04. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Freyr Gauti: Mylur bein og byggir upp hryggi á heimaslóðum

Ný hryggsjá á Akureyri breytir öllu. Hún gerir aðgerðirnar öruggari, einfaldari og
fljótlegri, segir hryggjarskurðlæknirinn Freyr Gauti Sigmundsson sem flýgur þrisvar til
fjórum sinnum á ári á heimaslóðirnar og sker með Bjarka Karlssyni sjúklinga með hryggjarvanda sem áður þurfti að skera erlendis. Hér lýsir hann einni fyrstu skurðaðgerðinni fyrir norðan þar sem hryggsjáin nýttist

„Ég er uppalinn á Akureyri, er Akureyringur og foreldrar mínir eru ennþá búsett þar og þar á ég bróður. Ég á nánustu fjölskyldu mína á Akureyri,“ segir Freyr Gauti Sigmundsson, yfirlæknir bæklunardeildar Háskólasjúkrahússins í Örebro.

Hann venur komur sínar á æskuslóðirnar og gerir einar flóknustu bakaðgerðirnar sem gerðar eru hér á landi – nú með glænýrri hryggsjá sem Hollvinasamtök sjúkrahússins gáfu spítalanum og tekin var í notkun í byrjun árs. Þessi bakgrunnur Freys Gauta er ein ástæða þess að sérhæfðar bakaðgerðir hafa blómstrað á Sjúkrahúsinu á Akureyri. „Mjög hæft starfsfólk er á skurðstofum og legudeild spítalans.“

U06-fig-1Freyr Gauti Sigmundsson, yfirlæknir bæklunardeildar Háskólasjúkrahússins í Örebro, kemur reglulega til Akureyrar og gerir flóknar bakaðgerðir með Bjarka Karlssyni; aðgerðir sem áður voru gerðar erlendis. Mynd/Skapti Hallgrímsson/Akureyri.net

Freyr Gauti fór ekki hefðbundna leið í læknisfræði því námið varð að víkja um stund fyrir júdóæfingum. Hann keppti á Ólympíuleikunum 1992, aðeins tvítugur, lagði stund á íþróttina og útskrifaðist svo úr Verkmenntaskólanum 27 ára gamall. Kandídatsárið sitt tók hann svo á sjúkrahúsinu á Akureyri. „Ég fór í sérnám í Svíþjóð og skrifaði doktorsritgerð í Lundi 2014.“ Nú yfirlæknir á Örebro háskólasjúkrahúsinu, stekkur hann þó reglulega á Karólínska og sker fram á kvöld.

„Ég hringi eftir vaktina klukkan 22,“ svarar hann pósti frá Stokkhólmi þegar blaðamaður vill ræða betur um eina fyrstu aðgerðina í hryggsjánni nýju. Fjölskyldan bíður í Örebro. Eiginkonan Sylvía Húnfjörð tannlæknir og þrír táningar þeirra. Hann er þó ekki einn á Karólínska. „Hér á ég líka bróður, Þóri svæfingalækni. En það er þó ekki sjálfgefið að ég hitti hann í þessum ferðum,“ segir hann og hlær. „Þetta er svo stór spítali.“

Meiri nákvæmni með sjánni

Freyr Gauti lýsir hlýjum tilfinningum til sjúkrahússins á Akureyri. Þar eigi hann góða kollega. „Þannig að ég hef viljað koma og hjálpa þeim öðru hverju.“ Aðgerðirnar gerir hann með Bjarka Karlssyni bæklunarlækni sem lærði í Svíþjóð og hafa þeir unnið þar saman frá árinu 2016. „Síðan ég varð sérfræðingur hef ég komið 3-4 sinnum á ári og við gert erfiðustu aðgerðirnar saman.“

Eina slíka gerði hann nú í janúar á 37 ára konu. Skar upp bak og spengdi. Freyr Gauti lýsir því hvernig ofan við neðstu skrúfurnar hafi „diskurinn“ verið ónýtur og ekki þolað álag. „Þar var skekkjan mest. Svo heldur skekkjan áfram eftir lendarhryggnum. Við settum skrúfur í hryggjarbolinn og neðri hluta brjósthryggjar. Þar var liðskrið sem ég þurfti að laga,“ segir hann og lýsir því hvernig hryggjarbolur ofan við neðstu skrúfurnar hafi verið skriðinn til hliðar. „Þá tek ég diskinn, set búr og fylli með beini.“

Aðgerðin tók allt í allt 2,5-3 klukkustundir og var sú önnur sem hann gerði með aðstoð nýju hryggsjárinnar. „Við höfum gert svona aðgerðir áður en með nýju hryggsjánni er hún nákvæmari,“ segir hann.

„Aðgerðin er gerð í gegnum bak, en sumar aðgerðir gerum við í gegnum síðuna eða magann og þá með hjálp æðaskurðlækna á Akureyri. Þetta er hefðbundin, hryggskekkjuaðgerð þar sem við opnum hrygginn. Við nýtum hryggsjána sem siglingatæki. Þá setjum við loftnet á sjúklinginn og skönnum inn og tengjum við þessa hryggsjá. Þegar við gerum aðgerðina sjáum við inn í líkamann, inn í hryggbolinn, setjum skrúfuna um leið og við horfum á skjá fyrir framan á okkur. Með hryggsjánni er alltaf meiri nákvæmni.“

Freyr Gauti segir að það taki sjúklinga oft langa tíma að ná sér eftir svona aðgerðir. Meta þurfi vel hvort inngripið sé þess virði því eftir langan tíma með verki geti aðgerð verið eins og að hella bensíni á eld. Verkirnir hverfi þá ekki þar sem hryggjarliðir sem legið hafi í þessari skökku stöðu lengi séu allir skemmdir og slitnir.

Skrúfur og stög í bakið

Hann segir að skrúfurnar sem settar eru séu í aldrei teknar. „Svo nota ég stög til að skrúfa hrygginn í rétta stöðu.“ Tek síðan bein, brýt upp og mala og legg yfir hryggbolinn þannig að það grói.“ Hann einfaldar málið til að lýsa fyrir blaðamanni, lýsir því hvernig hann raði hryggnum upp með hálfgerðum legókubbum úr beini. „Það sést á L2-L4 á myndunum.“ Það sé tímafrekast og erfiðast. „Þar fer ég framhjá taugaknippum. Set 2-4 kubba.“

En hvernig tilfinning er það þegar vel tekst til? „Mér finnst þetta skemmtilegt, krefjandi aðgerðir þar sem maður getur rétt fólk við og séð lífsgæði sjúklinga aukast,“ segir hann. „Ef manni tekst að rétta við og minnka verki er það mjög gefandi.“

Freyr Gauti lýsir aðgerðinni á ungu konunni sem meðalstórri. Hana hefðu þeir Bjarki gert án nýju hryggsjárinnar. „Það er hægt að gera þessar aðgerðir án hennar en óvissunni er eytt með henni. Hún gerir aðgerðina bæði öruggari og fljótlegri. Á flestum sjúkrahúsum í hinum siðaða heimi er svona tækjabúnaður og svipað tæki má finna á Landspítala. Með svona hryggsjá setjum við þessi ígræði á besta hátt til að rétta hrygginn. Smáatriðin skipta svo miklu,“ segir hann.

U06-fig-2Hér má sjá teymið á skurðstofunni. Bjarki Karlsson læknir, Elva Ásgeirsdóttir og Hulda Birgisdóttir skurðhjúkrunarfræðingar, og Freyr Gauti Sigmundsson læknir. Mynd/Skapti Hallgrímsson/Akureyri.net

En mænan, er hún aldrei í hættu? Mænan er bara að hluta til þarna. Hún verður að taugaknippi sem við fylgjumst með í sérstöku tæki sem mælir taugaleiðni. Svo setjum við skrúfurnar í brjósthrygginn. Hættan er afskaplega lítil. Við erum vanir og vinnum með siglingatækið og höfum verið með þessa taugaleiðnimælingar (nevromonitoring) til stuðnings,“ segir hann og að sérfræðingar frá Þýskalandi hafi komið sérstaklega til landsins til þess verks. „Þeir hafa setið og fylgst með mænunni þegar við gerum aðgerðina.“

Freyr Gauti lýsir því hvernig þeir Bjarki hafi smátt og smátt gert flóknari aðgerðir á spítalanum á Akureyri enda sé það sérsvið hans í Svíþjóð. Núna starfi hann á Akureyri fjórar vikur á ári. „Sjúkratryggingar hafa stutt við bakið á sjúkrahúsinu í þessum verkefnum.“ Þeir fái gesti á skurðstofuna sem fylgist með.

„Já, já, síðast frá Svíþjóð. Þetta eru sömu aðgerðir og ég geri hér í Svíþjóð í daglegri vinnu. Geri við hryggskekkju, en það eru ekki margir sjúklingar á Íslandi sem þurfa slíka meðferð. Ég hef stundum tekið þá til Svíþjóðar en stundum gert aðgerðir á Akureyri. Eftir að við fengum þessa hryggsjá er engin þörf á að flytja þá út,“ segir hann.

Vill sjá fleiri valaðgerðir

En er Sjúkrahúsið á Akureyri nægilega stórt fyrir svona flóknar aðgerðir? „Við þurfum góða svæfingalækna og góða gjörgæslu fyrir þessa sjúklinga. Kosturinn við Akureyri er hvað mönnunin á skurðstofunni er góð. Þar hefur fólk unnið lengi. Við höfum byggt upp teymið. Hollvinir hafa reynst okkur vel. Keypt hryggjarborð, röntgentæki og smásjá. Við höfum smám saman, í yfir áratug, byggt upp. Allir vita hvað þeir eru að gera og við höfum ekki þurft meira bakland fyrir þessar aðgerðir,“ segir hann.

„En ég tek þær aðgerðir sem þurfa samstarf við brjóstholsskurðlækna eða heila- og taugaskurðlækna út til Svíþjóðar.“

Freyr Gauti sér fyrir sér að sjúkrahúsið á Akureyri geti enn vaxið, sérstaklega litið til valaðgerða. „Þar er ekki mikið flæði bráðaaðgerða. Þar er stöðug mönnun, góðir svæfingalæknar. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að sjúkrahúsið hefur staðið sig vel þegar ráðist hefur verið í átak í valaðgerðum. Ég tel að sjúkrahúsið sé hæfilega stórt fyrir slíkt.“

Hann er ekki óvanur uppbyggingu því frá árinu 2019 hefur hann stýrt bæklunarlækningastofu Örebro-háskólasjúkrahússins. „Örebro er yngsta háskólasjúkrahúsið í Svíþjóð. Þar vildu þau byggja upp starfsemina, sérstaklega varðandi slysalækningar, vegna staðsetningar í miðri Svíþjóð. Ég var þá í Malmö en hefði verið tvisvar til þrisvar hjá þeim á ári og hjálpað þeim með þessar fáu hryggjaraðgerðir. Núna gerum við um 250 aðgerðir á ári.“ Svo kíkir hann á Karólínska.

„Í Malmö gerði ég aðgerðir á börnum með flókna hryggjarsjúkdóma. Ég vildi halda því við og hef nú í hálft ár verið 50% þar, 2-3 daga í viku en hina í Örebro.“ Það er alveg ljóst að margt er á prjónunum hjá Frey Gauta – eða réttara sagt: skurðarhnífunum.

„Ég hef haft svo mikið að gera og fengið svo mörg tækifæri til að læra og gera skemmtilega og krefjandi hluti. Það er bæði gaman og dýrmætt fyrir mig að geta komið til Akureyrar og hjálpað til.“

 

Horfir fram á betri tíma

37 ára tveggja barna móðir lýsir því hvernig hún datt úr klifurgrind á harðan steininn 7 ára gömul, missti andann, var rifin upp og send í myndatöku. Þar hafi brákaðir hryggjarliðir sést en ekki verið ljóst fyrr en við myndatöku eftir tvö bílslys síðar á lífsleiðinni að þeir höfðu ekki gróið. Hryggskekkjan hafi verið orðin mikil og eyðing í bakinu og hryggurinn að falla saman. Setja hafi þurft bein í bakið.

U06-fig-3Kona á fertugsaldri gekkst undir aðra aðgerðina með nýju hryggsjánni nú í janúar. Freyr Gauti lýsir því hvernig hann notar stög til að skrúfa hrygginn í rétta stöðu, brýtur upp bein og malar og leggur yfir hryggbolinn. Hann raði hryggnum upp með hálfgerðum legókubbum úr beini. „Það sést á L2-L4 á myndunum,“ bendir hann á.

„Ég vissi ekki fyrir aðgerðina að til væri beinabanki. Nú ber ég bein úr annarri manneskju í mér,“ segir hún við Læknablaðið tveimur mánuðum eftir aðgerðina á Sjúkrahúsinu á Akureyri. „Ég var orðin algjörlega óvinnufær vegna verkja og hef ekkert unnið síðan í fyrravor. „Það er mjög erfitt fyrir mig þar sem ég er virk manneskja.“

Nú bíði hún eftir að komast í vinnu á ný. „Já, það styttist í það,“ segir hún vongóð við Læknablaðið. Verkirnir hafi að lokum kallað á stóra verkjalyfjaskammta.

„Ég tók 8 parkódín forte á dag, tramadól og gigtarlyfið Celecoxib, svo ég var á miklum verkjalyfjum.“ Hún komst ekki að hjá verkjateymi á Landspítala og því sá heimilislæknir hennar um verkjastillinguna. Hún hefur einnig verið á lyfjum vegna Crohns-sjálfsofnæmissjúkdóms, þjáðst af endómetríósu og gigt. Nú eftir aðgerð sé hún nær verkjalyfjalaus.

„Ég er nánast hætt á öllum verkjalyfjum. Er á paratabs og taugalyfinu gabapentin kvölds og morgna. Fékk flott niðurtröppunarskema sem ég fylgdi og hef ekki fundið nein fráhvörf. Ég er orðin betri núna en fyrir aðgerðina. Já, ég er betri,“ segir hún. „Ég geri ekki ráð fyrir að þetta sé aðgerð til eilífðar en vonast til að þeir hafi náð að leysa vandann í ágætis tíma.“

Hún hlakkar til að lifa lífinu eins og hún gat gert áður. „Geta til dæmis farið í göngutúra án þess að vera að drepast á eftir,“ segir hún. „Nú eru að koma 8 vikur frá aðgerðinni. Mér skilst að ég hafi hækkað um 3 cm. Ég hallaði alveg til hægri. Svo var komin mikil kryppa. Núna stend ég teinrétt.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica