02. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

„Við þurfum að ná jafnvægi“ sagði forseti Íslands við lækna

Forseti Íslands lýsti því í opnunarræðu á Læknadögum hversu mikilvægt það væri að vinna af kappi og vilja til að gera betur frekar en að festast í áhyggjum og angist yfir því hversu vandamálið er umfangsmikið

„Mér fannst eiginlega forseti Íslands nánast skamma okkur fyrir að vera að væla svona mikið um álag,“ sagði Margrét Ólafía Tómasdóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna, á málþinginu Líðan lækna – Næstu skref á Læknadögum þegar hún hóf erindi sitt og vísaði til ræðu forsetans frá opnunarhátíðinni. Forsetinn hvatti þar lækna til að halda í Pollýönnu-hlið sína. Þeir þyrftu að ná ákveðnu jafnvægi í starfi.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands setti Læknadaga og hvatti til jákvæðs hugarfars í starfi og jafnvægis. Mynd/gag

„Og ég held að við gætum jafnvel líka spurt okkur: Er þá ástandið ekki betra en það var einu sinni?“ spurði forsetinn. „Er ekki ástandið betra en það var í gamla daga, eða var allt betra í gamla daga?“ Hann varpaði 50 ára gamalli frétt á skjáinn þar sem vísað var til þess að þúsundir heimilislækna vantaði hér fyrir sunnan og aðeins einn væri á Akureyri.

„Og hvernig var ástandið á slysó,“ spurði hann og vísaði í jafngamla fyrirsögn úr Tímanum: „Geðsjúkir, drykkjusjúkir og töfluætur fylla slysadeildina.“ Tímarnir væru í það minnsta umburðarlyndari nú.

„Við erum þá kannski á réttri leið, er það ekki?“ sagði hann og áréttaði: „Smá balance – smá mótvægi hjálpar okkur alltaf.“ Hann sagði nýjar heilsugæslustöðvar ekki leysa vandann heldur forvarnir gegn lífsstílstengdum sjúkdómum. Ráðast þyrfti á rót vandans.

Margrét Ólafía sagði mikilvægt í umræðum á málþinginu um miðja Læknadaga að lýsa stöðunni eins og hún væri, því það væri grundvöllur fyrir breytingum. „Það þýðir ekki að fela hlutina,“ sagði hún og velti fyrir sér hvort umræðan hefði hugsanlega varað of lengi án aðgerða.

„Helst hefði ég haldið að við værum föst í ákveðnum vítahring með álagið. Þegar álagið er mikið, eins og við vitum, erum við föst í að hlaupa stöðugt hraðar og höfum ekki tóm eða rými til að staldra við og greina vandann og breyta því sem þarf að breyta svo aðstæður okkar verði betri.“ Hún velti því einnig upp hvort læknar hefðu týnt tilgangi sínum í óþarfa aukahandtökum.

Nokkuð var togast á á málþinginu og þeirri spurningu varpað úr sal hvort kulnun í læknastétt væri nokkuð meiri en í öðrum. „Nei, svo er ekki,“ sagði Bára Hildur Jóhannsdóttir, formaður Landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu, sem einnig hélt þar erindi og sýndi klippur úr gömlum fréttum og hvatti fólk til að tempra orðræðuna um álagið.

„Þetta er ekkert nýtt af nálinni og við erum ennþá, tveimur áratugum síðar, á svipuðum stað með sömu fyrirsagnirnar. Við þurfum því að finna nýjan takt,“ sagði Bára og benti á að bruninn væri helst hjá ungu fólki á barneignaraldri sem héldi mörgum boltum á lofti: konum.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins, segir í viðtali við Læknablaðið að neikvæð umræða verði ekki til í tómarúmi. „Það er erfitt að ríghalda í jákvæðnina árum, eða jafnvel áratugum saman, þegar ekkert bólar á aðgerðum til að mæta sívaxandi álagi,“ segir hún.

„Læknar hafa ítrekað sett fram raunhæfar hugmyndir að lausnum, meðal annars í ákalli 1000 lækna til heilbrigðisráðherra, sem nú nálgast Í opnunarræðu sinni benti hún á að kulnun heilbrigðisstarfsfólks væri alþjóðleg krísa sem teygði anga sína svo sannarlega hingað til lands. „Hún er sérstök fyrir okkar geira og lýsti lýðheilsuskóli Harvard-háskóla því yfir árið 2019 að kulnun lækna væri lýðheilsukrísa eða „public health crisis“– og það fyrir COVID!“

Í opnunarræðu sinni benti hún á að kulnun heilbrigðisstarfsfólks væri alþjóðleg krísa sem teygði anga sína svo sannarlega hingað til lands. „Hún er sérstök fyrir okkar geira og lýsti lýðheilsuskóli Harvard-háskóla því yfir árið 2019 að kulnun lækna væri lýðheilsukrísa eða „public health crisis“– og það fyrir COVID!“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica