03. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

„Við svæfingalæknar erum reddararnir“ - þrjár stöllur af Landspítala setjast í helgan stein

„Ég held að engin okkar hafi eitthvað sérstaklega pælt í því hvað við þyrftum að vinna mikið. Þrískiptar vaktir — ekkert mál. Sólarhringur eða þrír — ekkert mál. Ungt fólk hugsar ekki svona lengur. Það hefur orðið mikil breyting,“ segir Ingunn Vilhjálmsdóttir sem útskrifaðist úr læknadeild árið 1981 með þeim Hjördísi Smith og Ástríði Jóhannesdóttur. Allar urðu þær gjörgæslu- og svæfingalæknar. Allar hafa nú lagt svæfingarnar í annarra hendur

„Fólk virkilega spáir í lífsgæði sín: Hvernig er vinnutíminn minn? Hvernig er lífsstíllinn og hvernig get ég varið meiri tíma með fjölskyldunni minni? Þetta hljómar eins og okkur hafi verið alveg sama um fjölskylduna en það var ekki þannig,“ segir Ingunn Vilhjálmsdóttir. Hjördís Smith bætir við: „Eins og Svíar myndu segja: Maður tekur það vonda með því góða.“ Ingunn kinkar kolli. „Já, svona var þetta bara. Ef þú ætlaðir að verða læknir var þetta svona. Og ef þú ætlaðir að verða sérfræðingur fórstu til útlanda.“

Ástríður Jóhannesdóttir, Ingunn Vilhjálmsdóttir og Hjördís Smith útskrifuðust saman úr læknadeild sama ár, völdu allar gjörgæslu- og svæfingalækningar og unnu svo saman á Landspítala. Ingunn og Ástríður stunduðu sérnám í Lundi í Svíþjóð en Hjördís í Michigan í Bandaríkjunum. Þær hafa nú sett tækin í hendur eftirmanna. Mynd/gag

Þær eru mættar til að fara yfir sviðið. Segja það ekki hafa verið samantekin ráð að fara allar í svæfinga- og gjörgæslulækningar. Þær þekktust heldur ekki áður en þær komu í læknadeild. En þær útskrifuðust sama ár, þrjár af 8 konum í 32 manna árgangi ‘81. Svo vörðu þær lunganum úr starfsferlinum saman eftir sérnámið. Fannst það mjög gaman, enda andinn á deildinni afburðagóður.

soundcloud

Læknablaðið · Viðtal við Ástríði, Hjördísi og Ingunni, mars 2023 - svæfingalæknum sem eru nú hættar að svæfa


Skytturnar þrjár

Ástríður Jóhannesdóttir hætti á Landspítala nú um áramótin en þær Hjördís og Ingunn fyrir árslok 2021. Skytturnar þrjár, eins og Theódór Skúli Sigurðsson samstarfsmaður þeirra lýsir þeim. „Já, á það ekki vel við?“ Samsinna því. Þær segja búið að manna plássin þeirra.

„Svæfingadeildin á Hringbraut hefur orð á sér fyrir að vera samstæðasta og skemmtilegasta vinnudeildin á spítalanum. Þetta hefur alltaf verið fjölskylda,“ segir Ingunn. Þær lýsa því hvernig læknar hafi endað sem svæfingalæknar því það hafi verið svo gaman á deildinni. Þeir geti ekki skilið á milli hvort fagið eða deildin hafi ráðið úrslitum.

„Já, okkur tókst að stela mörgum sem ætluðu í aðrar greinar en enduðu sem svæfingalæknar. Ætluðu að verða barnalæknar eða skurðlæknar en fannst svo gaman hjá okkur.“

Návígið hafi verið mikið. „Nú þegar ég lít til baka hefur maður umgengist vinnufélagana meira en fjölskylduna,“ segir Ingunn. Þær hlæja. Samvinna hafi einkennt deildina. „Við höfum alltaf stutt hvert annað.“

En sakna þær spítalans? „Ég sakna þess að vinna með öllu þessu unga fólki sem er að koma heim. Við höfum unnið nógu lengi með gömlu kollegunum. Sá tími er búinn. Hann var góður. En allt þetta unga fólk er fólk sem við höfum alið upp og er að skila sér heim,“ segir Ástríður.

Reynslan eykur álagið

Þær horfa til baka. Hvernig þekkingin hlóðst upp með óvæntum afleiðingum. „Ég var oft hrædd síðustu árin við að lenda í einhverju klúðri,“ segir Hjördís. „Eftir því sem þú færð meiri reynslu sérðu hvernig hlutirnir geta svo auðveldlega farið úrskeiðis, þrátt fyrir að þú geri þitt besta og gerir allt samkvæmt bókinni. Ég hafði það alltaf í huga. Það gera fleiri kollegar,“ segir hún. Ingunn bætir við: „Já, ég segi alltaf: Ég var langöruggust þegar ég var búin að vera deildarlæknir í þessu starfi í 6 mánuði, því þá hafði ég ekki hugmynd um hvað ég vissi lítið.“ Þær hlæja. „Nei, nei,“ segir Ástríður. „Jú,“ segir Hjördís. „Það slær út á mér svita stundum þegar ég hugsa um allt sem hefði getað gerst.“ Ástríði þykir nóg um: „Við megum ekki vera svo svartsýnar að við fælum fólk frá faginu,“ segir hún. „Nei, nei,“ bæta þær tvær við. „Það er frábært að hafa verið á svona góðum vinnustað og fengið þann stuðning sem maður þarf,“ segir Hjördís.

Með allt á hreinu

Einhver ráð núna til Ástríðar sem er nýhætt að vinna? „Nei, ég þarf þau ekki,“ segir hún. „Það er brjálað að gera. Prógramm upp á hvern einasta dag. Crossfit tvisvar í viku. Pilates einu sinni í viku og sund þess á milli. Ég er búin að ná skriðsundinu aftur sem ég var búin að missa niður. Þá golfið og golfhermir tvisvar í viku. Svo eru það barnabörnin. Tvö hér heima og tvö í Svíþjóð.“ „Jesús minn,“ segir Ingunn: „Þetta er allt of mikið prógramm.“

Hjördís segir frábært að hafa það rólegt. Nýkomin af skíðum og á leið í mánuð á Tenerife. „Mér finnst ég stundum ekkert vera að gera. Fæ mér kaffi, les blað og snýst í kringum sjálfa mig.“ Hún stefni á að læra spænsku og fara í frekara frönskunám.

„Maður þarf að finna sér rútínu og ég er dugleg að fara í ræktina. Það er bara svo frábær tilfinning að vera laus. Ef ég þarf að neita einhverju er það vegna þess að ég er að gera eitthvað annað skemmtilegt.“

Þær stefna á ferð með útskriftarári sínu nú í vor. Leiðin liggur til Grikklands nú í apríl. Þær hafa lagt á þessi ráð enda hafi þær strax í læknadeild ráðið öllu. „Þetta var einstaklega góður árgangur. Það var svo gaman hjá okkur og nú ætlum við einnig góður hópur gamalla kollega á Hringbraut að hittast mánaðarlega.“

Allar vissu þær á barnsaldri að þær vildu verða heilbrigðisstarfsmenn. „Læknir eða sálfræðingur,“ segir Ástríður. Hjördís lýsir því hvernig hún hafi viljað upplifa draum móður sinnar að verða læknir.

„Hún var ein af fáum sem byrjaði í læknadeildinni en svo giftist hún, eignaðist þrjú börn og dó 33ja ára úr krabbameini. Hún var ekki búin nema með fyrsta hluta,“ lýsir hún og hvernig námið hafi svo höfðað mjög til hennar, rétt eins og bækur Franks Slaughter og lýsingar hans á uppskurðum sem hún lá yfir sem barn.

Ingunn vildi verða hjúkrunarfræðingur. „En svo ákvað ég að fara í landspróf með bekknum mínum og fór í menntaskóla.“ Þar hafi hún eignast vinkonu með aðra drauma. „Hún sagði: Þú átt að koma með mér í læknisfræði. Svo hætti hún og gerðist þýðandi.“

Vakt ekki sama og vakt

Hjördís segir svæfingar sambland af huga og verki. „Þetta er fullkomin blanda.“ Inni á spítalanum séu svæfingalæknar svolítið eins og heimilislæknar spítalans. „Í þeim skilningi að við erum út um allan spítala, erum alhliða,“ segir hún og Ingunn bætir við:

„Já, viðurkennum það bara. Við erum svona reddarar. Þegar allt er í steik er kallað á svæfinguna.“ Ástríður segir það stafa af því að svæfingalæknar séu alltaf bundnir í húsi.

„Þegar deildarlæknar voru um allt hús vorum við einu sérfræðingarnir og því kölluð til. Þannig skapaðist líklega sú hefð.“

En endalaus vaktavinna. Hver velur það? Ástríður lýsir því hvernig þær hafi mætt á föstudagsmorgni og unnið fram á mánudagsmorgun. „Ég viðurkenni að mér leið eins og ég væri að losna úr prísund þegar vaktinni lauk.“ Þetta hafi ekki breyst fyrr en Hannes Stephensen vann sleitulaust í 72 klukkustundir og menn sáu að í því var ekkert vit.

„Eftir þessa breytingu sætti maður sig við langa daga. Sólarhringur varð ekki neitt neitt því við vorum laus við að vera þrjá,“ segir Ástríður, og Hjördís segir að tímarnir hafi einfaldlega verið aðrir. Álagið verið öðruvísi. „Viðmiðin voru önnur. Sjúklingarnir voru ekki eins aldraðir. Þeir voru ekki eins veikir,“ segir hún og Ingunn bætir við: „Ekki eins mikið af tólum og tækjum sem við þurftum að kunna á.“ Það sé því ekki hægt að bera saman vakt í dag og löngu vaktirnar þá.

„Fólk dó ef það var veikt,“ segir Hjördís. Ingunn bætir við: „Já, og nú er fólk skorið sem hefði aldrei verið það hér áður. Það var einfaldlega ekki hægt að meðhöndla eins mikið og hægt er í dag.“ Þetta séu allt siðferðisspurningar. „Og mér finnst við oft ekki á réttri leið,“ segir Hjördís en bendir um leið á að sjúklingar á gjörgæslu séu þar því þeir eigi lífsvon.

Staldra við og endurmeta

„Það gerist sjaldan að fólk deyi á gjörgæslu,“ segir Ingunn. „Því þegar búið er að taka þá ákvörðun að það eigi heima þar viltu gera allt sem mögulegt er.“

Hjördís segir oft einfaldara fyrir lækna að gera allt. „Það er erfiðara að taka ákvörðun um annað.“ Hafa þurfi á hreinu hvað einstaklingurinn sjálfur vill. „Við svæfingalæknar erum sérfræðingar í öllum þessum tækjum og tólum en oft erum það þó við sem stöldrum við og spyrjum hvort vert sé að halda áfram,“ segir hún og að þá sé sjúklingurinn í fyrirrúmi.

En hvernig er að ganga út af spítala og hætta að vinna. „Það er bara dásamlegt,“ segir Hjördís. Ástríður segir að hún finni hvað vinnan hafi tekið orðið allan tíma. „Hausinn og allt.“ Gott sé að stöðva hamstrahjólið og eiga tímann fyrir sig.

„Við unnum á yndislegum vinnustað en það var komið nóg,“ segir Ingunn. „Þetta var orðið fínt.“

Gott að vera læknir

„Spurðu Ástríði hvað önnur dóttir hennar gerir?“ segir Hjördís Smith og hlær. „Jú, önnur er svæfingalæknir,“ segir Ástríður Jóhannesdóttir um Jóhönnu dóttur sína og eiginmannsins Gunnlaugs Björnssonar stjarneðlisfræðings. Þær hlæja.

„Hin er hljóðverkfræðingur og ég er að sjálfsögðu stolt af þeim báðum enda vill maður ekkert frekar en að börnin sín fylgi hjartanu og það hafa þær báðar gert,“ segir hún.

Ingunn Vilhjálmsdóttir segir eldri dóttur sína hafa verið með þeim hjónum meðan þau sérmenntuðu sig í Lundi í Svíþjóð. „Hún var með okkur í gegnum allt námið og sérnámið. Hún sagði alltaf: „Ég ætla ekki að verða læknir.“ Hún, Hildur Björg, er læknir í dag, krabbameinslæknir eins og pabbinn, Helgi Sigurðsson.

Hjördís segir dóttur sína hafa kosið annan starfsferil. „Hún minnist æsku sinnar þannig að ég sé að stússa og pabba hennar að tala við sig. Hann var með hana í handarkrikanum að lesa,“ segir hún um mann sinn, Ólaf Þ. Harðarson stjórnmálafræðing, sem hafi unnið sveigjanlega vinnu og því meira á heimilinu.

Þær leggja allar áherslu á að auðvitað vilji þær að hver einstaklingur velji það sem hugurinn standi til en Ingunn segir að hún hafi þó hvatt alla sem spyrji að verða læknar. „Þegar ungt fólk spyr mig hvort það eigi að fara í læknisfræði segi ég: Já, hiklaust. Það er svo margt vitlausara sem þú getur gert,“ segir hún. „Þetta opnar svo mikla möguleika. Það vantar alltaf lækna, út um allan heim, og þú getur gert hvað sem er: horft í smásjá eða krufið lík, nú eða notað menntunina í eitthvað allt annað.“

Þá segir Hjördís makavalið skipta miklu fyrir starfsframann. „Ég hef alltaf sagt: Ekki giftast einstaklingi sem er eins og klafi um hálsinn á þér.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica