01. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Heiðruð og verðlaunuð á velheppnuðu Lyflæknaþingi
Frá Lyflæknaþingi dagana 18.-19. nóvember 2022 í Hörpu. Metaðsókn var á þingið í ár. Þrír voru heiðraðir að vanda, tvö fengu sérstaka viðurkenningu og þrjú voru verðlaunuð fyrir bestu ágripin. Skoðað verður að halda þingið árlega
Helgi Jónsson, Björn Magnússson, Jón Þór Sverrisson, Hjörtur Oddsson og Vilhelmína Haraldsdóttir voru öll heiðruð á þinginu. Mynd/Signý
„Við skoðum nú að halda Lyflæknaþing árlega en þetta þing gefur erlendum ráðstefnu ekkert eftir og er í sama gæðaflokki. Stjórnin mun koma fljótlega saman, gera upp þingið og ræða framhaldið,“ segir Signý Vala Sveinsdóttir, formaður Félags íslenskra lyflækna. „Metmæting var í ár og gestir um 250 þótt aðeins ár sé frá síðasta þingi en það er þingið sem átti að vera árinu þar áður,“ segir hún en COVID setti þar strik í reikninginn. „Stemmningin nú var óvenju góð.“
Þorgerður Einarsdóttir, Gísli Gíslason og Ástrún Helga Jónsdóttir hlutu verðlaun sérnámsgrunnlækna og læknanema og standa hér með Þórði Harðarsyni. Mynd/Signý
Björn Magnússon, lungna- og lyflæknir, Helgi Jónsson gigtar- og lyflæknir og Jón Þór Sverrisson, hjarta- og lyflæknir, voru heiðraðir fyrir öflugt ævistarf á þinginu í ár. Samkvæmt upplýsingum félagsins starfaði Björn Magnússon lengi á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupsstað þar sem hann hélt uppi öflugum lyflækningum á landsbyggðinni við krefjandi aðstæður. Síðan hafi hann starfað og starfi enn við lyflækningar á Selfossi. Helgi Jónsson hafi alla tíð verið afar virkur innan almennra lyflækninga, sinnt kennslu af alúð og verið góð fyrirmynd. Hann hafi auk þess sinnt miklu vísindastarfi alla starfsævi sína og útnefndur heiðursvísindamaður Landspítala 2022. Þá hafi Jón Þór Sverrisson starfað alla starfsævi sína á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, sem nú nefnist Sjúkrahús Akureyrar, byggt þar upp hjartamóttöku og átti þátt í uppbyggingu öflugrar lyflækningadeildar.
Hjörtur Oddsson, hjarta- og lyflæknir á Landspítala, og Vilhelmína Haraldsdóttir, blóð- og lyflæknir, fengu einnig sérstaka viðurkenningu fyrir mikilvægt framlag til klínískra starfa innan lyflækninga. Hann fyrir að vera harðduglegur, frábær liðsmaður og lykilmaður á hjartadeildinni. Hún fyrir að eiga stóran þátt í því að byggja upp blóðlækningar hér á Íslandi, vera harðdugleg og ósérhlífin auk þess að vera kvenkyns læknum og læknanemum mikil fyrirmynd í starfi.
Signý segir bandarísku hlaðvarparana Reza Manesh og Rabih Geha sem haldið hafi erindi um klíníska rökleiðslu og skoðun hafa dregið marga að. „Já, læknanemar og unglæknar hlusta mikið á þá auk þess sem þingið var mjög klínískt í ár sem dró fólk að.“
Hún segir vísindaágripin í ár hafa sýnt lyflæknum enn og aftur hversu flottar rannsóknir séu í gangi. „Þau minna okkur á að passa upp á að gert sé ráð fyrir vísindavinnu í starfi okkar lækna.“
Hildur Margrét Ægisdóttir fékk fyrstu verðlaun úr Vísindasjóði Þórðar Harðarsonar og Árna Kristinssonar, fyrir ágripið: Víðtæk erfðamengisleit á yfirliði gefur til kynna mikilvægi taugakerfis. Gísli Þór Axelsson hlaut 2. verðlaun fyrir Lungnastarfsemi og myndfundir meðal eftirlifenda COVID-19 lungnabólgu og Rebekka Lynch var í 3. sæti með Tengsl ofbeldissögu kvenna við hjarta- og æðasjúkdóma: lýðgrunduð rannsókn. Aukaverðlaun voru einnig veitt fyrir 3. sætið. Þau fékk Helga Rut Steinsdóttir lyfjafræðingur fyrir ágripið Ný og áframhaldandi notkun prótónupumpuhemla í kjölfar innlagnar á lyflæknadeildir Landspítala.
Ástrún Helga Jónsdóttir læknanemi hlaut 1. verðlaun sérnámsgrunnlækna/læknanema fyrir Blóðkalsíumhækkun í fólki með forstig mergæxlis; niðurstöður úr Blóðskimun til bjargar. Önnur verðlaun hlaut Gísli Gíslason, sem nú er sérnámslæknir á Barnadeildinni, fyrir ágripið Bráður nýrnaskaði hjá einstaklingum á meðferð með litíum á Íslandi og 3. verðlaun fékk Þorgerður Einarsdóttir læknanemi fyrir Lifun einstaklinga með lifrarbólgu C sem nota vímuefni í æð.