06. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Læknar finna sjálfa sig í bókinni Læknir verður til eftir Henrik Garcia, hans fyrstu skáldsögu
Raunsönn lýsing. „Já, hún er líka skrifuð í rauntíma — því sem næst,“
segir Henrik Geir Garcia læknir sem horfir nú á fyrstu skáldsögu sína á topplista
Pennans Eymundsson: Læknir verður til. Bókin er grípandi. Hugsanir og lýsingar vekja
lesandann til umhugsunar. Henrik ritaði hana á meðan hann stundaði sérnám og varð faðir. Hann gaf sér svo fjögur ár í verkið og segir lækna finna samsvörun í persónusköpuninni
„Ég setti sálu mína í þetta verk,“ segir Henrik Geir Garcia, lyflæknir á Landspítala. „Þetta er fyrsta bókin mín og ég þurfti að læra hvernig á að skrifa bók. Ég las einhverjar 10 bækur um það, horfði á allar Disney-myndirnar með dætrum mínum, greindi persónurnar. Svo fór ég í miklar rannsóknir á persónuleikum, því ég þurfti að búa til persónuleika og langaði að fanga að við erum ekki öll eins,“ segir hann.
Henrik Geir Garcia hefur gefið út fyrstu skáldsögu sína byggða um reynslu sína af því að verða læknir. Hann mótar söguna út frá sjálfum sér og segir að eigin reynslu og sögupersónunnar sé fléttað saman. Fjöldi lækna hafi komið að verkinu með honum og persónurnar þar eigi sér samsvörun en sé svo breytt, rétt eins og um gervigreind væri að ræða. Mynd/gag
„Þótt hlutverk læknis krefjist þess kannski að við séum svona eða hinsegin eru á bak við hvern lækni gjörólíkar persónur. Þær koma fram á bak við tjöldin, inni í vaktherbergjunum og í einkalífinu,“ segir Henrik þar sem hann sest niður með Læknablaðinu á uppstigningardegi með kaffibolla í hönd, nýkominn úr flugi. Bókin gefur einstaka innsýn inn í læknastarfið.
„Mig langaði til að hafa mjög fjölbreytt persónugallerí. Öll þurfum við að fást við okkar eigið egó í þessu starfi. Við rekumst á hindranir og þá er áhugavert að sjá hvort við þurfum kannski að vinna í einhverju til að komast lengra. Það var mjög skemmtilegt að rannsaka mismunandi eiginleika fólks og hvenær þeir verða því til framdráttar og hvenær þeir hjálpa ekki.“ En munu einhverjir læknar þekkja sig í bók Henriks? Hann hlær.
„Þetta er mjög algeng spurning þessa dagana. Þessi saga er unnin úr raunverulegum brotum. Fólk gæti kannast við sum. Þó ber að segja að það er búið að hræra þessu svo vel saman. Þetta er ekki lengur það sem það var heldur orðið að einhverju öðru en upphaflega. Ég líki þessu við gervigreindarmyndir. Hráefnin eru orðin óþekkjanleg.“
Mikil sjálfsvinna með skrifunum
Hann segir þó að þar sem hann hafi unnið úr ákveðnum persónuleikum ættu allir að geta fundið sig í einhverjum í bókinni. Lesandinn sem tekur þetta viðtal greinir tregablandna tilfinningu í bókinni, upplifir stundum samviskubit aðalpersónunnar. Er það þannig?
„Já, maður mætir þessum rembihnút,“ segir hann. „Það fangar mann ekkert meira en illa áttaði aldraði sjúklingurinn á miðjum gangi að hrópa halló á meðan starfsfólkið er upptekið við að finna út úr því hvar hann eigi heldur að vera.“ Svona óþarfa hefur honum fundist erfitt að horfa upp á.
„Svo trúi ég því að í dýpstu gleðinni finnist vottur af trega, einkum eftir því sem persónuþroska og skilningi okkar á veröldinni vindur fram.“ Mikil sjálfsvinna sé í bókinni.
„Ég þurfti að gera upp hug minn og mynda mér skoðanir og langaði að skilja af hverju þetta er eins og það er. Það er ákaflega furðulegt að stíga inn í þetta umhverfi með þessar væntingar fyrirfram til starfsferilsins. Ég reyndi að hafa allar mannlegar tilfinningar í bókinni,“ segir Henrik sem lýsir ferðalagi læknis um heilbrigðiskerfið í bókinni; Landspítali, heilsugæsla, landsbyggð. Nú er hann sjálfur kominn aftur á Landspítala.
„Sögumaðurinn og ég eigum sama bakgrunn. Fyrsti kaflinn er óbreyttur, lýsing á mér og fólkinu mínu en síðan klofnar hann frá mér en við deilum sömu drifkröftum. Sögumaðurinn vill skilja af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru. Hann vill breyta og bæta og hann vill líka skapa og tjá sjálfan sig,“ segir hann.
„Síðan mætir sögumaðurinn persónum sem eru ekki til og eru hugarburður minn. Ég get því ekki lengur sett samasemmerki á milli okkar.“ Sögumaðurinn komi að atburðum og aðstæðum sem hann hafi ekki alltaf upplifað sjálfur heldur einhver annar eða hann skáldað.
,,Enda er verkinu ekki ætlað að lýsa mínum ferli í smáatriðum heldur að gera fyrstu starfsárum lækna skil með raunsönnum hætti, og einkum því sem gerist innra með þeim.“
Raunverulegu atvikin séu mörg lygilegri en þau skálduðu. „Þau voru svo ótrúleg að það þurfti að tóna sum niður svo þau yrðu trúverðug.“
Henrik er alinn upp af móður sinni í Reykjavík en heimsótti föður sinn reglulega til Portúgals á sumrin sem barn.
„Við erum nú í sambandi en það verður aldrei eins og byggi hann í næsta hverfi.“ Þótt pabbi hans sé fjölmiðlamaður, telur hann sköpunina ekki síður koma úr móðurættinni. Sjálfur á hann tvær dætur og lýsir togstreitu einkalífs og starfsframans vel í bókinni. Tæpum tveimur árum eldri bróðir hans, Pedro Gunnlaugur Garcia, er einnig rithöfundur og gaf út bókina Lungu sem hann fékk Hin íslensku bókmenntaverðlaun 2022 fyrir.
„Ég fékk auðvitað mikla hjálp frá honum að koma þessu frá mér. Ég held ég hafi skrifað þessa bók fjórum sinnum. Fyrsta uppkastið var ansi neikvætt.“ Það hafi því mikil vinna og skoðanamyndun farið fram í því ferli.
„Síðan sendi ég textann til margra lækna á ólíkum stigum og fékk mjög góðar ábendingar.“ Hann líti því svo á að bókin sé samvinnuverkefni við allt það fólk sem hann hafi átt við samtöl, samskipti og fengið ábendingar frá. En er heilandi að skrifa meðfram læknisstörfunum?
„Algerlega. Ég held að það sé skylda heilbrigðisstarfsfólks að vinna í sjálfu sér. Það sem homo sapiens hefur átt erfiðast með er að sjá í gegnum egóið sitt. Hann vill það ekki. Það er vont,“ segir Henrik og segir það þema í verkinu hvernig þetta skuggasjálf flækist fyrir. „Hindranirnar sem persónurnar mæta í vinnunni krefjast þess að þær geri upp tilfinningar sínar og fyrri reynslu.“
Raunsannar lýsingar
Lesandinn staldrar við margar setningar í bókinni. Hugleiðingar sem sitja í kolli læknis þegar skjólstæðingurinn fer: „Af hverju vildi fólk einhverjar rannsóknir en virtist svo ekki ætla að gera neitt í sínum málum?“ Henrik segir það hafa verið uppgötvun sína að það væri ekki sitt hlutverk að dæma. Hann hafi sjálfur komið með væntingar til lækna áður en hann varð einn slíkur sjálfur.
„En númer eitt, tvö og þrjú er að það skapist tengsl og traust á milli. Það er áskorun þegar samfellan er ekki eins mikil og hún ætti að vera. Þegar biðtíminn mælist í vikum og einn sjúklingurinn keppir við tíma þess næsta.“ Einnig má sjá pælingar í bókinni um viðhorf þegar hann lýsir eldri læknunum Svövu og Gogga, hún hnitmiðuð og hröð, hann hægur og hlýr en bæði fari samt slysalaust um spítalagangana:
„Svava tók meira mið af hagsmunum heildarinnar en Goggi af einstaklingnum fyrir framan sig,“ segir í bókinni. Og svo enn aðrar lýsingar sem enginn nefnir en eru nú komnar í bók: „Þrátt fyrir að vera sjálf í þvagspreng kallaði hún síðasta sjúklinginn inn. Tvö starfsmannasalerni voru í húsinu: Annað í augsýn biðstofunnar, sem hún kunni ekki við að nota því hver vill lækni beint af klósettinu.“
Henrik lýsir því hvernig hann leikur sér að mörkum í bókinni.
„Öll þessi litlu mörk, eins og vinnu og einkalífs, ákveðni og auðmýktar, hlutverks læknis þegar hann er læknir eða þegar hann verður veikur eða aðstandandi. Líka þegar hann fer í flugferðir eða á flugvelli og er kallaður upp. Læknir getur því alltaf átt von á því að fara í vinnuna, hvert sem hann er að fara.“ En bókin er líka ádeila. Lýsing á kaótísku heilbrigðiskerfi með tragíkómísku ívafi. Lýsingin oft sem læknar leiti að nál í heystakki. Henrik jánkar því að fólk megi hafa áhyggjur af því.
„En áhyggjur eru ekki alltaf slæmar, því þá er hægt að skilja betur að kerfið gæti verið betra en það er og það er hægt að breyta því,“ segir hann, og hvernig röddin um mikilvægi samfellunnar í þjónustunni og skortinn þar, sem birtist í bókinni, hafi ekki mikið heyrst.
„Mig langaði að tjá hana. Hún er bara hluti af umræðunni og lesandinn gerir upp hug sinn um hvað honum finnst um kerfið sem lýst er í bókinni. Ef maður skilur og veit, hefur maður betri verkfæri til að breyta og bæta. Það knýr mig áfram. Ég er að miðla einhverju sem ég vil að fólk viti, í þeirri von að hægt sé að smyrja þetta betur. En auðvitað, eins og með einstaklinginn, verður kerfið aldrei fullkomið,“ segir hann.
„Þetta er spurning um hvar við ætlum að draga línuna og hvað við ætlum að leggja mikla vinnu í að auka skilvirkni, samfellu. Það er lengi hægt að vinna með þá hluti.“ En sér Henrik fyrir sér að skrifa aðra bók?
„Ég hef heyrt svo margar sögur eftir að bókin kom út að ég er kominn með hugmyndir. Ég hef ekki tímann alveg strax. Þetta var stórt verkefni og ég gerði þetta samhliða vinnu og fjölskyldulífi. Nú ætla ég aðeins að vera meira með fjölskyldunni.“