02. tbl. 109. árg. 2023

Fræðigrein

Tíðni fyrirburafæðinga og áhættuþátta hjá íslenskum konum og konum af erlendum uppruna á árunum 1997-2018

Preterm birth among Icelandic and migrant women in Iceland during 1997-2018 and main contributing factors

doi 10.17992/lbl.2023.02.729 

Ágrip

 

INNGANGUR
Takmörkuð þekking er til um útkomur hjá konum af erlendum uppruna í barneignaferlinu samanborið við íslenskar konur. Markmið rannsóknarinnar var að skoða tíðni fyrirburafæðinga og áhættuþátta fyrir fyrirburafæðingum hjá þessum hópum á Íslandi.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Rannsóknin var lýðgrunduð ferilrannsókn og gögn fengin úr Fæðingaskrá. Í ferilhópnum voru allar konur sem fæddu einbura frá 22v0d til 36v6d meðgöngu á Íslandi á árunum 1997-2018, samtals 89.170 konur. Hópnum var skipt í tvennt: konur með íslenskt og erlent ríkisfang. Frekari skipting hópsins var gerð með tilliti til lífskjaravísitölu ríkisfangslands þeirra. Tíðni fyrirburafæðinga og áhættuþátta fyrir fyrirburafæðingum var greind eftir þessum flokkum og marktækni á mun mæld með kí-kvaðrat prófi.

NIÐURSTÖÐUR
Marktækur munur var á tíðni fyrirburafæðinga hjá íslenskum konum (4,4%) og kvenna með erlent ríkisfang (5,6%) (p<0,001). Konur með erlent ríkisfang frá mið-lífskjaravísitölulöndum fæddu fyrir tímann í 5,5% tilfella (p<0,01) og konur frá lág-lífskjaravísitölulöndum í 6,4% tilfella (p<0,001). Konur með erlent ríkisfang greindust oftar með þvagfærasýkingar, sykursýki, vaxtarskerðingu og fyrirmálsrifnun himna, en sjaldnar með meðgöngueitrun, offitu, fylgjugalla, geðræn vandamál og aldur <18 ára (p<0,05).

ÁLYKTUN
Konur með erlent ríkisfang á Íslandi fæða oftar fyrirbura en íslenskar konur, þessi munur finnst helst hjá konum frá mið-lífskjaravísitölulöndum og lág-lífskjaravísitölulöndum. Þetta er í samræmi við margar erlendar rannsóknir. Munur á áhættuþáttum er til staðar og þarfnast frekari rannsókna. Taka þarf tillit til þessara þátta í áframhaldandi þróun meðgönguverndar kvenna af erlendum uppruna á Íslandi.

Greinin barst til blaðsins 3. nóvember 2022, samþykkt til birtingar 3. janúar 2023.

Inngangur

Rannsóknir hafa sýnt aukna áhættu fyrir fyrirburafæðingum hjá konum af erlendum uppruna í samanburði við innfæddar1-10 og hefur það í sumum rannsóknum jafnvel verið talinn sjálfstæður áhættuþáttur fyrir fyrirburafæðingum að vera af erlendum uppruna.11-12 Þó er þetta samband ekki algert þar sem konur af erlendum uppruna eru fjölbreyttur hópur.

Fyrirburafæðingar eru taldar vera á bilinu 5-18% fæðinga á heimsvísu og þar af eru Norðurlöndin með hvað lægsta tíðni.13 Meðaltal á heimsvísu er 10,6%14 en þrátt fyrir að tíðnin hér á landi sé lægri, hafa fyrirburafæðingar hér á landi aukist úr 4,8% árin 1972-1981 í 6,1% árin 2012-2016. Meirihluti fyrirburafæðinga fer sjálfkrafa af stað,15 en tíðni meðferðartengdra fyrirburafæðinga hefur aukist undanfarin ár vegna sjúkdómsástands móður eða fósturstreitu. Meðferðartengdar fyrirburafæðingar eru nú um tvöfalt hlutfall af fyrirburafæðingum á Íslandi miðað við árið 1997, eða 43% af öllum fyrirburafæðingum.14 Fylgikvillar fyrirburafæðinga valda um 35% dauðsfalla hjá nýburum og 16% hjá börnum undir 5 ára aldri.16 Auk þess kljást fyrirburar við ýmsa kvilla sem eru tengdir því að hafa fæðst fyrir tímann eins og öndunarfærasjúkdóma, taugakvilla, og sjón- og heyrnarskerð-ingu.13 Þá eru fyrirburafæðingar og lág fæðingarþyngd talin vera vísir á félagslegan ójöfnuð einstaklinga.17

Áhættuþættir og fyrirburafæðingar

Áhættuþættir móður fyrir fyrirburafæðingum eru margvíslegir og tengjast jafnt líkamlegu ástandi og sálfélagslegum þáttum. Þar má nefna fyrri fyrirburafæðingu, fjölburameðgöngu, kynþátt, aldur (háan og lágan), frumbyrjur, lágt menntunarstig, stutt bil á milli fæðinga, næringarskort, lengd legháls og leghálsgalla, tæknifrjóvgun, reykingar og neyslu annarra vímuefna, ýmsar sýkingar, meðgöngueitrun, sykursýki, blóðleysi, offitu, tannholdssjúkdóm, geðræn vandamál, mengun, streitu fyrir og á meðgöngu, félagslega stöðu, heimilisofbeldi og undirliggjandi sjúkdóma. Einnig geta gallar á fylgju og legi aukið tíðni fyrirburafæðinga, auk fósturgalla.8,10,13 Marga af þessum þáttum er hægt að bera kennsl á og í sumum tilfellum koma í veg fyrir eða meðhöndla með árangursríkri meðgönguvernd.18

Í nýlegri rannsókn14 voru helstu ástæður fyrir meðferðartengdum fyrirburafæðingum á Íslandi fósturstreita, fylgjulos, sykursýki, gallstasi og veikindi móður. Aðrar algengar ástæður geta verið meðgöngueitrun og vaxtarskerðing fósturs.19

Rannsóknarniðurstöðum um samanburð á áhættuþáttum meðferðartengdra fyrirburafæðinga á meðal kvenna af erlendum uppruna og innlendra ber ekki saman. Nokkrar rannsóknir20,21 hafa sýnt að konur af erlendum uppruna eru í meiri hættu á meðgöngueitrun20-21 en aðrar rannsóknir22,23 sýndu ekki þennan mun á milli þessara hópa kvenna. Einnig ber niðurstöðum rannsókna ekki saman um hvort konur af erlendum uppruna séu í aukinni hættu á vaxtarskerðingu fósturs, en rannsókn Abdullahi1 sýndi fram á aukna áhættu á vaxtarskerðingu fósturs en niðurstöður rannsóknar Ankert24 sýndu ekki mun. Þó virðast rannsóknarniðurstöðum bera saman um að konur af erlendum uppruna séu líklegri að þróa með sér sykursýki.25

Markmið rannsóknarinnar var að skoða tíðni fyrirburafæðinga og áhættuþátta fyrir fyrirburafæðingum hjá íslenskum konum og konum af erlendum uppruna á Íslandi og hvort munur væri þar á.

Efniviður og aðferðir

Rannsóknin var lýðgrunduð ferilrannsókn og voru gögn fengin úr Fæðingaskrá. Ferilhópurinn var allar konur sem fæddu einbura frá 22v0d til 36v6d meðgöngu á Íslandi á árunum 1997-2018. Hópnum var skipt í tvennt: konur með íslenskt og erlent ríkisfang. Frekari skipting hópsins var gerð með tilliti til lífskjaravísitölu eða Human Development Index (HDI) ríkisfangslands þeirra. Tíðni fyrirburafæðinga og áhættuþátta fyrir fyrirburafæðingum var greind eftir þessum flokkum og marktækni á mun mæld með kí-kvaðrat prófi og var miðað við 0,05 marktæknimörk.

Útsetning

Ferilhópnum var skipt eftir ríkisfangi. Annars vegar konur með íslenskt ríkisfang og hins vegar konur sem ekki voru skráðar með íslenskt ríkisfang í Fæðingaskrá en þær voru skilgreindar sem konur af erlendum uppruna. Þeim var svo frekar skipt eftir HDI-flokkun ríkisfangslands þeirra. Sú skipting var gerð til þess að fá hugmynd um það hvort munur sé á tíðni fyrirburafæðinga eftir ríkisfangi kvennanna. HDI-lífskjaralistinn var þróaður af Sameinuðu þjóðunum og kom fyrst fram árið 1990.26 Samkvæmt þeim lista var ætlunin að gefa betri mynd af hagþróun landa en fæst með öðrum aðferðum, svo sem heildarlandsframleiðsla (GDP). HDI er listi sem er samsettur úr vísum fyrir lífslíkur við fæðingu, menntun og vergar þjóðartekjur á mann.26 HDI-listanum var í þessari rannsókn skipt í þrennt: lönd með hátt HDI (≥0,900), miðlungs HDI (0,850-0,899) og lágt HDI (≤0,849). Undir hæsta flokkinn falla til dæmis Norðurlöndin, Bandaríkin og Bretland. Í mið-flokknum má finna Lettland, Pólland, Litháen, Frakkland, Spán og fleiri lönd. Til lægsta flokksins er svo hægt að telja löndin Tæland, Írak, Nigeríu og Filippseyjar.26 Ekki var skráð ríkisfang 23 kvenna og þar af leiðandi falla þær ekki undir HDI-flokkun. Hins vegar voru þær greindar undir flokknum „erlendar konur”.

Samanburðarhópurinn var allar konur með íslenskt ríkisfang sem fæddu fyrirbura á sama tímabili. Inn í þann hóp falla þó einnig konur sem eru af erlendum uppruna, en hafa öðlast íslenskt ríkisfang.

Útkomubreytur

Fyrirburafæðingar voru í þessari rannsókn flokkaðar í þrjá flokka eftir meðgöngulengd í vikum í samræmi við skiptingu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.27 Þeir flokkar eru eftirfarandi: Mjög miklir fyrirburar (<28 vikur), miklir fyrirburar (28v0d-31v6d), og miðlungs- og síðfyrirburar (32v0d-36v6d). Mismunandi er hvort andvana fæðingar fyrir tímann eru hafðar inni í skilgreiningunni á fyrirburafæðingu.13,27-28 Þar sem helstu orsakir fyrir andvana fæðingum eru oft þær sömu og fyrir fyrirburafæðingum29 og hér er einungis verið að skoða fæðingarnar sjálfar, en ekki útkomu barns, var ákveðið að hafa þær með í gagnagreiningu þessarar rannsóknar.

Áhættuþættir voru að mestu flokkaðir eftir ICD-greiningunum. Þeim var skipt upp í flokka þar sem greiningar fyrir svipað eða sama sjúkdómsástand voru flokkaðar saman (tafla I).

Þeir áhættuþættir sem innihéldu ekki ICD-greiningar voru tveir: Andvana fæðingar (fóstur lést í móðurkviði og fæddist andvana fyrir fullar 37 vikur meðgöngu) og aldur móður (aldur móður undir 18 ára aldri og yfir 40 ára). Teknir voru út flokkarnir: Aðrar sýkingar (O98), sjaldgæfir fylgjugallar (C58, D39.2, O01, P02), reykingar (F17.1, F17.2) og næringarskortur (E46, E63, E63.8, E63.9), þar sem engar konur voru skráðar með greiningar innan þessara flokka. Ekki reyndist mögulegt að greina BMI eða tíðni reykinga, þar sem það var illa skráð í Fæðingaskrá yfir tímabilið sem var rannsakað.

Greiningar

Reiknuð var tíðni og framkvæmt kí-kvaðrat marktektarpróf. Ef væntitíðni innan hópa var minni en 5 í 20% reita eða meira var notað Fisher's nákvæmnis-próf.31 Niðurstöður úr kí-kvaðrat- og Fisher's-prófunum voru settar fram sem p-gildi. Í þessari rannsókn var miðað við p-gildið 0,05. Gagnagreining fór fram í forritinu SPSS, útgáfu 26 fyrir Windows.

Rannsóknin er hluti af stærra verkefni: „Erlendar konur á Íslandi: útkoma á meðgöngu, í fæðingu og eftir fæðingu og samskipti þeirra við heilbrigðiskerfið” (nr. 196218051). Fyrir liggur leyfi vísindasiðanefndar (VSNb2019050003/03.01), Embættis landlæknis, siðanefndar heilbrigðisrannsókna á Landspítala, vísindanefndar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Háskóla Íslands fyrir yfirrannsókninni. Sótt var um leyfi fyrir þessari rannsókn sem viðbót við verkefnið og var það samþykkt þann 8. desember 2020.

Niðurstöður

Heildarfjöldi kvenna í ferilhópnum voru 89.170, þar af 7820 með erlent ríkisfang. Í hópnum sem tilheyrði háu-HDI var 1771 kona, í mið-HDI hópnum voru 3928 konur og í lágt-HDI hópnum 1796 konur.

Konur með erlent ríkisfang voru síður í námi eða vinnu, voru frekar frumbyrjur og áttu færri börn, voru sjaldnar gangsettar og fóru í færri forskoðanir á meðgöngu (tafla I).

Tíðni fyrirburafæðinga

Fyrirburafæðingar einbura á árunum 1997-2018 voru 4021 talsins, eða 4,5% af öllum einburafæðingum á tímabilinu (tafla II).

Þá vantaði upplýsingar um meðgöngulengd hjá 3,9% ferilhópsins. Konur með erlent ríkisfang fæddu fyrirbura í 5,6% tilfella af öllum einburafæðingum þeirra, samanborið við 4,4% tilfella hjá íslenskum konum. Konur í mið-HDI hópnum og lágt-HDI hópnum fæddu oftar fyrir tímann en íslenskar konur (5,5% og 6,4% á móti 4,4%).

Áhættuþættir fyrir fyrirburafæðingum

Konur með erlent ríkisfang sem fæddu fyrirbura greindust oftar með snemmbúna fyrirmálsrifnun himna en íslenskar konur (33,5% á móti 27,3%) (tafla III).

Konur með erlent ríkisfang voru sjaldnar greindar með meðgöngueitrun, meðgöngukrampa eða HELLP-heilkenni (12,1% á móti 16,5%). Þá voru þær einnig sjaldnar skráðar með ICD-greiningu tengda offitu (2,7% á móti 5,1%). Engin kona með erlent ríkisfang var skráð með greiningu sem tengdist geðrænum vanda í ferilhópnum og engin kona með erlent ríkisfang fæddi fyrirbura í rannsókninni undir 18 ára aldri.

Þá fannst einnig munur á tíðni áhættuþátta þegar greint var með tilliti til HDI-flokkunar upprunalands, þó ekki hjá hátt-HDI hópnum. Einungis 2,8% kvenna í mið-HDI hópnum voru greindar með fylgjugalla (á móti 6,3% tilfella hjá íslenskum konum). Þó voru þær oftar greindar með þvagfærasýkingar (0,9% á móti 0,1%), fyrirmálsrifnun himna (33,5% á móti 28,0%) og börn þeirra líklegri að vera greind vaxtarskert miðað við meðgöngulengd (16,5% á móti 11,8%).

Í samanburði við íslenskar konur voru konur innan lágt-HDI hópsins oftar greindar með sykursýki (16,5% á móti 8,4%) en sjaldnar greindar með meðgöngueitrun, fæðingarkrampa og HELLP-heilkenni (8,7% á móti 16,5%) og offitu (0,0% á móti 5,1%).

Umræða

Konur með erlent ríkisfang á Íslandi fæða oftar fyrirbura en íslenskar konur, þessi munur finnst helst hjá konum frá mið-HDI löndum og lágt-HDI löndum. Í þessari rannsókn gat rúmlega þriðjungur fyrirburafæðinga talist til meðferðartengdra fyrirburafæðinga, það er framkallaðar fæðingar eða valkeisaraskurðir. Meðferðartengdar fyrirburafæðingar urðu oftast þegar barnið taldist til miðlungs- og síðfyrirbura.

Flestar rannsóknir sem áður hefur verið vitnað til sýndu fram á aukna tíðni fyrirbura hjá konum með erlent ríkisfang, hvort sem það var hjá öllum konum með erlent ríkisfang,2,4-5,8-10,12,31 konum frá vissum löndum1,6-7,32-33 eða við vissa meðgöngulengd.1,3,6 Því samræmast niðurstöður þessarar rannsóknar að miklu leyti erlendum rannsóknum. Þegar munur fannst á meðgöngulengd í erlendum rannsóknum var tíðni frekar aukin snemma á meðgöngu, en ekki seinna eins og í þessari rannsókn.1,3,6. Í rannsóknarhópnum voru konur með erlent ríkisfang oftar frumbyrjur, en þær eru líklegri til að fæða fyrirbura.13 Jafnframt áttu þær sem voru fjölbyrjur færri börn en íslenskar fjölbyrjur, sem er ekki í samræmi við erlendar rannsóknir.34

Þrátt fyrir að hlutfall innflytjenda á Íslandi hafi aukist á tímabilinu35-36 virðist það ekki hafa áhrif á heildartíðni fyrirburafæðinga einbura. Samkvæmt einni rannsókn14 jókst tíðni fyrirburafæðinga einungis hjá fjölburum á árunum 1997-2016, en fyrirburafæðingar einbura héldust nánast óbreyttar.

Í þessari rannsókn voru um það bil tvær af hverjum þremur fyrirburafæðingum sjálfkrafa fyrirburafæðingar. Samkvæmt annarri rannsókn14 fækkaði sjálfkrafa fyrirburafæðingum á tímabilinu 1997-2016. Hins vegar jókst tíðni meðferðartengdra fyrirburafæðinga, þar sem fæðing var framkölluð eða keisaraskurður framkvæmdur vegna veikinda móður eða ástands fósturs.14 Þessi þróun hefur sést í öðrum löndum og ýtir undir mikilvægi þess að skipta fyrirburafæðingum í sjálfkrafa- og meðferðartengdar fyrirburafæðingar þegar horft er til tíðni.37-38 Ekki fannst marktækur munur á tíðni andvana fæðinga á milli hópa og því ættu andvana fæðingar ekki að hafa marktæk áhrif á mun á tíðni fyrirburafæðinga milli hópa íslenskra kvenna og kvenna af erlendum uppruna.

Áhættuþættir fyrirburafæðinga

Konur með erlent ríkisfang fá marktækt oftar greininguna fyrirmálsrifnun himna en íslenskar konur. Þetta er í samræmi við niðurstöður Zhou og fleiri10 sem töldu innflytjendastöðu beinan áhættuþátt fyrir fyrirmálsrifnun himna fyrir tímann. Töldu þau mögulega ástæðu vera verri húsnæðis- og hreinlætisaðstæður innflytjenda. Í skýrslu Hagstofunnar um félagslegar aðstæður innflytjenda var meðal annars fjallað um húsnæðismál þeirra. Innflytjendur eru líklegri til að búa þrengra en innfæddir, auk þess sem hátt í þriðjungur þeirra telur sig búa í lélegu húsnæði.39

Bent hefur verið á samband milli geðrænna vandamála á meðgöngu og fyrirburafæðinga5 en svo virðist sem geðræn vandamál séu annaðhvort vangreind eða vanskráð en engin kona með erlent ríkisfang var skráð með geðgreiningu í ferilhópnum og einungis 42 íslenskar konur, eða 1,2%. Þar af var engin kona skráð með geðgreiningu fyrir árið 2005.

Konur með erlent ríkisfang voru marktækt sjaldnar með meðgöngueitrun en ekki fannst marktækur munur þegar einungis var horft á háþrýsting, bæði fyrirkominn og meðgönguháþrýsting. Niðurstöður norskrar rannsóknar23 sýndu að fleiri konur með erlent ríkisfang fæddu fyrir tímann af þeim sem voru greindar með meðgöngueitrun en Ray og fleiri20 fundu mjög dreifða áhættu fyrir meðgöngueitrun eftir upprunalandi kvenna. Vaxtarskerðing fósturs og fyrirburafæðingar haldast oft í hendur en í þessari rannsókn var vaxtarskerðing einungis hærri hjá konum í mið-HDI hópnum miðað við íslenskar konur. Það er í samræmi við niðurstöður rannsóknar32 sem sýndi mun á tíðni eftir upprunalandi og niðurstöður frá Ástralíu1 og Danmörku.7

Sjálfkrafa fyrirburafæðing var algengari hjá konum í mið- og lægsta-HDI-hópnum en hins vegar var fyrirburafæðing marktækt sjaldnar framkölluð hjá konum í lægsta-HDI-hópnum. Þar gæti meðgöngueitrun haft áhrif á tíðnina þar sem hún var eini áhættuþátturinn sem var lægri hjá lægsta-HDI-hópnum, en hún er ábending fyrir meðferðartengdum fyrirburafæðingum. Frekari rannsókna er þörf til þess að greina af hverju munur á sjálfkrafa- og meðferðartengdum fyrirburafæðingum er til staðar.

Sé horft til meðgönguverndarinnar mættu konur með erlent ríkisfang oftar í núll til þrjár skoðanir í meðgönguvernd og sjaldnar í fleiri en 8 skoðanir. Þetta kom fram í öllum HDI-flokkum og er í samræmi við erlendar rannsóknir þar sem niðurstöður benda til þess að konur með erlent ríkisfang mæti seinna og sjaldnar í meðgönguvernd.3,17 Flestar konur í rannsókninni voru að mæta fjórum til 8 sinnum í meðgönguvernd í öllum hópum. Eðlilegt er að konur sem fæða fyrir tímann séu með færri komur en mælt er með fyrir heilbrigða konu í eðlilegri meðgöngu. Þær ættu þó samt að ná að minnsta kosti tveimur skoðunum fyrir 23 vikna meðgöngu.40 Samkvæmt leiðbeiningum Embættis landlæknis40 er það einnig hlutverk fagfólks að fylgjast með og bera kennsl á einkenni eða ástand sem getur haft áhrif á heilsu móður og fósturs, eins og vímuefnaneysla, næringarástand, andlega líðan og ofbeldi, háþrýstingur, meðgöngueitrun og sykursýki. Allt eru þetta áhættuþættir fyrirburafæðinga.8,10,13

Samskipti, tungumálaörðugleikar og aðgengi eru stórir áhrifaþættir þegar kemur að gæðum meðgönguverndar til kvenna af erlendum uppruna.4 Ekki kom fram í rannsókninni hvort konurnar þurftu á túlkaþjónustu að halda, eða fengu hana. Konur þurfa á góðri fræðslu að halda í meðgönguvernd til þess að styðja við eðlilegt barneignarferli: fá fræðslu um áhættuþætti, hvert skal leita ef upp koma vandamál og viðbrögð við vandamálum.

Félagslegir þættir gætu líka haft áhrif. Ekki kom fram í rannsókninni við hvað konurnar störfuðu, hvort konur með erlent ríkisfang væru til dæmis oftar í lágtekjustörfum eins og kom fram í skýrslu sem var gerð fyrir félagsmálaráðuneytið.41 Gæti sú vinna verið erfiðari líkamlega og valdið meira álagi. Þó kom fram í þessari rannsókn að konur með erlent ríkisfang voru sjaldnar á vinnumarkaði eða í námi í samanburði við íslenskar konur. Upplýsingar um sjúkratryggingar kvennanna voru ekki í gagnasafninu. Ef konur voru ósjúkratryggðar gæti það mögulega haft þau áhrif að þær hikuðu við að sækja sér þjónustu vegna fjárhags.

Almennt eru konur af erlendum uppruna í meiri áhættu á slæmum útkomum en innfæddar konur.4,11 Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á hóp sem lítið hefur verið rannsakaður á Íslandi. Þær gefa vísbendingar um hverju þarf að fylgjast betur með hjá þessum hópi og nýta til áframhaldandi þróunar á meðgönguvernd hér á landi.

Styrkleikar og veikleikar

Helsti styrkleiki þessarar rannsóknar er að hún nær yfir langt tímabil. Lýðgrundað rannsóknarsnið styrkir réttmæti rannsóknarinnar og má yfirfæra niðurstöður yfir á skilgreint þýði. Annar styrkleiki er stöðluð tölfræðipróf sem notuð voru við greiningu gagna og vel afmörkuð og skilgreind aðferðafræði, sem hvort tveggja eykur áreiðanleika rannsóknarinnar.

Helstu veikleikar rannsóknarinnar eru vegna skorts á gögnum í Fæðingaskrá. Upplýsingar um menntun kvennanna og tímasetningu fyrstu komu í meðgönguvernd voru ekki til staðar í gagnasafninu og ekki var hægt að greina upplýsingar um líkamsþyngdarstuðul eða reykingar allt tímabilið. Þessir þættir geta allir talist til áhættuþátta fyrir fyrirburafæðingum10,13 og hefðu því getað aukið við niðurstöður rannsóknarinnar. Þá vitum við ekki hvort notuð var túlkaþjónusta í meðgönguvernd hjá erlendu konunum, hvort þær voru hælisleitendur eða flóttakonur, hvort konurnar voru sjúkratryggðar eða hvaða tekjur þær höfðu. Þeir þættir gætu verið hindranir í veitingu meðgönguverndar til erlendra kvenna.4 Auk þess vantar upplýsingar um hjúskaparstöðu hátt í fjórðungs kvenna með erlent ríkisfang og upplýsingar um hversu lengi konurnar höfðu verið á Íslandi fyrir fæðingu voru ekki skráðar og þar af leiðandi erfitt að álykta hvort þær hafi fengið meðgönguvernd í öðru landi fyrir komuna til Íslands. Það má því segja að niðurstöður rannsóknarinnar varpi ljósi á mikilvægi skráningar í Fæðingarskrá til að hægt sé að gera gæðarannsóknir á þessu sviði í framtíðinni.

Ekki lágu fyrir upplýsingar um þjóðaruppruna kvenna í skráningunni. Þess í stað var stuðst við ríkisfang kvennanna. Einhverjar konur af erlendum uppruna sem hafa dvalið mislengi á landinu eru með tvöfalt ríkisfang, erlent og íslenskt. Þá voru þær skráðar með íslenskt ríkisfang í gagnasafninu. Alls fengu 6983 konur af erlendum uppruna íslenskt ríkisfang á tímabilinu, flestar úr mið- og lágt-HDI-hópunum. Þessi mikli fjöldi ætti þó frekar að minnka mun á milli hópa en auka hann. Einnig kom fram valbjögun við skiptingu HDI-flokka. Undir lágt-HDI flokkinn (≥0,849) falla mun fleiri lönd en hina flokkana og hópurinn þar því mjög fjölbreyttur og gæti það haft þau áhrif á niðurstöður að minni munur sjáist í tölfræðigreiningu.

Þakkir

Við þökkum Embætti landlæknis og Fæðingaskrá fyrir að útvega gögnin í rannsókninni.

 

Heimildir

 

1. Abdullahi I, Wong K, Glasson, et al. Are preterm birth and intra-uterine growth restriction more common in Western Australian children of immigrant backgrounds? A population based data linkage study. BMC Pregnancy Childbirth 2019; 19: 287.
https://doi.org/10.1186/s12884-019-2437-x
PMid:31399075 PMCid:PMC6688266
 
2. Becker S, Stolberg C. Ethnic inequality in preterm birth. Schmollers Jahrbuch 2012; 133: 299-322.
https://doi.org/10.3790/schm.133.2.299
 
3. Castelló A, Río I, Martinez E, et al. Differences in Preterm and Low Birth Weight Deliveries Between Spanish and Immigrant Women: Influence of the Prenatal Care Received. Ann Epidemiol 2012; 22: 175-82.
https://doi.org/10.1016/j.annepidem.2011.12.005
PMid:22285869
 
4. Hayes I, Enohumah K, McCaul C. Care of the migrant obstetric population. Int J Obstetr Anesthes 2011; 20: 321-9.
https://doi.org/10.1016/j.ijoa.2011.06.008
PMid:21840201
 
5. Heslehurst N, Brown H, Pemu A, et al. Perinatal health outcomes and care among asylum seekers and refugees: a systematic review of systematic reviews. BMC Med 2018; 16: 89.
https://doi.org/10.1186/s12916-018-1064-0
PMid:29890984 PMCid:PMC5996508
 
6. Li X, Sundquist J, Sundquist K. Immigrants and Preterm Births: A Nationwide Epidemiological Study in Sweden. Mat Child Health J 2013; 17: 1052-8.
https://doi.org/10.1007/s10995-012-1087-7
PMid:22833337
 
7. Pedersen GS, Mortensen LH, Gerster M, et al. Preterm Birth and Birthweight-for-Gestational Age among Immigrant Women in Denmark 1978-2007: A Nationwide Registry Study. Paediatr Perinat Epidemiol 2012; 26: 534-42.
https://doi.org/10.1111/ppe.12010
PMid:23061689
 
8. Vik ES, Nilsen RM, Aasheim V, et al. Country of first birth and neonatal outcomes in migrant and Norwegian-born parous women in Norway: a population-based study. BMC Health Serv Res 2020; 20: 540.
https://doi.org/10.1186/s12913-020-05415-y
PMid:32539855 PMCid:PMC7296964
 
9. Wanigaratne S, Cole DC, Bassil K, et al. The influence of refugee status and secondary migration on preterm birth. J Epidemiol Comm Health 2016; 70: 622.
https://doi.org/10.1136/jech-2015-206529
PMid:26826212
 
10. Zhou Q, Zhang W, Xu H, et al. Risk factors for preterm premature rupture of membranes in Chinese women from urban cities. Int J Gynecol Obstetr 2014; 127: 254-9.
https://doi.org/10.1016/j.ijgo.2014.06.020
PMid:25200254
 
11. Cacciani L, Asole S, Polo A, et al. Perinatal outcomes among immigrant mothers over two periods in a region of central Italy. BMC Public Health 2011; 11: 294.
https://doi.org/10.1186/1471-2458-11-294
PMid:21569229 PMCid:PMC3119162
 
12. Madendag Y, Sahin E, Demir MB, et al. The Effect of Immigration on Adverse Perinatal Outcomes: Analysis of Experiences at a Turkish Tertiary Hospital. BioMed Res Int 2019; 2326797.
https://doi.org/10.1155/2019/2326797
PMid:31781600 PMCid:PMC6875208
 
13. Vogel JP, Chawanpaiboon S, Moller AB, et al. The global epidemiology of preterm birth. Best Pract Res Clin Obstetr Gynaecol 2018; 52: 3-12.
https://doi.org/10.1016/j.bpobgyn.2018.04.003
PMid:29779863
 
14. Grétarsdóttir ÁS, Aspelund T, Steingrímsdóttir Þ, et al. Preterm births in Iceland 1997-2016: Preterm birth rates by gestational age groups and type of preterm birth. Birth 2020; 47: 105-14.
https://doi.org/10.1111/birt.12467
PMid:31746027
 
15. Sørbye IK, Wanigaratne S, Urquia ML. Variations in gestational length and preterm delivery by race, ethnicity and migration. Best Pract Res Clin Obstetr Gynaecol 2016; 32: 60-8.
https://doi.org/10.1016/j.bpobgyn.2015.08.017
PMid:26458997
 
16. Hug L, Sharrow D, You D. Levels and trends in child mortality: report 2017: The World Bank. unicef.org -2017.
 
17. Balaam MC, Akerjordet K, Lyberg A, et al. A qualitative review of migrant women's perceptions of their needs and experiences related to pregnancy and childbirth. J Advan Nursing 2013; 69: 1919-30.
https://doi.org/10.1111/jan.12139
PMid:23560897
 
18. Beeckman K, Louckx F, Downe S, et al. The relationship between antenatal care and preterm birth: the importance of content of care. Eur J Public Health 2012; 23: 366-71.
https://doi.org/10.1093/eurpub/cks123
PMid:22975393
 
19. Joseph KS, Fahey J, Shankardass K. Effects of socioeconomic position and clinical risk factors on spontaneous and iatrogenic preterm birth. BMC Pregn Childbirth 2014; 14: 117.
https://doi.org/10.1186/1471-2393-14-117
PMid:24670050 PMCid:PMC3987165
 
20. Ray JG, Wanigaratne S, Park AL, et al. Preterm preeclampsia in relation to country of birth. J Perinatol 2016; 36: 718-22.
https://doi.org/10.1038/jp.2016.73
PMid:27149056 PMCid:PMC5007604
 
21. Urquia ML, Glazier RH, Gagnon AJ, et al. Disparities in pre-eclampsia and eclampsia among immigrant women giving birth in six industrialised countries. BJOG 2014; 121: 1492-500.
https://doi.org/10.1111/1471-0528.12758
PMid:24758368 PMCid:PMC4232918
 
22. Harakow HI, Hvidman L, Wejse C, et al. Pregnancy complications among refugee women: a systematic review. Acta Obst Gynecol Scand 2021; 100: 649-57.
https://doi.org/10.1111/aogs.14070
PMid:33372265
 
23. Naimy Z, Grytten J, Monkerud L, et al. The prevalence of pre-eclampsia in migrant relative to native Norwegian women: a population-based study. BJOG 2015; 122: 859-65.
https://doi.org/10.1111/1471-0528.12978
PMid:25040439
 
24. Ankert J, Groten T, Pletz MW, et al. Fetal growth restriction in a cohort of migrants in Germany. BMC Pregn Childbirth 2021; 2: 145.
https://doi.org/10.1186/s12884-021-03620-z
PMid:33596847 PMCid:PMC7890902
 
25. Gagnon AJ, McDermott S, Rigol-Chachamovich J, et al. International migration and gestational diabetes mellitus: a systematic review of the literature and meta-analysis. Paediatr Perinat Epidemiol 2011; 25: 575-92.
https://doi.org/10.1111/j.1365-3016.2011.01230.x
PMid:21980947
 
26. Conceição P. Beyond Income, beyond Averages, beyond Today: Inequalities in Human Development in the 21st Century. Human Development Report. 2019. UNDP; New York 2019.
 
27. World Health Organization. Born too soon: the global action report on preterm birth 2012.
 
28. Quinn JA, Munoz F.M, Gonik B, et al. Preterm birth: Case definition & guidelines for data collection, analysis, and presentation of immunisation safety data. Vaccine 2016; 34: 6047-56.
https://doi.org/10.1016/j.vaccine.2016.03.045
PMid:27743648 PMCid:PMC5139808
 
29. Morisaki N, Ganchimeg T, Vogel J, et al. Impact of stillbirths on international comparisons of preterm birth rates: a secondary analysis of the WHO multi-country survey of Maternal and Newborn Health. BJOG 2017; 124: 1346-54.
https://doi.org/10.1111/1471-0528.14548
PMid:28220656 PMCid:PMC5573985
 
30. Polit DF, Beck CT. Nursing research: Generating and assessing evidence for nursing practice (10. útgáfa). Wolters Kluwer, Fíladelfíu 2017.
 
31. Sørbye IK, Daltveit AK, Sundby J, et al. Preterm subtypes by immigrants' length of residence in Norway: a population-based study. BMC Pregn Childbirth 2014; 14: 239.
https://doi.org/10.1186/1471-2393-14-239
PMid:25048200 PMCid:PMC4223612
 
32. Bartsch E, Park L, Jairam J, et.al . Concomitant preterm birth and severe small-for-gestational age birth weight among infants of immigrant mothers in Ontario originating from the Philippines and East Asia: a population-based study. BMJ open 2017; 7: e015386.
https://doi.org/10.1136/bmjopen-2016-015386
PMid:28720616 PMCid:PMC5734583
 
33. Park AL, Urquia ML, Ray JG. Risk of preterm birth according to maternal and paternal country of birth: a population-based study. J Obstet Gynaecol Canada 2015; 37: 1053-62.
https://doi.org/10.1016/S1701-2163(16)30070-6
PMid:26637077
 
34. Von Katterfeld B, Li J, McNamara B, et al. Obstetric profiles of foreign-born women in Western Australia using data linkage, 1998-2006. Aust NZ J Obstet Gynaecol 2011; 51: 225-32.
https://doi.org/10.1111/j.1479-828X.2010.01282.x
PMid:21631441
 
35. Fólksfjöldaþróun og erlendir ríkisborgarar 1996-2006. https://hagstofan.is - desember 2022.
 
36. Mannfjöldaþróun 2019. http://hagstofan.is - desember 2022.
 
37. Lucovnik M, Bregar A.T, Steblovnik L, et al. Changes in incidence of iatrogenic and spontaneous preterm births over time: a population-based study. J Perinat Med 2016; 44: 505-9.
https://doi.org/10.1515/jpm-2015-0271
PMid:26646020
 
38. Purisch SE, Gyamfi-Bannerman C. Epidemiology of preterm birth. Sem Perinatol 2017; 41: 387-91.
https://doi.org/10.1053/j.semperi.2017.07.009
PMid:28865982
 
39. Félagsvísar: Sérhefti um innflytjendur. http://hagstofan.is - desember 2022.
 
40. Meðgönguvernd heilbrigðra kvenna í eðlilegri meðgöngu: Klínískar leiðbeiningar. landlaeknir.is/servlet/file/store93/item2548/4407.pdf - desember 2022.
 
41. Skaptadóttir UB, Loftsdóttir K. Konur af erlendum uppruna: Hvar kreppir að? : Háskóli Íslands. stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=c6482f7c-570d-11ea-945f-005056bc4d74 - desember 2022.

 

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica