05. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Sumardagurinn fyrsti. Þórdís Þorkelsdóttir

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.

„Gleðilegt sumar!” – skrifaði framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands í tölvupósti til stjórnar félagsins á sumardaginn fyrsta frá fundi Alþjóðasamtaka lækna í Naíróbí í Kenýa. Sumardagurinn fyrsti, einn af einstaklega ánægjulegum fimmtudögum á vori hverju á sér langa sögu.

Íslendingar höfðu komið sér upp eigin tímatali áður en rómverska tímatalið barst hingað með kirkjunni. Í þessu séríslenska tímatali var árinu skipt í tvö nær jafnlöng misseri, þar sem veturinn byrjaði á laugardegi, sumarið á fimmtudegi og eftir árið 1700 í vikunni 19.-25. apríl. Þessi dagur hefur trúlega verið álitinn fyrsti dagur ársins á öldum áður og því er aldur húsdýra talinn í vetrum.1Undirrituð er svo heppin að verða vetrinum eldri í þessari viku og því ber afmælið oftar upp á frídegi en gengur og gerist. Þetta er hið mesta gleðiefni og þá sérstaklega þegar nýr tugur byrjar, gjarnan með tilheyrandi íhugunum. Vangaveltur um aldur og fyrri störf brjótast fram, hverju hefur verið áorkað og hvað framtíðin ber í skauti sér. Jú eða bara íhuganir um þennan fimmtudag. Sumardagurinn fyrsti á 21. öld er ekki fyrsti dagur ársins, en hann er jú frídagur – fyrir flesta, ekki alla. Til dæmis er formaður og framkvæmdastjóri LÍ í vinnu, sem og öll þau sem sinna störfum í heilbrigðisþjónustu.

Stjórnarmenn LÍ, sem fengu hlýjar sumarkveðjur, skiptast á að skrifa pistil í Læknablaðið um málefni sem brenna á þeim. Nýlega hefur formaður LÍ rætt kjaramál, hún benti meðal annars á lág dagvinnulaun almennra lækna og þá staðreynd að það þarf að mennta fleiri lækna. Formenn FÍH og FSL hafa skrifað fimlega um það linnulausa álag sem ríkir á flestum stöðum í heilbrigðiskerfinu, alls staðar er verið að bera í bakkafullan lækinn. Formaður LR hefur í tvígang reifað stöðu sérgreinalækna á stofum gagnvart SÍ og samningsleysið. FSL og LÍ vinna að því að setja upp trúnaðarmannakerfi á vinnustöðum lækna. Rafrænt sjúkraskrárkerfi, þörf á betri skilgreiningu á mönnun lækna og íþyngjandi skráningarskylda hefur einnig verið rætt.

Ljóst er þeim sem les að það verður að styrkja heilbrigðiskerfið í heild sinni og betur má ef duga skal. Ef lesið er milli línanna í þessum skrifum má þó finna annan rauðan þráð. Það er samstaðan, sem kom svo bersýnilega í ljós á síðasta aðalfundi félagsins. Stjórnarmenn benda sérstaklega á hagsmunamál almennra lækna í skrifum sínum og aðalfundarfulltrúar annarra aðildarfélaga töluðu máli almennra lækna. Hagsmunamál lækna, hvort sem þau snúa að kjörum, tíma til að sinna skjólstæðingum og þolanlegt álag, snerta okkur öll. Samstíga erum við betra þrýstiafl og það er þessi samstaða sem vekur von um að hægt sé að breyta til hins betra og ekki sé endalaus vetur framundan.

Það er ómetanlegt fyrir ungan lækni að finna fyrir stuðningi, skilningi og samhygð frá kollegum í löngum vetri íslensks heilbrigðiskerfis. Honum fer vonandi að ljúka og sumardagurinn fyrsti handan við hornið – þó svo að honum fylgi yfirleitt lengri bið eftir eiginlegu sumri.

Gleðilegt sumar!

1. Björnsson Á. Af hverju er sumardagurinn fyrsti haldinn hátíðlegur? Vísindavefurinn (2006, 20. apríl). visindavefur.is/svar.php?id=5831 - apríl 2023.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica