01. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bréfin hennar mömmu - ritdómur

Á nýlegum tónleikum kynnti píanóleikarinn tónlistina og persónulega nálgun sína við hana. Fyrst sagði hún frá því að hún veiktist meðan hún var í námi í Finnlandi af torkennilegum sjúkdómi sem loks reyndist vera berklar. Hún fór heim til Íslands og fékk viðeigandi meðferð. Meðan hún var veik var hún alveg þreklaus og gafst upp í neðstu brekkum Esjunnar. Nokkrum mánuðum síðar stóð hún á tindi fjallsins.

Breyttir tímar

Á fyrri hluta síðustu aldar þekktu allir berkla og grunurinn og óttinn við þá sjúkdómsgreiningu lá mjög nærri. Engin lyf voru til og meðferðin fólst í að fella saman sýkta lungnahlutann með því að framkalla loftbrjóst eða dæla inn olíu og ef það dugði ekki var gripið til höggningar og brjóstkassinn minnkaður. Sjúklingar voru einangraðir oft árum saman á berklahælum. Margir dóu á besta aldri og margir þeirra sem lifðu náðu aldrei fullri heilsu. Straumhvörf urðu með tilkomu streptomycins um miðja 20. öld.

Höfundurinn: Ólafur Ragnar Grímsson

Bók Ólafs Ragnars Grímssonar, Bréfin hennar mömmu, færir lesandann í þennan heim þegar berklarnir voru sjálfsagður hluti daglegs veruleika og þurfti engan formála til að útskýra. Höfundur og bókaútgefandi gefa sér að forsetatíð Ólafs Ragnars sé líka eitthvað sem allir vita og þarfnast ekki útskýringa. Skyldi lesandi framtíðarinnar átta sig á því af hverju Bessastaðir eru nefndir í fyrstu línunni?

Bréfin skiptast á tvö tímabil, það fyrra hefst veturinn 1939 þegar Svanhildur er ung og nýgift sér talsvert eldri manni. Þau voru strax aðskilin þegar hún liggur veik heima á Þingeyri en hann býr og starfar á Ísafirði. Svo þarf hún að fara á Vífilsstaði og er þar til hausts 1940. Síðara tímabilið hefst vorið 1944 og lýkur ekki fyrr en 1952, en oft líða margir mánuðir milli bréfa. Þá var hún ung móðir og var heima inn á milli þess að dvelja mánuðum saman á Akureyri, Kristnesi en mest á Vífilsstöðum. Allan þann tíma var sonurinn í fóstri hjá foreldrum hennar.

Bréfin frá fyrsta tímabilinu birta mjög heillega mynd af ungri, ástfanginni konu í baráttu við erfiðan sjúkdóm. Bréfin eru nokkuð endurtekningarsöm eins og bréfritarinn bendir sjálf á. Í seinni bréfunum er annar tónn. Söknuður móður eftir syninum er sár, en hér talar lika húsmóðir sem vill hafa stjórn á hlutunum, þótt hún þekki vanmátt sinn. Oft er vísað í undangengin símtöl, og þá vantar samhengið. Hún skrifar um fólk og fjölskyldumál, sem oft er lítt skiljanlegt og sumt ekki sérlega áhugavert. Í þessum hluta vakna spurningar um soninn, hvað var barninu sagt, hverju man hann eftir? Hér hefði Ólafur mátt gera brýr milli bréfa.

Hver er höfundur?

Þetta er óvenjuleg bók þar sem höfundurinn er í raun ekki sá sem er skrifaður fyrir henni heldur löngu látin kona sem grunaði ekki að sendibréf hennar til eiginmanns síns yrðu nokkurn tíma birt opinberlega í bók. Hvaða erindi eiga mjög persónulegar hugsanir, innstu tilfinningar og þrár í slíka birtingu? Þær gefa innsýn í hugarheim og eru heimild um berklaveikina frá sjónarhóli sjúklingsins.

Sagan sem ég sagði í upphafi sýnir að heilbrigðisstarfsfólk má aldrei gleyma berklunum. Hún sýnir líka að sjúkdómurinn eins og hann birtist nú á Vesturlöndum er ekki lengur sú ógn fyrir sjúklinga og samfélag sem hann var. En alltaf má draga lærdóm af því hvernig mannlegt eðli bregst við ógnum og erfiðleikum og hvað getur orðið úr þeim sem þoldu erfiðan aðskilnað frá móður sinni í bernsku.

Niðurstaða: Bókin á erindi við lesendur, hefði mátt stytta og grisja bréfin en bæta inn texta til að tengja á milli á seinna tímabilinu.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica