06. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Heimþrá. Katrín Þórarinsdóttir

Eins og svo margir læknar fluttum við fjölskyldan út til þess að halda áfram sérfræðinámi. Við fluttum mitt í krísunni 2009 með allt okkar hafurtask og enduðum í úthverfi í Gautaborg. Við bjuggum nálægt ströndinni og gátum á sólríkum dögum rölt niður að hafinu og eytt deginum með sandinn á milli tánna. Það virtist vera mun meiri tími fyrir útivist en á Íslandi því að veðrið var alltaf gott, að okkur fannst. Svíunum fundust reyndar sumrin oft frekar köld á meðan við vorum alsæl í skerjagarðinum. Okkur gekk ágætlega að aðlagast Svenson og sænskum hefðum. Stelpurnar sungu íslenskuna og við slettum sífellt meira á sænsku. Jajamensan. Helsti galli þessarar útrásar var sú að stórfjölskyldan var auðvitað áfram á Íslandi og þó að við reyndum að heimsækja landið og hela familjen á hverju sumri misstum við af mörgum stórafmælum, brúðkaupum og ættarmótum. Einnig fundum við mikið fyrir fjarlægðinni þegar okkar nánustu ættingjar veiktust alvarlega. Það reyndist okkur þungbært.

Einn af eldri kollegunum á deildinni sem ég vann á spurði mig af og til fyrstu árin í hálfkæringi hvenær við ætluðum að flytja til baka til Íslands. Hann var kominn á eftirlaunaaldur og hafði kynnst nokkrum íslenskum læknum. Hans reynsla var sú að allir íslenskir læknar flyttu að lokum heim og fannst honum þetta mjög merkilegt. „Af hverju snúið þið öll til baka? Að hverju eruð þið að leita, eftir svona mörg ár í Svíþjóð?“ Eftir að ég hafði verið á deildinni í hátt í 9 ár hætti hann að spyrja. Hann hefur líklegast talið að hættan á svona vitleysu væri liðin hjá.

Mæðgurnar Katrín, Lena Rún og Klara Sif við eldgosið í Meradölum í Fagradalsfjalli í ágúst 2022. Myndina tók fjölskyldufaðirinn, Aron Freyr Lúðvíksson.

Við fluttum til Englands í miðjum COVID-faraldrinum því að ég hafði fengið tækifæri til rannsókna við virtan háskóla í fallegum háskólabæ. Þetta var ekta enskur smábær, svona eins og maður sér í breskum sakamálaþáttum með fallegum skökkum húsum og vel hirtum görðum. Stelpurnar blómstruðu í skólanum og þetta var stundum eins og að vera í mjög löngu fríi þar sem allt er nýtt. Við höfðum verið í Englandi í næstum ár og brátt var komið að heimferð til Svíþjóðar. Þá fór að bera á einhverri nýrri tilfinningu hjá mér. Hún byrjaði smátt en óx með hverjum deginum og varð stundum eins og kökkur í hálsinum á mér. Þetta var söknuður án andlits. Ég fann hvað ég saknaði landsins míns mikið, tungumálsins sem ég ólst upp við, tónlistarinnar, íslensks húmors, íslenskra fjalla og elsku fjölskyldunnar og vina. Þessi söknuður fléttaðist saman við sorgina sem ég fann fyrir þegar ég hugsaði til ættingja sem höfðu látist á meðan ég var í Svíþjóð. Mig fór að dreyma Ísland.

Eitt kvöldið, eftir um 12 ára veru erlendis, varð þessi tilfinning of sterk og ég tilkynnti eiginmanninum að ég vildi flytja heim. Þegar við sögðum stelpunum okkar tveimur að stefnan væri tekin á Ísland virtist það ekki koma þeim mikið á óvart og þær tóku þessu af mikilli ró. Þær voru tilbúnar að flytja til Íslands og prófa fyrir okkur foreldrana.

Við sjáum ekki eftir því að hafa flutt heim. Við erum kannski lítil þjóð á afskekktri eyju sem gleymist stundum að merkja inn á landakortin, en Íslendingar eru samheldnir og hlýir í köldu og stórbrotnu landi. Ég hef að minnsta kosti hvergi séð fallegra sólarlag.

                         Römm er sú taug

                         er rekka dregur

                         föðurtúna til.

                                             (Ovid/Sveinbjörn Egilsson þýddi)


 Þetta vefsvæði byggir á Eplica