04. tbl. 109. árg. 2023

Ritstjórnargrein

Orlofssjóður lækna – öflugt starf. Jörundur Kristinsson

Jörundur Kristinsson | heimilislæknir |formaður Orlofssjóðs lækna

doi 10.17992/lbl.2023.04.737

Orlofssjóður lækna (OSL) var settur á laggirnar á áttunda áratug síðustu aldar. Fyrstu húsin voru byggð rétt fyrir 1980. OSL byggir afkomu sína á tveimur meginstoðum. Í fyrsta lagi 0,25% framlagi vinnuveitanda af fullum launum þeirra lækna sem kjarasamningur milli fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar tekur til. Algengur misskilningur er að framlagið sé dregið af launum viðkomandi, svo er ekki. Sjálfstætt starfandi læknar geta viðhaldið og aukið punktaeign sína með greiðslu í OSL. Leigutekjur húseigna eru svo hinn tekjustofninn. Tekjur OSL eru umtalsverðar og sem dæmi voru þær á árinu 2021 tæpar 76 milljónir. Rekstrargjöld eru einnig veruleg og voru sama ár rúmar 50 milljónir. Þá er ekki talinn til sá kostnaður sem hlýst af kaupum og byggingu nýrra eigna. Mismunur milli tekna og útgjalda nýtist til nýrra framkvæmda.

Í reglugerð um OSL segir: „Sjóðnum skal varið til þjónustu við félagsmenn í orlofi. Sjóðurinn á og rekur orlofshúsnæði og skapar á annan hátt aðstöðu til orlofsdvalar sjóðfélaga.“ Stefna núverandi stjórnar OSL hefur ætíð verið að efla starf hans innanlands og bjóða þar upp á sífellt fleiri valkosti og láta útrás erlendis vera. Með þessu móti hefur hagur hans vænkast mjög og tekist að fjölga umtalsvert valkostum. Meirihluti þeirra er í okkar eigu en við höfum valið blandaða leið eigu- og leigukosta. Leigukostir eru hagstæðir þar sem ekki næst heilsársnýting húsa. Með því fjölgar valkostum yfir sumarmánuðina þegar aðsóknin er mest. Fyrir sumarið 2023 eru 16 valkostir í boði, 12 þeirra í eigu OSL en leigukostir eru fjórir. Aðsókn er mikil allt árið og nýting góð, en þó sýnu mest yfir páska og sumarmánuðina. Punktakerfi er notað yfir páska og sumarvikurnar 13 og þar fá þeir sem eiga flesta punkta ákveðinn forgang en hinar 39 vikur ársins hafa allir jafnan aðgang.

Sífellt þarf að huga að viðhaldi húsa og fjölgun eigukosta OSL. Nýlega var húsið í Vaðnesi tekið í gegn að utan sem innan. Kostnaðarsamt bakslag varð þegar Höfðabrekka við Hreðavatn, sem byggð var 2003, var dæmd það illa farin að viðgerð borgaði sig ekki. Það hús var því rifið og byggt nýtt glæsilegt hús, Höfðabrekka hin nýrri. Það var tekið í notkun sumarið 2021, er flaggskip sjóðsins, ríflega 140 m2 með fjórum góðum svefnherbergjum í tveimur álmum með tveimur fullbúnum baðherbergjum. Önnur álman er sérhönnuð að þörfum hreyfihamlaðra. Jafnframt er þar frábær eldhúsaðstaða, rúmgóð stofa, heitur pottur og pallar við húsið. Nú höfum við náð að safna í sarpinn og hafin er gagnger endursmíði á eldra húsinu við Hreðavatn, Höfða, sem er að stofninum til frá því um 1959. Stórum hluta þess verks verður lokið fyrir sumarið en seinni áfangi þess bíður fram á næsta vor. Á Akureyri eigum við tvær nýlegar íbúðir í Naustahverfi, sunnarlega í bænum. Við erum nú á höttunum eftir húsi til kaupa í Hálöndum í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar. Fleiri sækjast þar eftir húsi en fást. Ef það tekst verður það örugglega vinsæll áningarstaður skíðaþyrstra lækna og fjölskyldna þeirra.

Nú er unnið að því að koma öruggum hleðslutengingum fyrir rafbíla við sumarhúsin, ekki hleðslustöðvum, heldur sérhönnuðum bílahleðslutenglum með nægri rýmd fyrir hleðslu. Nokkur brögð hafa verið að því að gestir hafi leitt framlengingarsnúrur inn um dyr og glugga og stungið í samband í tengla innanhúss í þeim tilgangi að hlaða rafbíla. Það er hættulegur leikur. Venjulegir hústenglar eru engan veginn ætlaðir til hleðslu rafbíla og skapar slíkt mikla hættu.

Umgengni er því miður alloft ábótavant. Húsum/íbúðum skal skila þrifnum fyrir næsta leigjanda. Margir hafa óskað eftir að geta keypt brottfararþrif. Það höfum við kannað en því miður ekki gengið eftir því afar erfitt er að fá aðila til að sinna slíkum þrifum. Gestum ber að skila húsum/íbúðum í því horfi sem þeir vilja koma að þeim sjálfir. Stórhreingerning er gerð vor og haust.

Að lokum vil ég hvetja sjóðfélaga til að nýta sér OSL, kíkja inn á bókunarkerfi hans, Frímann, og skoða hvað er í boði. Síðasti dagur umsókna um sumarúthlutun í ár er 16. apríl næstkomandi.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica