02. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bókin mín. Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Gerður Gröndal

Hvaða bók hefur fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?

Uppáhaldsbækurnar eru víst margar, mjög margar, og ég þarf augljóslega að velja úr, vel þær sem fyrst koma í hugann og hafa sem besta skírskotun til annarra lækna, þeirra sem munu lesa þennan pistil.

Það hefur aldrei þurft að hvetja mig til þess að lesa, það er bara með því skemmtilegasta sem ég geri. Mér tókst að klára barnabækurnar í Bókasafni Kópavogs 12 ára og fór þá að lesa skáldskap og heimsbókmenntir. Enda uppalin á menningarheimili, faðir minn Gylfi Gröndal rithöfundur og móðir mín íslenskukennari, og því mikið talað um bækur og vitnað í bókmenntir. Uppáhaldsljóð föður míns voru án efa ljóð Einars Benediktssonar og hluti úr Einræðum Starkaðar (sjá neðar) þulinn yfir okkur systkinum við hin ýmsu tækifæri, enda uppeldislega afar viðeigandi, kannski síðan mín lífspeki og í sérstöku uppáhaldi hjá mér alla tíð.

Eitt bros - getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúist við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Margar ljóðabækur hafa haft mikil áhrif á mig, til dæmis bækur Ferdinands Jónssonar vinar míns, líka ljóð bróður míns, Gylfa Freys, en síðasta ljóðabók föður míns er samt mín uppáhalds. Eitt vor enn heitir hún og kom út hjá Forlaginu 2005. Hún er falleg og gagnleg lesning fyrir alla lækna, hugleiðingar dauðvona manns. Bókin var um tíma notuð við kennslu læknanema í samskiptafræði.

Oft hef ég fengið æði fyrir ákveðnum höfundi og lesið allt eftir hann, Ian McEwan er einn af þeim og þar stendur skáldsagan Saturday upp úr, eða Laugardagur, eins og hún heitir í íslenskri þýðingu. Hún fjallar um 48 ára taugaskurðlækni og líf hans einn viðburðaríkan laugardag. Fer hægt af stað en endar sem hálfgerð spennusaga og lýsir óhuggulegum áskorunum sem við læknar getum þurft að glíma við í starfi okkar.

Ian McEwan í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, að taka á móti
Bókmenntaverðlaunum Halldórs Laxness árið 2019. Mynd/Grapevine

Mörgum ykkar er kunnugt að ég fékk óvænt í fangið leiðindaverkefni síðustu mánuði, allt er reyndar gott sem endar vel. En á þessu tímabili var það einmitt bók sem ásamt ást og umhyggju ættingja og vina gagnaðist hvað best á erfiðum stundum. Bókin heitir The Complete Guide to Breast Cancer. How to feel Empowered and Take Control. Hún er skrifuð af tveimur enskum læknum, Trisha Greenhalgh og Liz O‘Riordan, sem báðar fengu þennan sjúkdóm sjálfar. Vinkona mín úr læknadeild kom færandi hendi með þessa bók alla leið frá Cambridge. Tónninn í bókinni er svo fagmannlegur og jákvæður, og það er einhver annar tónn en í sjúklingaskrifum eða læknisfræðilegum texta, einmitt tónninn sem ég leitaði að. Það er nefnilega alveg sérstök áskorun að vera veikur læknir, það skilja líklega bara þeir sem hafa lent í því. Fyrst var ég svo ánægð með undirtitilinn, því það var einmitt það sem ég þráði mest sem sjúklingur (og læknir), að finnast ég hafa einhverja stjórn, jú og að ná að valdeflast þrátt fyrir ástandið. Þegar þessu verkefni er svo lokið núna, finnst mér reyndar álíka mikilvægt að læra að sleppa kontrólinu, líka meiri háttar áskorun fyrir flesta lækna, slaka á og láta bara lífið leika við sig. Og er ekki bráðum að koma eitt vor enn?

Ég skora á Sólveigu Bjarnadóttur sérnámslækni í almennum lyflækningum að skrifa um þá bók sem hefur haft mest áhrif á hana.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica