0708. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Öldungar fagna því að vinna megi til 75 ára, segir Óttar Guðmundsson

Heilbrigðisstarfsfólki sem vinnur klínísk störf verður frá áramótum gert kleift að vinna til 75 ára aldurs hjá opinberum heilbrigðisstofnunum á grundvelli ráðningarsamninga. „Ég fagna þessu og er mjög ánægður með þessa breytingu,“ segir Óttar Guðmundsson formaður Öldungadeildar Læknafélagsins og geðlæknir.

Alþingi samþykkti þetta frumvarp Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra sem felur í sér tímabundna undanþágu frá almennri reglu um 70 ára starfslokaaldur ríkisstarfsmanna. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Ákvæðið gildir frá 1. janúar 2024 til 31. desember 2028:

Óttar Guðmundsson, formaður Öldungadeildar Læknafélagsins, segir mikilvægt að læknar yfir sjötugu sitji við sama launaborð og aðrir læknar. Mynd/gag

„Skilyrði fyrir undanþágunni er að starfið felist í beinum samskiptum við sjúklinga, stoðþjónustu eða rannsóknum í tengslum við þjónustu við sjúklinga, eða handleiðslu yngra heilbrigðisstarfsfólks eða nema,“ segir á vef Stjórnarráðsins. Ráðning samkvæmt þessu ákvæði skuli vera tímabundin og vara að jafnaði í eitt ár í senn og aldrei lengur en tvö ár í senn.

Óttar segir það hafa verið baráttumál félagsins að breyta aldurstakmarkinu. „Við höfum lengi verið ósátt við þessa tilhögun mála,“ segir hann og vísar til óánægju með að læknar sem vinna hjá Landspítala snarlækki í launum starfi þeir eftir sjötugt.

„Okkur hefur alltaf fundist það mikið óréttlæti. Ég vann til að mynda í 5 ár á geðdeild Landspítala eftir sjötugt og launin þá lægri en þegar ég var fastur starfsmaður. Það er engin glóra í því.“ Sé tekið á þessu sé það mjög til bóta. „Já, það er grundvöllur ánægju okkar að við sitjum við sama borð þótt við séum komin á aldur – að við lækkum ekki í launum.“

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica