06. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Byggja þarf upp vísindastarf samhliða sérnámi, - Sædís Sævarsdóttir fær 7 milljóna styrk

 

Það er ómetanlegt að geta stundað rannsóknir samhliða klínísku starfi, sagði Sædís Sævarsdóttir læknir í kynningu sinni eftir að hún hlaut 7 milljón króna verðlaun úr Verðlaunasjóði Árna Kristinssonar og Þórðar Harðarsonar, ein þau hæstu sem veitt eru hér á landi

 

„Við þurfum að byggja innviði sem efla vísindastarf hér samhliða því sérnámi sem er búið að byggja upp í 15 sérgreinum á Íslandi síðustu árin, í samræmi við önnur Norðurlönd. Þar getur heilbrigðisstarfsfólk sótt um hlutastöður í rannsóknum í samkeppnissjóði,“ segir Sædís Sævarsdóttir, prófessor og varadeildarforseti læknadeildar HÍ, vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu og gigtarlæknir á Landspítala.

Sædís Sævarsdóttir gigtarlæknir hlaut 7 milljónir króna úr Verðlaunasjóði heiðursprófessoranna og læknanna Árna Kristinssonar, sem er hægra megin við hana, og Þórðar Harðarsonar, henni á vinstri hönd. Mynd/gag

„Erlendis hafa íslenskir læknar fengið tækifæri til að stunda doktorsnám og rannsóknir samhliða sérnámi. Þeir snúa svo heim með þá þekkingu og reynslu í farteskinu,“ segir hún við Læknablaðið eftir verðlaunaafhendinguna í lok apríl.

Sædís sagði við afhendinguna þýðingarmikið að hafa fengið 50% „postdoc“-rannsóknarstöðu samhliða sérnámi sínu í lyf- og gigtarlækningum við gigtardeild Karólínska-háskólasjúkrahússins í Svíþjóð. „Þetta er lykilatriði þegar læknar sérmennta sig í auknum mæli hérlendis,“ sagði hún og uppskar lófaklapp.

Sædís hefur samkvæmt vef Landspítala birt 96 ritrýndar vísindagreinar og verið leiðandi höfundur fjórðungs þeirra. Flestar hafa birst í virtum vísindaritum innan gigtarlækninga og erfðafræði. Hún hefur einnig leiðbeint 9 doktorsnemum.

„Helstu áherslur rannsókna Sædísar eru áhættuþættir og forspárþættir fyrir meðferðarsvörun og horfur í iktsýki og öðrum gigtar- og sjálfsónæmissjúkdómum,“ sagði Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala þegar hann afhenti verðlaunin. Hún þakkaði Þórði og Árna og sagði sérstakan heiður að taka við þessum verðlaunum frá fyrrum kennurum sínum.

Hún segir við Læknablaðið það vera dýrmætt fyrir sjúklinga og hagkvæmara fyrir samfélagið ef hægt væri að velja bestu meðferðina fyrir hvern sjúkling frá byrjun, því svörun væri mismunandi og mikilvægt að ná snemma tökum á bólgunum til að bæta horfurnar.

„Þótt bylting hafi orðið í meðferðarmöguleikum við iktsýki og fleiri gigtsjúkdómum síðustu áratugi, þökk sé aukinni þekkingu á orsökum þeirra, þá getur tekið tíma að finna hvaða meðferð hentar hverjum sjúklingi.”

Hún segir að til að klæðskerasníða meðferð þurfi að þróa sniðlækningar (Personalized/precision medicine) áfram en Sædís leiðir grunnnámskeið í sniðlækningum fyrir læknanema á Norðurlöndum og bendir á að það sé öllum opið á Coursera.

„Á Íslandi og öðrum Norðurlöndum eru á margan hátt kjöraðstæður til að vera leiðandi á því sviði.“ Nýta þurfi rafrænar heilsufarsupplýsingar og ýmiss konar gagnasöfnum. „Við þurfum að mæla erfðaþætti og aðra lífvísa til þess að finna forspárþætti og geta búið til tæki sem hjálpa okkur að veita hverjum einstaklingi bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu.“

Árni og Þórður, báðir heiðurspróf-essorar við Háskóla Íslands og fyrrum læknar Landspítala, stofnuðu verðlaunasjóðinn árið 1983 og er hann því fertugur í ár. Tilgangurinn er að efla og kynna vísindastarfsemi í heilbrigðisvísindum.

 

 

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica