03. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Ágúst Birgisson lýtalæknir: „Mig langaði að verða eigin herra“

Ágúst Birgisson lýtalæknir hefur sett upp skurðstofur og læknastofur
við Efstaleiti og býður nú allt að 15 læknum aðstöðu þar. „Þetta er eitthvað sem mig hefur alltaf dreymt um,“ segir hann

„Ég vildi ekki fara af stað fyrr en öll leyfi væru í höfn,“ segir Ágúst Birgisson lýtalæknir sem festi sér húsnæði við Efstaleiti 27C og 25, beint á móti heilsugæslunni, í apríl í fyrra. Nú tæpu ári síðar standa tilbúnar tvær skurðstofur, 6 læknamóttökur og snyrtistofa sem er þegar komin í rekstur.

Ágúst Birgisson hefur látið draum sinn rætast og sett upp glænýjar skurðstofur við Efstaleiti, Skurðstofur Reykjavíkur. Hann nýtti reynslu sína og hannaði skurðstofur og biðstofur eftir eigin höfði með föður sinn sér við hlið, byggingarverkfræðinginn Birgi Val Ágústsson. Mynd/gag

Ágúst hannaði aðstöðuna eftir eigin höfði með föður sínum, Birgi Val Ágústssyni athafnamanni og byggingarverkfræðingi, auk þess sem Guðmundur Gunnlaugsson arkitekt hjá Teiknistofunni Archus stílfærði og útfærði. „Er ekki allt í lagi að ráða sér sjálfur síðustu 10 ár starfsævinnar?“

Ágúst lærði skurðlækningar í Darthmouth í Bandaríkjunum og er með meistaragráðu þaðan í heilsuvísindum. Hann lærði bæklunarskurðlækningar í Noregi og svo lýtalækningar, sem hann hafði dreymt um frá barnsaldri. „Ég var 11 ára þegar ég ákvað að verða læknir. Tólf ára þegar ég ákvað að verða lýtalæknir,“ segir hann. Bæklunarlækningarnar hafi einungis verið skref í átt að markmiðinu.

„Ég man ekki hvað það var sem kom í hausinn á mér sem fékk mig til að vilja þetta. Líklega er ég svo þrjóskur að ég hef staðið við það allar götur síðan.“

Kom óvænt heim eftir nám

Eftir námstímann í Noregi vann hann við fegrunaraðgerðir í ár í Svíþjóð. „Ég ílentist næstum því þar,“ segir hann og lýsir hvernig hann hafi verið hársbreidd frá því að kaupa helming stofunnar sem hann starfaði á, en upp komu veikindi í fjölskyldunni og hann kom því heim árið 2007. „Ég kom korter í kreppu.“

Heimkominn starfaði hann á spítala þar til hann opnaði Læknastofur Akureyrar á Glerártorgi með fleirum og starfaði í Domus Medica. Við flutningana þaðan hafi hann litið í kringum sig, ætlað að setja upp starfsemi sína hjá Útlitslækningu við Grensásveg, en húsnæðið ekki hentað þegar á reyndi. „Ég fann að nú var kominn tími á drauminn; að verða eigin herra.“

Ágúst vildi ekki fá lækna til liðs við sig fyrir en leyfin væru í höfn. „Ég hef gert þetta allt klárt og leita nú að leigjendum. Fólki sem getur nýtt aðstöðuna,“ segir hann og að pláss sé fyrir allt að 15.

„Hér geta læknar gert hluti sem ekki er hægt að gera á spítalanum,“ segir hann. Skurðstofurnar séu miðaðar við aðgerðir þar sem ekki þurfi að leggja sjúkling inn yfir nótt. „Við erum bundin af því hér,“ segir hann þegar Ragnar Jónsson, bæklungarskurðlæknir og lögfræðingur, gengur inn í glænýja aðstöðuna. Hvaða hagsmuna á hann að gæta?

„Engra,“ segir Ágúst. „Ég fékk Ragnar til að koma því hann er sá sem smíðaði fyrstu staðlana fyrir skurðstofur hér á landi á 10. áratugnum.“ Ágúst stendur upp og saman förum við þrjú túr um starfsmannaaðstöðuna, skurðstofurnar og biðstofuna.

Skurðstofa eftir ströngum stöðlum

„Kröfur við uppsetningu skurðstofa eru mjög miklar,“ segir Ragnar. Innanhússrafkerfi og lofthreinsun þurfi að fylgja ákveðnum stöðlum. „Krafist er sömu gæða hér og á sjúkrahúsi,“ bætir hann við. Og þótt mörgum þyki erfitt að fá iðnaðarmenn, segir Ágúst það einmitt hafa verið snúnara að fá leyfin.

„Ég hef verið heppinn með iðnaðarmenn en ég gerði mér ekki grein fyrir hvað hið opinbera getur verið svifaseint,“ segir hann og rekur hvernig hann hafi brugðist við nýjum og nýjum kröfum byggingarfulltrúa, meðal annars þeirri kröfu að fá vask inn á skurðstofurnar.

„En samkvæmt skurðstofustaðli má það ekki vegna hættu á bakteríum í niðurföllum,“ segir hann og Ragnar samsinnir því. Ágúst lýsir því að ein krafan hafi verið hjólastólalyfta í starfsmannaaðstöðu ef þyrfti í framtíðinni. Þá sé ekki hægt að sækja um leyfi heilbrigðisfulltrúa fyrr en byggingarfulltrúi hafi gefið samþykki og hann ekki fengið leyfi landlæknis fyrr en heilbrigðiseftirlitið hafi gefið sitt. „Það er mikið mál að fá úttekt á skurðstofu.“

En hvernig leist Ragnari á þegar Ágúst sagði honum að hann ætlaði að ráðast í verkið einn? „Ég hélt ekki að þetta yrði svona stórt,“ segir hann og hristir hausinn. „Ágúst er stórhuga.“

Saman störfuðu þeir á Læknastofum Akureyrar en Ágúst fer milli höfuðstaðar Norðurlands og borgarinnar og er þar 2-3 daga aðra hverja viku. „Flestir læknar í þessu eru bæði á spítala og á stofu. Það passar mjög vel saman,“ segir hann.

Ragnar leggur áherslu á hversu hagkvæmar einkareknar stofur séu. „Ég hef skrifað um það í blöðin. Á einkarekinni stofu nýtist tíminn betur: styttri boðleiðir, engin yfirbygging,“ segir hann og tekur dæmi af liðspeglun á hné, sem hann þekki frá tímanum þegar hann skar sjálfur upp.

„Á spítalanum gat maður gert 4-5 aðgerðir á dag, ekki meira. Allt er svo þungt í vöfum,“ segir hann. „En hjá Orkuhúsinu á Suðurlandsbraut gátum við gert 10-14 smáaðgerðir á dag. Tekið plötur og skrúfur, gert speglanir og aðrar minniháttar aðgerðir.“ Ágúst segir þetta einnig reynslu sína.

„Hér geri ég 15-20 smáaðgerðir á dag, fyrir klukkan fjögur. Ég geri aðgerðalýsinguna sjálfur, skrifa reikninginn sjálfur og rukka sjúklinginn sjálfur — með hjálp einnar manneskju,“ segir hann. „Það er engin yfirbygging.“

En hvað með þá skoðun margra lækna að tími þeirra sé of dýrmætur í aukaverk, eins og að prenta út og stimpla? „Mjög góður punktur,“ segir Ágúst „Í Ameríku ertu með PA, persónulegan aðstoðarmann, en laun þeirra hér eru svo há að það borgar sig ekki,“ segir hann.

„Ég er mjög fljótur að gera þetta sjálfur.“ Hann stóli þó á aðstoðarmanneskju sína sem hjálpi honum í aðgerðum og sjái um tímapantanir. Hann beri ábyrgð á henni og hún spari honum tíma. „Hún er allt í öllu. Hún er aðstoðarmaður minn.“

Rétti tíminn til einkaframtaks

Ágúst er afar ánægður með að sjá drauminn rætast, en hvað kostar það? „Þetta kostar alveg helling,“ segir hann og hlær. Svarið loðið en hann gefur þó hugmynd þegar hann lýsir því að tilbúin innflutt skurðstofa með öllu kosti um 200 milljónir króna.

„Bara loftræstingin er eins og mjög góð íbúð í Reykjavík,“ segir hann og Ragnar skýtur að: „Já, eins og Lamborghini.“ En hvað áætlar Ágúst að það taki langan tíma að greiða pakkann?

„Sko. Ég hugsa ekki svona. Þá myndi ég aldrei fara af stað með neitt. Ég gerði mér verðhugmynd í huganum en vildi ekki setja hana á blað því þá myndi ég ekki fara af stað. Allar fjárfestingar mínar hingað til hafa gengið,“ segir hann öruggur og viðurkennir að það liggi líklegast í blóðinu.

„Pabbi er byggingarverkfræðingur. Ég hef farið með honum síðan ég var 5-7 ára að mæla fyrir grunnum. Þá hefur hann sett mig á mælingarstöngina. Svo er ég svo forvitinn og hef spurt. Ég hef lesið á teikningar síðan ég var barn,“ segir hann og lýsir því hvernig hann hafi fylgst með föður sínum með bræðrum hans byggja ESSO-nestin, verkstæði og Bílaleigu Akureyrar.

„Ég var sendur með og hjálpaði og vann með skóla. Ég hef gert upp húsin mín og finnst mjög gaman að smíða og brasa. Ég þekki þessa vinnu og hef stundað hana sjálfur. Ég veit hvað tekur langan tíma að sparsla og flísaleggja. Þetta er verk sem ég hef gaman af og ég hef verið í einkarekstri lengi, er alvanur rekstri, vanur að vinna og vinn mikið. Ég hef gaman af því,“ segir Ágúst en viðurkennir þó að kröfurnar hafi verið krefjandi.

„Sérefni er í rafmagnssnúrum. Ef það brennur koma ekki eiturgufur frá þeim. Varaafl er undir stiganum, sem heldur öllu gangandi ef rafmagnið fer. Hér er allt eins og það á að vera,“ segir hann og að Landspítali muni á endanum setja upp áþekka loftræstingu á nýja spítalanum. „Skurðstofurnar eru loftþéttar og loftskipti 20 sinnum á klukkustund.“

Getur þetta einn en vill fleiri

En hvað ef honum tekst ekki að fá til sín alla þessa lækna? „Þá vinn ég aðeins meira.“ En er þá einhver hætta á að kostnaðurinn vaxi honum yfir höfuð? „Ég ræð við þetta sjálfur. Einn,“ segir hann. „Ég verð ekki að fá einhvern með mér en það yrði bara miklu skemmtilegra, léttara og einfaldara. Ég veit að það er eftirspurn eftir svona aðstöðu,“ segir hann og að sviðið sé breiðara en lýtaaðgerðir einar. Hann viti til að mynda að tannlæknar hafi ekki aðstöðu til svæfinga.

„Ég sé fyrir mér að hér verði æða-, þvagfæra- og kvensjúkdómalæknar. Hér getur verið svæfingaaðstaða fyrir tannlækna og margt hægt að gera.“ Ágúst segir eftirsóknarvert að vinna í svona lítilli einingu. „Hér fáum við læknar meiri nánd við sjúklinga og tækifæri til að gera fleiri hluti en á stærri starfsstöðvum,“ segir hann.

„Hér er notalegt fyrir sjúklingana, starfsfólkið og þetta er skilvirkt. Það er engin yfirbygging og því hægt að reka þetta á miklu hagkvæmari hátt,“ segir hann. „Ég hlakka til að byrja á fullum afköstum og sjá hvort aðrir læknar vilji ekki nýta þessa aðstöðu með mér.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica