11. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Doktorsvörn frá Háskóla Íslands: Sæmundur Rögnvaldsson

Sæmundur Rögnvaldsson varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands 10. október. Ritgerðin ber heitið: Klínísk þýðing góðkynja einstofna mótefnahækkunar: Aðferðafræðilegar lausnir til að rannsaka einkennalaust forstig

Andmælendur voru Angela Dispenzieri prófessor við Mayo Clinic í Bandaríkjunum og Lárus Steinþór Guðmundsson dósent við lyfjafræðideild HÍ. - Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Sigurður Yngvi Kristinsson prófessor við læknadeild. Auk hans sátu í doktorsnefnd Elías Ólafsson prófessor, Gyða Björnsdóttir rannsakandi, Ola Landgren prófessor og Thor Aspelund prófessor.

Úr ágripinu

Góðkynja einstofna mótefnahækkun er einkennalaust forstig mergæxlis og skyldra krabbameina sem einnig hefur verið tengt við fjölda sjúkdóma. Markmið verkefnisins var að leita nýrra leiða til að leysa aðferðafræðileg vandamál og öðlast betri skilning á klínísku mikilvægi æxlisins.

Doktorinn

Sæmundur lauk stúdentsprófi frá MH og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2018. Samhliða doktorsnámi og sérnámi í almennum lyflækningum stýrir Sæmundur verkefninu „Graduate Program in Medical Science“ við læknadeild og er í rannsóknarhópi Nordic Myeloma Study Group um faraldsfræðilegar rannsóknir á mergæxli.

Sæmundur Rögnvaldsson tók doktorspróf frá Háskóla Íslands 10. október síðastliðinn. Mynd / Gunnar Sverrisson

 

Hvað segir nýdoktorinn?

Af hverju vildir þú verða læknir?

Fræðilegur áhugi dró mig mest í læknisfræði en líka hvernig maður fær stöðugt tækifæri til að nýta fræðin í daglegu starfi við að hjálpa fólki. Svo fannst mér æðislegt hvernig starfinu fylgdi búningur. Ermastytting læknasloppa á Landspítala var því sérlega sár fyrir mig.

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Þetta er langt ferli og erfiðleikastigið sveiflast til og frá. Mér fannst (og finnst) þetta bara svo skemmtilegt að mér finnst erfitt að stiga þetta. Ætli 5 sé ekki nærri lagi.

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Við erum með allt of strjált og óljóst kerfi sem greiðir fyrir þjónustu fyrir aldraðra, stundum sveitarfélög, stundum ríki, stundum félagasamtök sem eru svo styrkt af ríki eða sveitarfélögum o.s.frv. Þetta gerir okkur erfitt fyrir að draga einhvern til ábyrgðar fyrir skort á þjónustu sem sjúklingar þurfa og myndu leiða til sparnaðar fyrir kerfið í heild. Mitt fyrsta verk yrði því að endurskipuleggja greiðslukerfi fyrir heimaþjónustu og endurhæfingar- og hjúkrunarrými þannig að það væri sami „vasinn“ sem greiddi fyrir þetta allt saman á lands-, landshluta- eða sveitarfélagsstigi. Þannig er hægt að rukka einhvern þegar fólk er í óviðeigandi úrræði, t.d. á spítala í stað hjúkrunarheimilis, og skapa hagræna hvata til að veita betri og hagkvæmari þjónustu. Ég myndi svo líka óska eftir samantekt á því hversu mikið almannafé fyrirtækið Origo hefur fengið til að þróa miðlægt lyfjakort og leita skýringa á því af hverju það er ekki enn komið í gagnið.

Hvaða bók, þættir, músík, líkamsrækt er best?

Ég myndi alltaf segja að Janeway‘s immunobiology sé besta bókin en ég veit ekki hvort það er í anda spurningarinnar. Ég hef haft mjög gaman af bókum Bills Brysons um lífið og tilveruna en æviminningar Richards Feynmans Surely you‘re joking, Mr. Feynman er líklega mín uppáhaldsbók.

Ég er loksins að komast í Stranger Things núna og mér finnst það alveg geggjað en Breaking bad er ennþá uppáhaldsþáttaserian.

Ég hef alltaf hlustað talsvert á djass, frá Miles Davis til Avishai Cohen og EST en gellupoppið hefur verið að koma sterkt inn að undanförnu (Ariana Grande, Zara Larson o.s.frv.).

Badminton stunda ég mest en núna þegar vetur nálgast hlakka ég til að komast á göngu- og svigskíði.

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

Best þykir mér að njóta samveru með fjölskyldu og vinum. Einhver skemmtilegasta samvera sem ég veit er að spila og syngja saman. Skemmtilegast finnst mér að spila og syngja í góðri stemmningu á sviði, í partíi eða á tónleikum, sérstaklega með hljómsveitunum Salsakommúnan og Band-Aids. Svo er ég líka agalegur kórfíkill og var í meira en áratug í Hamrahlíðarkórnum en syng núna í Kór Hallgrímskirkju. Það eru ótrúlegir töfrar sem geta gerst í samspili og samsöng, þessi augnablik þar sem allt gengur upp og tilveran víkur fyrir músíkinni eða stemmningunni. Þessi augnablik eru hreinlega fíknivaldandi, svo er ég bara voðalega athyglissjúkur.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica