06. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Sérgreinin: Tvístígandi en valdi sýklafræði. Hannes Bjarki Vigfússon

Hvernig varð sérgrein lækna fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?

Það var sýklafræðikúrsinn á þriðja árinu í læknadeildinni sem kveikti áhuga minn á sýklafræði og smitsjúkdómum. Á þeim tíma kom ekkert annað til greina en að sinna sjúklingum og því var stefnan tekin á smitsjúkdómalækningar. Eitthvað togaði sýklafræðin þó í mig því ég valdi að vinna BS-verkefnið mitt á sýklafræðideildinni og rannsakaði faraldsfræði ESBL-myndandi baktería á Íslandi. Valtímabilinu á 6. árinu varði ég svo í það að kynna mér smitsjúkdómalækningar á Landspítala. Það var skemmtileg reynsla sem varð til þess að auka áhuga minn á smitsjúkdómum enn frekar. Ég útskrifaðist úr læknadeildinni 2013 og eftir kandídatsárið byrjaði ég í sérnámi í lyflækningum. Tíminn á lyflækningasviði var lærdómsríkur og hafði ég mjög gaman af smitsjúkdómalækningunum. Hins vegar hafði ég ekki alveg sama brennandi áhuga á almennu lyflækningunum og eftir um tvö ár í lyflæknaprógramminu ákvað ég að kynna mér aðra valkosti. Ég vann um tíma á taugadeildinni og líkaði mjög vel. Alltaf blundaði þó í mér áhugi á smitsjúkdómum og sýklafræði sem varð til þess að ég hafði samband við Karl G. Kristinsson yfirlækni varðandi vinnu á sýkla- og veirufræðideildinni. Ég fékk tímabundna stöðu þar til að kynna mér sérgreinina og eftir það var ekki aftur snúið. Í kjölfarið lá leiðin til Svíþjóðar og sumarið 2018 byrjaði ég í sérnámi í sýklafræði við háskólasjúkrahúsið í Örebro. Ef allt gengur samkvæmt áætlun klára ég námið í haust.

Starf sýklafræðings er fjölbreytt og verkefnin geta verið mjög mismunandi frá degi til dags. Starfið felur meðal annars í sér vinnu á rannsóknarstofu, svo sem smásjárskoðun sýna og aflestur ræktana, en einnig túlkun á niðurstöðum mótefnamælinga og sameindalíffræðilegra rannsókna eins og kjarnsýrumögnun (PCR) og raðgreiningu. Allar rannsóknarniðurstöður þarf að túlka í klínísku samhengi og miðla síðan upplýsingunum til þeirra sem sjá um meðferð sjúklinganna. Þetta gerir það að verkum að klíníkin er aldrei fjarri og sýklafræðingar koma með óbeinum hætti að greiningu og meðferð flestra alvarlega veikra sjúklinga á spítalanum.

Annað sem er spennandi við sýklafræðina er sú öra þróun sem er í faginu, bæði vegna tækniframfara en einnig vegna þróunar sýklanna og tilkomu nýrra sýkla. Nýlegur heimsfaraldur SARS-CoV-2 er ágætis dæmi um slíkt og sennilega ekki síðasti faraldurinn eða nýi sjúkdómurinn sem ég mun sjá á mínum ferli. Sýklalyfjaónæmi meðal baktería heldur einnig áfram að aukast, eitthvað sem ógnar bæði meðhöndlun sýkinga og nútímalæknisfræði almennt. Þetta skapar til dæmis nýjar áskoranir hvað varðar rannsóknaraðferðir og svarstíma næmisprófa til að leiðbeina meðferð.

Það er því óhætt að segja að það sé mikið af spennandi verkefnum framundan og eftirspurnin eftir sýklafræðingum til að takast á við þau er mikil. Ég er mjög ánægður með val á sérgrein og hvet þá sem hafa áhuga á sýklafræði og smitsjúkdómum til að íhuga að leggja fagið fyrir sig.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica