru í sama vanda. Í Noregi er fjöldi starfandi lækna á íbúa með því hæsta í heiminum. Læknum þar hefur fjölgað þrefalt hraðar en íbúum landsins. Fjöldi starfandi lækna í Noregi er tilkominn vegna lækna sem menntaðir eru á erlendri grund, bæði norska og erlenda ríkisborgara. Hlutfall starfandi lækna sem menntaðir eru í öðrum löndum og/eða hafa erlend ríkisföng er eitt það hæsta í heiminum, eða 47,1%.4 Þrátt fyrir þetta er áætlað að það skorti 1200 sérfræðinga og 300 heimilislækna í Noregi. Þetta lýsir hversu mikil eftirspurn er í raun eftir læknum.5

Fólksfjölgun, breytingar á aldurssamsetningu, hátt hlutfall offitu og æ fleiri erlendir ferðamenn eru allt þættir sem munu auka þörfina fyrir heilbrigðisþjónustu. Nauðsynlegt er að tryggja mönnun og styrkja stoðir heilbrigðiskerfisins svo mæta megi áskorunum framtíðarinnar.

Heimildir

 

1. Mannfjöldinn 1. janúar 2023 - Hagstofa Íslands. - júní 2023.
 
2. Álagsmat umhverfis, innviða og samfélags gagnvart fjölda ferðamanna á Íslandi. 2018. EFLA. stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/ANR/FerdaThjonusta/C.1%20-%20Heilbrig%C3%B0is%C3%BEj%C3%B3nusta.pdf - júní 2023.
 
3. Health at a Glance: Europe 2020: State of Health in the EU Cycle. OECD Publishing, París 2020.
 
4. Yrkesaktive leger i Norge etter utdanningsland. Den Norske legeforening. legeforeningen.no/om-oss/legestatistikk/ - júní 2023.
 
5. Flere studieplasser for høsten? Den Norske legeforening, legeforeningen.no/foreningsledd/student/norsk-medisinstudentforening/nyheter/flere-studieplasser-fra-hosten/ - júní 2023.
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica