01. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Lækningar eða skriffinnska. Oddur Steinarsson

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.

Ég flutti heim til Íslands frá Svíþjóð árið 2014. Fljótlega rak ég mig á það hve mikil skriffinnska er enn við lýði hér á landi varðandi vottorð og greinargerðir. Þar úti vorum við ekki að skoða og skrifa greinargerðir fyrir aðila eins og lögfræðinga, tryggingafélög eða lífeyrissjóði. Ef veita þurfti upplýsingar fengu trúnaðarlæknar viðkomandi afrit af sjúkraskrá. Þá þurftum við ekki að endurnýja örorkuvottorð ef viðkomandi var kominn á örorku. Vinnuveitandavottorð voru gerð ef um var að ræða veikindi umfram viku, styttri veikindavottorð áttu ekki að afgreiðast af almannatryggingakerfinu þar.

Hér á landi eru þessi mál alls ekki í góðum farvegi. Við erum endurtekið að gera skammtímavottorð fyrir vinnuveitendur vegna minniháttar veikinda. Sjaldnast er óskað eftir aðkomu okkar vegna veikindanna, heldur mætti segja að við séum varðhundar mætingar fyrir vinnuveitendur. Meðal annars eru margir að leita á Læknavaktina aðeins til þess að sækja sér slík vottorð. Einnig eru nokkrir skólar enn að senda sína nemendur í sömu erindagjörðum til okkar.

Við erum einnig að gera lyfjaskírteini, undanþágulyfseðla, sjúkraþjálfunarbeiðnir, hjálpartækjavottorð, ferðavottorð, sjúkradagpeningavottorð, umsóknir um framlengingu fæðingarorlofs, tilvísanir fyrir börn svo foreldrar greiði minna fyrir komu til sérfræðinga og svo mætti lengi telja varðandi skriffinnskuna.

Þá eru lögfræðingar og tryggingafélög að senda okkur beiðnir um að gera greinargerðir um heilsufar, skoðanir og biðja um spár okkar um afleiðingar slysa. Lögfróðir segja mér að okkur beri að votta um okkar samskipti, þannig að þessar beiðnir eru þannig langt umfram það sem okkur ber að gera. Ég hef verið að vinna eftir þessu undanfarið og er farinn að fá ítrekunarbeiðnir til baka frá ónefndri lögfræðistofu í skaðabótamálum með feitletri, undirstrikunum og yfirstrikað með gulum áherslupenna.

Ónefnt tryggingafélag hér í bæ, sem og nokkrir lífeyrissjóðir, hefur einnig verið að senda til okkar skjólstæðinga bókaða í 20 mínútna viðtalstíma með heimasmíðuð fjögurra síðna vottorð, þar sem okkur er ætlað að svara fjölda spurninga um heilsufar, þar sem við þurfum að fara vel yfir alla heilsufarssögu viðkomandi. Þá eigum við einnig að gera ítarlega líkamsskoðun. Þessi tími dugar engan veginn til þessa og ég spyr einnig hver heimilaði þetta? Þessi vottorð eru vegna kaupa á sjúkdóma- og líftrygginga eða skiptingu lífeyrisréttinda. Þá má einnig velta því upp hver okkar ábyrgð sé ef einhver villa slæðist inn í vottorðið?

Áðurnefnt er því miður að taka töluverðan tíma af okkar vinnu á sama tíma og við glímum við undirmönnun og langan biðtíma. Að utanaðkomandi aðilar séu að nota almannatryggingakerfið á þennan hátt er eitthvað sem frændur okkar Svíar láta ekki viðgangast. Það er hægt að einfalda margt sem er hér nefnt að framan og nota þar tölvutæknina. Árið er 2023 og lítið mál að setja upp kerfi til þess að afgreiða ýmislegt rafrænt. Sjúkratryggingar og Tryggingastofnun gætu endurskoðað ansi margt, létt þannig á okkur læknum svo meiri tími sé til að sinna okkar skjólstæðingum. Þá þarf að setja utanaðkomandi aðilum verulegar skorður um hvaða erindi þeir geti sent til okkar.

Ef tekið verður á áðurnefndum þáttum verður vinnan bæði skemmtilegri og skilvirkari. Við getum betur sinnt þeim sem þurfa á okkar þjónustu að halda. Ég hef setið í nefnd varðandi vottorðamál í haust og vonandi skilar sú vinna því að tekið verði á þessum málum. Það veitir ekki af.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica