0708. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bókin mín. Sögur sem snerta. Þórgunnur Ársælsdóttir

Hvaða bók hefur fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?

„Bestu rök í heimi ná ekki að breyta skoðunum manna. Það eina sem getur gert það er góð saga.“

– Richard Powers, The Overstory

Þegar ég var barn var hið ljúfa líf í mínum huga að kúra með góða bók og gjarnan líka með nammi í skál. Þegar ég hugsa um bækur sem hafa haft mest áhrif á mig þá koma bækur barnæskunnar sterkar fram. Þá voru uppáhalds bækurnar lesnar mörgum sinnum. Bækurnar hennar Astrid Lindgren og þá sérstaklega hin óviðjafnanlega Lína Langsokkur voru og eru í sérstöku uppáhaldi. Mig langaði að vera eins hugrökk og Lína. Ég er ekki í vafa um að hún hefur oft veitt mér innblástur í gegnum tíðina.

Spennandi ævintýrabækur um töfraheima hafa alltaf heillað mig. Èg hef ekki tölu á því hversu oft ég hef lesið Harry Potter og Hringadróttins sögurnar. Bæði fyrir mig sjálfa og fyrir syni mína þegar þeir voru börn. Ég beið, vandræðalega spennt, í röð með öðrum bókaormum fyrir utan bókabúð í Barcelona sumarið 2007 á útgáfudegi síðustu Harry Potter-bókarinnar. Skipulagði fríið mitt út frá því að ekkert myndi trufla lesturinn næstu daga. En hélt því leyndu.

Bækur hafa töframátt, því þær opna fyrir okkur nýja heima. Höfundar deila með okkur reynslu sinni og sköpun. Eins og allt sem snertir, mótar það okkur. Við eigum líka öll okkar eigin sögur. Hvernig við túlkum það sem gerist í lífi okkar hið innra og hið ytra og setjum það í samhengi við lífið og aðra. Í læknisstarfinu deila sjúklingar með okkur sínum sögum og reynslu. Gefa okkur þá gjöf að stækka reynsluheiminn. Stundum finnst mér í starfi geðlæknisins eins og ég hafi fengið að gjöf viðbótar lífsreynslu og upplifun sem sjúklingar hafa deilt með mér. Þær gjafir hafa víkkað minn sjóndeildarhring. Það eru bestu sögurnar, því þær eru sannar.

Þegar ég var læknanemi las ég bókina The Cider House Rules eftir John Irving. Hún fjallar um ungan mann sem alinn er upp á heimili fyrir munaðarlaus börn og lækni sem bæði tekur á móti óvelkomnum börnum og aðstoðar konur ólöglega við þungunarrof. Bókin fjallar um viðkvæmt málefni frá ýmsum hliðum. Þetta var holl lesning á þeim aldri þegar ég hafði meiri tilhneigingu til að telja mig vita svörin við stórum spurningum en nú. Persónur bókarinnar eru áhugaverðar og margbrotnar og við lesturinn stendur manni ekki á sama um hvað verður um þær. Mér fannst saga gamla læknisins áhrifarík. Hvernig hans líf og skoðanir mótuðust. Eftir bókinni hefur verið gerð góð bíómynd, en bókin er mun dýpri.

Bókin Born a Crime (Glæpur við fæðingu) eftir suður-afríska sjónvarpsmanninn og skemmtikraftinn Trevor Noah er ein skemmtilegasta ævisaga sem ég hef lesið. Hún er einnig afar áhugaverð. Nafn bókarinnar er dregið af því að faðir hans er frá Sviss og með hvítan húðlit, móðir hans frá Suður-Afríku og með svartan litarhátt. Þegar hann fæddist árið 1984 voru náin samskipti milli fólks með ólíkan húðlit bönnuð. Það snart mig djúpt að lesa um lífið á tímum aðskilnaðarstefnunnar. Okkar samtíma. Það er enginn skortur á dramatískum atburðum sem hann hefur upplifað, en bókin er skrifuð með leiftrandi húmor. Það er galdur að geta miðlað áhugaverðum og á tíðum dimmum sögum með ljósi kímnigáfunnar.

Ég skora á Eirík Jónsson þvagfæraskurðlækni að skrifa næsta pistil.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica