01. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Aldraðir fái aftur sess í samfélaginu, - Ólafur Þór Gunnarsson leiðir verkefnastjórn um endurskoðun þjónustu við aldraða

„Ef okkur tekst að stytta meðaltímann sem aldraðir dvelja á hjúkrunarheimili um tvo mánuði sparast um 3-4 milljarðar á ári,“ segir Ólafur Þór Gunnarsson öldrunarlæknir. Verkefnastjórnin hefur sett fram aðgerðaáætlun til fjögurra ára um heildarendurskoðun á þjónustu við aldraða

„Hjúkrunarheimili eru dýrasti kostnaðarliðurinn í þjónustu við aldraða. Ef við breytum ekki um stefnu frá því sem nú er, þrefaldast kostnaðurinn innan 20 ára vegna fjölgunar aldraðra. Við verðum komin yfir 100 milljarða á ári og með 8000 einstaklinga á hjúkrunarheimilum. Það er ekki aðlaðandi framtíðarsýn og mikil sóun á mannauði,“ segir Ólafur Þór Gunnarsson öldrunarlæknir og formaður verkefnisstjórnar félags- og vinnumarkaðsráðherra og heilbrigðisráðherra.

Ólafur Þór Gunnarsson öldrunarlæknir kynnti hugmyndir verkefnastjórnar félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytisins á fundinum Gott að eldast. Mynd/gag

Verkefnastjórnin hefur sett fram aðgerðaáætlun í 5 liðum til fjögurra ára með nokkrum undirverkefnum. Hún verður nú kynnt fyrir þingflokkum og fer í kjölfarið í samráðsgátt stjórnvalda. Ólafur Þór bendir á að meðaldvalartími aldraðra á hjúkrunarheimilum sé nú um tvö ár og heildarkostnaðurinn yfir 30 milljarðar króna á ári. Hann segir meginþema vinnunnar vera samþættingu þjónustunnar. Hún sé lykilatriði.

„Það sýnir sig að þar sem fólk vinnur saman er mesta ánægja með þjónustuna, hún er skilvirkust og veitt á hagkvæmasta háttinn,“ segir Ólafur og bendir á Reykjavíkurborg sem fyrirmynd. Alhliða heilsueflingu þurfi fyrir aldraða.

„Við vinnum í anda Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, að gera eldra fólk aftur að hluta af samfélaginu. Hverfa frá þeirri skekkju sem hefur viðgengist í nokkra áratugi, að eldra fólk sé hliðarsett eða jaðarsett í samfélaginu því ekki sé frekari þörf fyrir það. Við erum að átta okkur á að það vilja fæstir. Við viljum að allir fái tækifæri til að njóta sín og taka þátt og að öllum sé gert það kleift.“

Hann segir endanlegt markmið vera að enginn fari á hjúkrunarheimili fyrr en hann raunverulega þurfi. „Með því að gera fólki kleift að vera lengur heilbrigð úti í samfélaginu auðgum við lífið svo mikið fyrir okkur öll.“

Verkefnastjórnin var skipuð í júní og býr Ólafur Þór að því að hafa hugsað þessi mál í áratugi. Spurður hver breytingin sem þau kynna nú verði á starfsumhverfi lækna, segir hann mestu áhrifin á samvinnu. „Læknar munu þurfa að sinna málum meira í teymum en áður. Fyrir öldrunarlækni er það ekki nýjung en fyrir suma aðra verður það stærsta breytingin.“

Fólk fái fé til að breyta heimilum sínum

„Við köllum eftir stuðningi vegna breytinga á heimilum. Nú er það þannig að ef húsnæðið sem fólk býr í hentar ekki, þarf það að flytja á hjúkrunarheimili. En við sem þjónustum sjáum að með litlum tilkostnaði mætti breyta heimilunum svo þau henti,“ segir Ólafur Þór Gunnarsson öldrunarlæknir og horfir til þess að þótt ríkið greiði fjárhæðir til breytinganna sé það mikill sparnaður fyrir það.

„Þetta eru upphæðir sem kunna að vaxa þeim sem eiga heimilið í augum en geta sparað ríkinu mikla fjármuni. Við skulum ekki gleyma að það kostar 30 milljónir að búa til hjúkrunarrými.“ Ef fólk fengi aðstoðina gæti það gjörbreytt stöðunni fyrir eldri einstaklinga og þeir búið lengur heima.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica