04. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Ísafjörður og Súðavík sumarið 1966 – litið um öxl. Karl H. Proppé

Það bráðvantaði lækni á Ísafjörð og einhvern veginn æxlaðist það svo að tveir læknanemar, Davíð Gíslason og undirritaður, voru beðnir að hlaupa í skarðið og vera í þrjá mánuði hvor. Starfið var tvískipt, annars vegar staða aðstoðarlæknis á sjúkrahúsinu og hins vegar staðgengill héraðslæknis fyrir kaupstaðinn og Ísafjarðardjúp. Fyrrum bjó héraðslæknirinn í Súðavík en nú var Súðavík og Ísafjarðardjúpi þjónað frá Ísafirði. Þetta var stórt hérað og akvegir takmarkaðir. Hins vegar fór báturinn Fagranesið reglulegar ferðir um Djúpið.

Úr Ísafjarðardjúpinu: Fjöldskylda á litlum báti kemur til bólusetningar með börnin sín. Allar myndirnar tók Karl H. Proppé sumarið 1966.

Skömmu eftir að ég hóf störf var ég kallaður ásamt ljósmóðurinni út í sveit að taka á móti barni. Á þessum tíma var ekki búið að leggja rafmagn á alla bæi og þegar fór að rökkva kom í ljós að ljósavélin fór ekki í gang. Um síðir fannst kerti og fæddist barnið við kertaljós. Ég hugsaði til fyrri tíma og hve erfitt starf lækna hafði verið á landsbyggðinni.

Ljósmóðirin sá um bólusetningaskrá barnanna og dag einn sagði hún að kominn væri tími til að bólusetja börnin í Djúpinu. Við tókum okkur far með Fagranesinu og létum boð út ganga um sveitir að róa skyldi með börnin að borði þar sem ekki væri hægt að lenda. Gekk þetta allt vel þótt börnin væru misánægð. Það var athyglisvert að sjá hvað sumstaðar var harðbýlt en fólkið myndarlegt og krakkarnir pattaralegir. Fjöllin spegluðust í lygnum sjó og ég var hugsi. Íslendingar voru hvað fremstir meðal þjóða með lágan barnadauða og mikið langlífi. Enginn hafði skotið sér undan að róa að borði með börnin í bólusetningu. Fólk var samhuga um að hugsa vel um börnin sín. En ég átti einnig eftir að sjá hvernig samfélagið hugsaði um sameiginlega velferð og eins þá sem þurftu stuðning.

Neðri myndin er tekin á Súðavík. „Börnin á bryggjunni að dorga eru mér minnisstæð, enda alinn upp í sjávarplássi vestra,“ segir Karl í svari til Læknablaðsins, hann bætir við: „Hitt er að þarna er bátur. Veturinn eftir fórst fiskibátur og síðan annar bátur veturinn þar á eftir. Fórust allir með bátunum frá þessu litla sjávarplássi.“

Það gekk slæm pest með niðurgangi og uppköstum á Ísafirði. Sumir urðu illa veikir. En ég tók eftir því að það urðu engir veikir í Súðavík eða nágrannasveitum. Gat vatnið á Ísafirði verið mengað? Ég kynnti mér vatnsbólið en það safnaði yfirborðsvatni sem rann niður hlíðarnar fyrir ofan bæinn. Þar var ekkert að sjá athugavert en þarna var þó sauðfé út um grænar grundir eins og gengur og gerist. Stuttu síðar var mér gengið að kvöldi til niður að höfn. Fjöllin spegluðust í firðinum en í huga mér var ungbarn sem ég hafði áhyggjur af. Ég hafði sagt foreldrunum að það sakaði ekki að sjóða allt neysluvatn. Og þarna við bryggjuna var hið glæsilega þýska seglskip og skólaskip Gorch Foch að taka vatn um borð. Í bakgrunninum var fiskvinnslan. Það var kominn tími til að láta reyna á hvort grunur minn um vatnið reyndist réttur. Ef svo, þá væri það erfitt mál. Nokkrum dögum síðar fékk ég hringingu frá Reykjavík. Vatnið reyndist mjög mengað og óhæft til neyslu. Nú voru góð ráð dýr.

Áhyggjur mínar af því hvernig ég skyldi bera mig að fuku út í veður og vind daginn eftir þegar bæjarblaðið birti forsíðufrétt þess efnis að allir yrðu að sjóða neysluvatn sitt. Samfélagið tók þetta í sínar hendur, pestin fór að dvína og umræður fóru fljótlega af stað um hvernig leysa skyldi úr vatnsmálum Ísfirðinga. Já, ég varð var við meðvind frá bæjarbúum. Þeir tóku þessu með alvöru og um síðir leystust þessi mál farsællega.

Fjaran á Súðavík árið 1966, fjallið Kofri gnæfir yfir þorpið.

Fljótlega varð ég þó fyrir annarri reynslu sem varpaði öðru ljósi á samhug fólksins. Í Súðavík bjó gömul kona með slæma slímhúðarbólgu í augum og byrjaður að myndst örvefur. Ég hafði reynt ýmislegt og var í sambandi við sérfræðinga og þar kom að þeir mæltu með að hún kæmi á Landspítala í meðferð. Gamla konan bað um umhugsunarfrest. Hún bjó rétt utan við þorpið og á tilsettum tíma gekk ég til hennar. Þar beið mín uppdekkað borð og kaffi. Hún ræddi fyrst um daginn og veginn og var hin kurteisasta en svo kemur hún sér að efninu. Hún segist sjaldan hafa farið að heiman og alltaf verið því fegnust að koma til baka. Hún hefði aldrei komið til Reykjavíkur og þangað muni hún ekki fara „en í Súðavík þekki ég alla og allir þekkja mig og hér verð ég blind.“

Ég geng hugsi niður traðirnar. Þar var kominn gamall maður að dytta að girðingarhliði. Hann tók mig tali og vissi vel hvernig viðtali mínu við gömlu konuna hafði lokið. Sló hann því upp í glens og með sínum vestfirska húmor talaði hann um ellina, lífið og tilveruna og hver endalok okkar allra yrðu. Að lokum segir hann: „Þú gerðir þitt besta en nú sjáum við um gömlu konuna.“

Að verða læknir á landsbyggðinni var leiðin sem ekki var valin. Þegar litið er um öxl 56 árum síðar og spurt hvort valið hafi verið rétt, verður fátt um svör. Að starfa sem sérfræðingur á stóru sjúkrahúsi hefur verið gefandi en að vera partur af og leggja sitt af mörkum til minna samfélags á landsbyggðinni gefur lífinu sérstaka ánægju og fyllingu, sem vart verður fundin annars staðar. En þegar öllu er á botninn hvolft skiptir mestu máli að gamli maðurinn við hliðið segi: „Þú gerðir þitt besta.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica