0708. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Doktorsvörn frá Háskóla Íslands: Arnar Jan Jónsson

Arnar Jan Jónsson varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands 23. júní síðastliðinn. Ritgerðin ber heitið: Langvinnur nýrnasjúkdómur á Íslandi: Algengi, nýgengi, áhættuþættir og afdrif.

Andmælendur voru Alberto Ortiz, prófessor við Jiménez Diaz-heilsustofnunina, háskólanum í Madrid á Spáni, og Dorothea Nitsch, prófessor við London School of Hygiene and Tropical Medicine og Royal Free London NHS Foundation Trust. Umsjónarkennari var Runólfur Pálsson prófessor og leiðbeinandi var Ólafur Skúli Indriðason sérfræðilæknir. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Bjørn Odvar Eriksen og Sigrún Helga Lund prófessorar.


Myndir/Gunnar Sverrisson

Úr ágripinu

Langvinnur nýrnasjúkdómur er talinn lýðheilsuvandamál vegna veikindabyrði, aukinnar dánartíðni og mikils kostnaðar við meðferð lokastigsnýrnabilunar. Markmið verkefnisins var að kanna algengi, nýgengi og áhættuþætti í almennu þýði á Íslandi ásamt afdrifum einstaklinga, miðað við ströng skilmerki KDIGO. Auk lækkaðs reiknaðs gaukulsíunarhraða (r-GSH) var leitað eftir öðrum teiknum um nýrnaskemmdir og langvinnt ástand (>90 daga) var sett sem skilyrði. Einnig voru metin áhrif aldursaðlagaðra GSH-viðmiða á faraldsfræði sjúkdómsins. Þá voru skoðuð tengsl áhættuþátta við tilkomu hans og tengsl r-GSH, og hætta á dauða og alvarlegum hjarta- og æðasjúkdómum áætluð með því að nota samsett líkan.

Niðurstöðurnar sýna að þegar ströngum skilmerkjum er beitt reynist algengi lægra en fundist hefur í flestum öðrum birtum rannsóknum, auk þess sem nýgengi er lágt.

Doktorinn

Arnar Jan Jónsson er stúdent af náttúrufræðibraut MR. Hann lauk BS-prófi 2011 í læknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands og embættisprófi 2014. Hann stundar nú sérnám í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg í Svíþjóð.

Hvað segir nýdoktorinn?

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Mér finnst erfiðleikastigið sveiflukennt og reynir óneitanlega meira á núna á lokasprettinum. Ég er mjög lánsamur með leiðbeinendur og hef fengið góðan stuðning frá þeim. Ætli meðaltalið væri ekki kringum 7.

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Efla vísindastarf, sem hefur orðið fyrir hnignun undanfarin ár, og minnka sóun í sínum víðasta skilningi.

Hvaða bók, þættir, músík, líkamsrækt er best?

Núna er ég að lesa Markings eftir Dag Hammarskjöld í enskri þýðingu. Bókin inniheldur dagbókarfærslur þessa merka manns og lýsir helst andlegum áskorunum hans á lífsleiðinni. Svo hef ég líka verið að glugga í Jón Kalman.

Ég horfi óskaplega lítið á sjónvarp og hef ekki þá seiglu sem þarf til þess að horfa á heila seríu. Ég er mikill sökker fyrir spennumyndum sem komu út á árunum 1995-2000 og þar var 1997 einstaklega farsælt ár með myndum á borð við Con Air og Face/Off. Mínar uppástungur fá þó ekki alltaf mikinn hljómgrunn á heimilinu.

Flest líkamsrækt höfðar til mín. Ég hef verið að máta mig við hlaup undanfarna mánuði og gengur ágætlega. Keypti að minnsta kosti hnéháa hlaupasokka, vesti og hlaupagleraugu svo ég verð að uppfylla ákveðinn standard. Ég er heppinn að geta alltaf leitað til Árna Heiðars Geirssonar, okkar fremsta hlaupara í stéttinni, ef mig vantar innblástur.

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

Ég er svona túrakarl þegar kemur að áhugamálum en það sem kemur almennt fyrst í hugann eru föstudagskvöld með fjölskyldunni. Það er eitthvað draumkennt við það að slaka á við pítsugerð, ræða um daginn og veginn og fylgjast með börnunum leika sér.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica