06. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Sérgreinin: Sýklafræði. Karl G. Kristinsson
Hvernig varð sérgrein lækna fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?
Þegar ég var í læknadeildinni var ég frekar tvístígandi varðandi val á sérgrein og velti helst fyrir mér lyflækningum og barnalækningum. Á kandídatsárinu vann ég á lyflækningadeild Landspítala og var mikið með Sigurði B. Þorsteinssyni, smitsjúkdómalækni. Hann vakti áhuga minn á smitsjúkdómum og stefndi ég á sérnám í þeirri grein. Svo var það eftir kandídatsárið að Arinbjörn Kolbeinsson, yfirlæknir á sýklarannsóknadeild Landspítala, bauð mér vinnu á deildinni. Mér fannst þetta tilvalið tækifæri til að læra meira í sýklafræði og sló til. Kynni mín af sýklafræði hófust reyndar í sumarvinnu hjá Margréti Guðnadóttur, prófessor, eftir þriðja árið í læknisfræði. Skemmtilegur tími og eftirminnilegur í húsi sem kallað var gamla þvottahúsið og hýsir nú ónæmisfræðideildina. Dvöl mín á sýkladeildinni varð til þess að ég ákvað að fara í sérnám í sýklafræði. Hafði alltaf dáðst að störfum tveggja fyrirrennara minna, þeirra Níelsar Dungal, prófessors, og Björns Sigurðssonar á Keldum. Þeir voru báðir miklir brautryðjendur í sýklafræði hér á landi. Mér fannst vera svo margt hægt að gera í þessari fræðigrein hér á landi, fræðigrein í þróun og góðir möguleikar á að þróa starfið eftir áhuganum á hverjum tíma.
Þegar kom að því að ákveða hvar ég ætlaði að sérmennta mig, vildi ég halda tengslum við klíníkina. Það voru því helst Bretland og Danmörk sem komu til greina. Ekki var einfalt að fá stöðu í Bretlandi, en svo vel vildi til að Kristín Jónsdóttir, sérfræðilæknir á sýklarannsóknadeildinni, þekkti til í Skotlandi og kom mér í samband við prófessor Morag C. Timbury í Glasgow, en hún varð síðar yfirmaður Public Health Laboratory Service í Bretlandi. Hún bauð mér starf, en skilyrði var að fara í breska læknaprófið fyrir útlendinga. Ég fór út í byrjun árs 1982 og tók prófið í Edinborg. Dvaldi á próftímanum hjá Hermanni Pálssyni, prófessor í íslenskum fræðum, og Guðrúnu konu hans. Hermann var prófessor við Edinborgarháskóla og orðinn þekktur fyrir þýðingar sínar á íslenskum fornbókmenntum. Ég starfaði í Glasgow þangað til ég hafði lokið fyrra hluta sérnámsins og tók svo síðari hluta sérnámsins á háskólasjúkrahúsunum í Sheffield. Til að fá bresk sérfræðiréttindi þurfti að taka próf á vegum Royal College of Pathologists. Tók það heilan dag í skriflegu og þrjá daga í verklegu og munnlegu. Ég stundaði vísindarannsóknir á sérnámstímanum í Sheffield og sem Research Fellow við Hygiene Institut háskólans í Köln. Það kom mér á óvart hvað aðstæðurnar á þýsku rannsóknastofunni voru nýtískulegri. Þetta varð svo doktorsverkefni mitt við Sheffield-háskólann.
Síðan ég kom heim eftir sérnám haustið 1988 hef ég unnið á sýkla- og veirufræðideild Landspítala og við læknadeild Háskóla Íslands sem dósent/prófessor. Í upphafi starfsferilsins var aðferðafræðin nánast sú sama og á tímum Pasteur og Koch. Framfarir í erfðafræði hafa nú gjörbreytt fræðigreininni. Greining á bakteríum og veirum er að stórum hluta framkvæmd með kjarnsýrumögnun erfðaefnis (PCR) og heilgenamengisraðgreiningar á erfðaefni örvera orðnar nauðsynlegur hluti starfsins. Greiningar sem að jafnaði tóku tvo til þrjá daga fást nú samdægurs og í sumum tilvikum á innan við klukkustund. Búast má við gríðarlegum framförum í sérgreininni á næstu árum með notkun raðgreininga og gervigreindar.
Sýklafræðin samanstendur af bakteríu-, veiru-, sveppa- og sníkjudýrafræði. Við sérfræðilæknarnir erum aðeins 8 á deildinni (og á landinu) og hver og einn þarf því að sinna mörgum og fjölbreyttum verkefnum, sem gerir starfið gefandi og skemmtilegt. Það reyndi verulega á okkur í COVID-19 faraldrinum, en það jákvæða var að tækjakostur og allur aðbúnaður deildarinnar batnaði stórlega og var ekki vanþörf á. Mikilvægt er að byggja á þeirri reynslu til framtíðar og gott væri að fá fleiri sérfræðilækna í hópinn.