04. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bókin mín. Marglaga orðagaldur sem dýpkar með auknum þroska við hvern lestur. Engilbert Sigurðsson

Hvaða bók hefur fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?

Erfðir og uppeldi ráða mestu um hvernig maður er og verður, en svo lengi lærir sem lifir, segir máltækið. Bóklestur hefur mótað skilning minn á heiminum frá unga aldri og einnig verið forsenda þess náms sem ég hef lokið. Vissulega sogast maður oftar djúpt inn í heim bókanna framan af ævi en þegar líða tekur á lífshlaupið. Ljóð eiga jafnan greiðasta leið að tilfinningum okkar. Þar er róið á enn dýpri mið í tjáningu tilfinninga og reynslu en í skáldsögum. Nýlega las ég verðlaunabókina Máltaka á stríðstímum. Það er lítið kver um þungbær mál. Hin rússneska Natasha S. yrkir þar:

Galdur

orðin eru galdur

leiða í óvissa átt

breyta huganum

sjónarhorni

sjálfsmynd

lífi

til að galdurinn virki

þarf að orða hlutina

af nákvæmni

svo hægt sé

að rjúfa álögin

setja punkt

á bakvið þetta allt

Þessi orð hennar komu upp í hugann þegar ég var beðinn um að skrifa um uppáhaldsbókina mína nú þegar ár er liðið frá innrás Rússa í Úkraínu.

Ljósmynd/Vilhelm Gunnarsson

Eftirminnilegustu bækurnar hafa opnað nýja sýn, glætt skilning, hreyft við tilfinningum, eða verið svo spennandi, vel stílaðar eða áhugaverðar að erfitt var að leggja þær frá sér. Sumar fundust mér ekki eins góðar þegar ég las þær aftur síðar, en þær bestu voru marglaga og maður sá glitta í nýja þræði við hvern lestur.

Ég lifi um ævi Martin Gray var líklega áhrifamesta bókin sem ég las á bernskuárunum. Hún lýsir grimmd og ómennsku í seinni heimsstyrjöldinni, en einnig mögnuðum viljastyrk. Sjálfstætt fólk var önnur bók sem ég varð gagntekinn af, raunar svo mjög að ég man enn eftir því flæði innlifunar sem fylgdi fyrsta lestri hennar. Ellefu sumur í sveit á bernskuárum hafa þar sjálfsagt haft sitt að segja. Ég var raunar bókstaflega hátt uppi við lesturinn milli hífinga uppi í byggingarkrana 18 ára gamall, nýkominn með réttindi sem kranamaður. Sjálfstætt fólk las ég næst 35 ára, þá nýorðinn sérfræðingur í geðlækningum, og í þriðja sinn fimmtugur, árið 2014. Mér finnst nóbelskáldinu ótvírætt hafa tekist sá galdur sem Natasha S. lýsir að ofan. Sjálfstætt fólk er því mest uppáhalds. Þar glitti í dýpri skilning á mannlegum örlögum með auknum þroska við hvorn endurlestur.

Af bókmenntum seinni ára hefur veröld skáldskaparins náð mestum tökum á mér hjá Jóni Kalman og Hallgrími Helgasyni. Lestur bóka eins og Sumarljós og svo kemur nóttin og Konan við 1000 gráður var sannkallaður unaðslestur. Karitas án titils eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur er einstaklega myndræn bók sem gleymist ekki.

Suðuramerískt töfraraunsæi hefur jafnan höfðað til mín, ekki síst bækur Gabriels Garcia Marquez og Isabel Allende, til dæmis Ástin á tímum kólerunnar, Hundrað ára einsemd og Hús andanna.

Þær fræðibækur sem hafa hreyft mest við rökhugsun minni og sýn á samfélög manna, lýðheilsu og hvernig við læknar getum unnið að bættri heilsu og betri heimi eru The Strategy of Preventive Medicine eftir Geoffrey Rose, Thinking Fast and Slow eftir Daniel Kahneman, Sapiens eftir Yuval Noah Harari og Factfulness eftir Hans Rosling.

Ég skora á Önnu Kristínu Gunnarsdóttur að rifja upp sína uppáhaldsbók og segja lesendum frá henni.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica