01. tbl. 109. árg. 2023

Ritstjórnargrein

Vísindavinna og sérfræðimenntun lækna – væntingar og vonir um betri tíð. Helga Ágústa Sigurjónsdóttir

Helga Ágústa Sigurjónsdóttir| sérfræðingur í lyflækningum og innkirtla- og efnaskiptalækningum |sérfræðilæknir Læknasetri |Ritstjóri Læknablaðsins

doi 10.17992/lbl.2023.01.722

Fjármögnun vísinda þarf að ná athygli ríkisstjórnarinnar. Vísindavinnu í heilbrigðiskerfinu þarf að fjármagna samhliða menntun heilbrigðisstarfsmanna. Heilbrigðismenntun byggir á vísindalegum rannsóknum og stoðum. Ítrekað hefur verið lýst áhyggjum af hnignun vísindavinnu á Íslandi, eins og Læknablaðið hefur fjallað um. Vísindavinnu þarf að vera hægt að vinna á dagvinnutíma eins og aðra vinnu. Til þess þarf fjármagn og mannafla. Það fé sem hefur verið lagt til rannsókna mætir langt í frá þeirri þörf sem fyrir er. Vísindavinna samhliða sérnámi eykur gæði sérnáms, undirstöðu og víðsýni og styrkir stoðir heilbrigðiskerfisins. Vísindafé til heilbrigðisrannsókna ætti því að vera samstarfsverkefni milli ráðuneyta sem halda um fjármagn, menntun, nýsköpun og heilbrigðismál hið minnsta. Þjóðin hefur lýst vilja sínum um að heilbrigðismál séu sett í forgang – heilbrigðismál tengjast vísindavinnu órjúfanlegum böndum. Átak þarf að verða í fjármögnun ríkisstjórnarinnar á vísindavinnu innan heilbrigðiskerfisins.

Læknar væntu mikils af nýjum heilbrigðisráðherra en áþreifanlegar breytingar í heilbrigðiskerfinu á liðnu ári eru litlar. Í viðtali Læknablaðsins við nýskipaðan heilbrigðisráðherra í fyrsta tölublaði síðasta árs, lýsti ráðherrann, Willum Þór Þórsson, mikilvægi þess að samið yrði við sérfræðilækna sem og alla aðra sem sinna heilbrigðisþjónustu þessa lands. Enn er ósamið og árið að lokum komið. Enn eru læknar fullir vona og væntinga til jákvæðra breytinga bæði innan og utan Landspítala.

Mannekla, starfsumhverfi og vinnuálag lækna hefur verið tíðrætt og niðurstöður kannana um þessi efni verið daprar eins og fram hefur komið í Læknablaðinu á síðastliðnu ári. Spálíkan Læknafélags Íslands fram til 2040 varðandi mannafla, var birt í 5. tölublaði blaðsins, þar sem fram kom að endurnýjun lækna í ákveðnum sérgreinum er ekki nægjanleg. Af hverju er það svo? Líða þessar sérgreinar fyrir verra starfsumhverfi, vinnuálag eða annað sem hægt væri að bæta? Fá yngri læknar tækifæri til að kynnast minni sérgreinum, sérgreinum sem þörf er á fyrir íslenskan almenning svo ekki þurfi að senda sjúklinga á milli landa til greininga eða meðferðar? Það hefur verið íslenskri heilbrigðisþjónustu dýrmætt að hafa vel menntaða sérfræðilækna með framhaldsmenntun frá hinum ýmsu löndum austan og vestan hafs. Sérfræðimenntaðir læknar hafa á þann hátt byggt upp tengslanet sem verður ekki metið til fjár og iðulega nýtist til samráðs og samvinnu varðandi flóknar greiningar og meðferð sjúklinga og vísindavinnu, sem í ljósi smæðar þjóðarinnar er afar mikilvægt. Styðja þarf við áframhaldandi sérfræðimenntun lækna í smærri og stærri sérgreinum. Samtímis er ánægjulegt að nú fjölgar þeim sérgreinum sem hægt er að nema til sérfræðináms á Íslandi og á síðastliðnu ári var útskrift fyrstu læknanna úr íslensku sérnámi í öldrunarlækningum, Eyrúnar Baldursdóttur og Þórunnar Helgu Felixdóttur, og bráðalækningum, Rosemary Lea Jones. Ánægjuleg framþróun sem nýtist heilbrigðiskerfinu vel.

Ákveðnar breytingar verða nú settar fram í Læknablaðinu sem lesendur verða varir við í 1. tölublaði ársins. Nýir pistlar hefja göngu sína. Sérgreinin sem ég valdi: þar munu eldri og yngri sérfræðingar fara yfir af hverju þeir völdu sína sérgrein. Uppáhaldsbókin mín: Læknir fjallar um bók, fræðilega, vísindalega, skáldsögu eða annað, sem hefur haft djúp áhrif á viðkomandi. Læknirinn skorar síðan á annan kollega að gera hið sama í næsta blaði. Auk þessa hafa verið gerðar breytingar varðandi tíma fyrir ritrýna, uppsetningu fræðigreina og lengd og er þeim vel lýst á heimasíðu blaðsins.

Magnús Haraldsson geðlæknir víkur nú sæti eftir 6 ára setu í ritstjórn blaðsins og eru honum þökkuð vel unnin störf. Læknablaðið býður Odd Ingimarsson geðlækni á Landspítala velkominn í ritstjórn. Oddur, lauk embættisprófi frá læknadeild Háskóla Íslands 2005 og sérfræðilækningum í geðlækningum frá Landspítala 2015. Hann varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands 2018 um aukaverkanir geðrofslyfja. Hann er auk þess viðskiptafræðingur með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja. Oddur hefur verið í samninganefnd Læknafélags Íslands, setið fyrir félagið í Almenna lífeyrissjóðnum til margra ára og í vísindanefnd Geðlæknafélags Íslands frá 2018.

Læknablaðið þakkar höfundum fræðigreina fyrir aðsendar greinar og ritrýnum blaðsins fyrir mikilvæga vinnu.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica