01. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Ekki brugðist við miklu álagi á heimilislækna segir Margrét Ólafía Tómasdóttir

Fjórðungur heimilislækna hefur íhugað alvarlega að fara í veikindaleyfi. Félag íslenskra heimilislækna staðfærði og endurtók könnun Félags almennra lækna sem í ársbyrjun sýndi bága líðan þeirra. Niðurstaðan sem kynnt var á stofnunum í vor var ekki síður sláandi. Enn hefur ekki verið ráðist í aðgerðir

„31% lækna á heilsugæslunni hafði íhugað vikulega að minnka við sig starfshlutfall undanfarna 12 mánuði. 16% höfðu upplifað kulnunareinkenni mjög oft, og önnur 20% oft og því samtals 36%. Þá höfðu 25% íhugað mjög alvarlega að fara í veikindaleyfi vegna kulnunareinkenna,“ segir Margrét- Ólafía Tómasdóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna, um líðan heimilislækna sem birtist í könnun sem gerð var í janúar og febrúar síðasta árs. Alls bárust 210 svör, eða frá 75% starfandi heimilislækna.

Margrét Ólafía á heilsugæslunni í Efstaleiti segir breytinga þörf til að minnka álagið á heimilislækna. Mynd/gag

„Þessar sláandi niðurstöður hafa því miður ekki keyrt af stað þær breytingar sem við hefðum viljað sjá í kjölfarið,“ segir hún. Málþing verður á Læknadögum nú í janúar um stöðuna. „Markmiðið er að fá vinnustaðina með inn í samtalið um næstu skref. Hvað sé hægt að gera og hverju megi breyta,“ segir hún. Minnka verði álagið og breyta áherslum í starfi heilsugæslunnar.

Margrét segir ljóst að læknum á landsbyggðinni líði verst. Heimilislæknum sem starfi á einkareknum heilsugæslustöðvum líði best en eitt helsta ráð gegn kulnun sé að hafa stjórn á tíma sínum. „Stutt er síðan margar þeirra einkareknu opnuðu og því enn mikill metnaður að keyra starfið í gang og stuttir ferlar til að breyta og bæta vinnubrögðin.“

Margrét segir heimilislækna nú óttast að þótt vinnutíminn sé afmarkaður sé álagið alltaf að aukast, sem svo aftur auki álag eftir hefðbundinn vinnutíma. Heildarendurskoðun sé nauðsynleg enda vanda spítalans gjarnan ýtt á heilsugæslurnar. „Þar verða ör-bráðamóttökur með tilheyrandi tilvikum en sjúklingar með langvinnan vanda sem við ættum að vera að sinna bíða. Þetta eru pyttir sem við erum gjörn á að falla í þegar álagið er mikið,“ segir hún.

„Læknar á heilsugæslum geta ekki verið opnir fyrir öllu og gert allt. Það þarf að einskorða þjónustuna við það sem mestu máli skiptir svo kraftar okkar lækna nýtist sem best,“ segir hún og bendir á Holland og Finnland þar sem læknar ræða verkfall vegna vinnuálags en ekki launa.

„Kannski er kominn tími fyrir okkur lækna að spyrna við fæti og segja stopp. Hingað og ekki lengra.“

Tískubylgjur á læknastofum landsins

Breytingaskeiðið, offitulyf og svefnlyf. Á málþinginu: Er Ísland heilsuspillandi? á Læknadögum ræðir Margrét Ólafía Tómasdóttir um áhrif tísku á stofum heimilislækna.

„Við Íslendingar erum hópsálir og nú koma allir, óháð aldri og kyni, til læknis með tíðahvarfaeinkenni,“ segir hún glettin. Konur um áttrætt komi til lækna og vilji testósterón enda einkennin almenn. „Flestöll getum við samsamað okkur þessu og spyrjum því: Er komin meðferð sem lagar öll mín vandamál? Þetta gengur í bylgjum,“ segir Margrét Ólafía. Fjölmiðlaumræðu eins dags gæti í margar vikur á læknastofunum.

„Landsmenn eru fljótir að pikka upp stefnur og bylgjur og hvað er í tísku. Allir þurfa að fá það nýjasta. Það á ekki bara við um heilsu heldur líka lífsstíl,“ segir Margrét Ólafía. „Mikilvægt er því fyrir okkur lækna að leiðrétta öfgar á mildilegan hátt.“

Málþingið er mánudaginn 16. janúar, fyrsta dag Læknadaga.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica