06. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Eldra fólk síður haft með í rannsóknum - Þórdís Jóna stýrir 600 manna hjartaþingi

Ekki eru til eins gagnreyndar aðferðir til að meðhöndla eldri sjúklinga með hjartasjúkdóma og fyrir þá sem yngri eru. Ástæðan er sú að þau eldri eru síður höfð með í rannsóknum. Þetta segir Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, formaður Hjartasjúkdómafélags íslenskra lækna

Þórdís er formaður skipulagsnefndar 28. hjartaráðstefnu Norður- og Eystrasaltslandanna (Nordic-Baltic Congress of Cardiology) sem verður í Hörpu dagana 8.-10. júní. Ráðstefnan, sem haldin er annað hvert ár, var síðast haldin hér á landi árið 2009. Yfirskriftin er framtíð hjartalækninga og verður málið reifað þar.

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, formaður Hjartasjúkdómafélags íslenskra lækna.

„Við vitum að eldri einstaklingar þola lyf verr og fá frekar fylgikvilla. Þeir eru einnig með aðra sjúkdóma sem verður að taka tillit til við hjartalækningar,“ segir Þórdís og bendir á að sífellt fleiri lifa lengur með hjarta- og æðasjúkdóma en áður var.

„Þetta eru sjúkdómar sem tengjast aldri en með framförum í læknavísindum stytta þeir ekki líf fólks í sama mæli og áður, heldur lifir hver og einn með sinn hjartasjúkdóm lengur.“ Þó eru hjarta- og æðasjúkdómar algengasta dánarorsök í hópnum 75 ára og eldri.

Þessi ráðstefna hjartalækna var síðast haldin í Finnlandi. „Við áttum svo að halda þingið 2021 en frestuðum því fyrst til 2022 og svo aftur til 2023,“ segir Þórdís og leggur áherslu á mikilvægi þess að hjartalæknar styrki böndin og búi til tengslanet. „Við erum háð því að eiga í góðri samvinnu við löndin sem eru næst okkur varðandi ráðgjöf og aðgerðir sem ekki er hægt að framkvæma hér á landi,“ segir hún.

„Óformleg samskipti á milli málþinga eru því ekki síður mikilvæg en formleg dagskrá; að hittast og sjá hvert annað.“ Hátt í 90 fyrirlesarar verða á þinginu og búist við um 600 þátttakendum, þar af 400 erlendum gestum. Meðal fyrirlesara verður til að mynda Franz Weidinger, forseti Evrópsku hjartalæknasamtakanna, ESC.

„Dagskráin ætti að höfða til fleiri en hjartalækna, til dæmis lyflækna, heimilislækna, bráðalækna og svæfinga- og gjörgæslulækna. Svo er flott dagskrá fyrir hjúkrunarfræðinga og aðrar heilbrigðisstéttir sem tengjast hjartalækningum.“ Á föstudeginum verður sérstaklega hugað að læknum í sérnámi. Þá fær erfðafræðin að njóta sín á þinginu.

„Við skoðum hvernig megi nýta hana til að skilja sjúkdóminn betur og nýta við meðferð hans. Svo horfum við til forvarna sem eru alltaf hornsteinn hjartasjúkdómalæknisfræðinnar. Því hægt er að hafa áhrif á sjúkdómstilurðina í mörgum tilvikum.“

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica