11. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Hópleit vegna krabbameins í ristli og endaþarmi á Ísland. Sögulegt samhengi og staðan í dag

Ávinningur af hópleit vegna krabbameins í ristli og endaþarmi (KRE) er löngu ljós. Nýgengi er að aukast og ef ekkert er aðhafst mun sú þróun líklega halda áfram.

Vilji til að draga úr nýgengi og dánartíðni KRE hérlendis hjá einkennalausum einstaklingum 50 ára og eldri (meðaláhætta) með skimun nær aftur til aldamóta. Tafist hefur að koma á skipulegri hópleit. Yfirlýst stefna heilbrigðisyfirvalda er að henni verði hrint í framkvæmd hið fyrsta.

Höfundar sátu í fagráði um ristilskimanir og skimunarráði sem var skipað af landlækni 2018-2020.

Fyrstu tillögur um skimun fyrir KRE birtust á vefsíðu Embættis landlæknis sem klínískar leiðbeiningar 2001.1 Ráðlögð var árleg leit að blóði í hægðum (FOBT, Fecal occult blood test). Alþingi samþykkti í kjölfarið ályktun um „að fela heilbrigðisráðherra í samráði við landlækni að gera tillögur um hvernig staðið skuli að forvarnar og leitarstarfi“. Árið 2004 lagði vinnuhópur til FOBT á tveggja ára fresti hjá 55-70 ára einstaklingum sem skipulega hópleit. Í báðum tillögum var ráðlögð ristilspeglun hjá þeim sem greindust með blóð í hægðum. Síðan þá hefur megináherslan verið á skipulega hópleit. Árið 2007 samþykktu 7 fagfélög undirritaða ályktun um forvarnir sem skilaði því að alþingi samþykkti þingsályktun um „að fela heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í samráði við landlækni að hefja undirbúning að skimun þannig að skipuleg leit hæfist 2008“. Ráðgjafahópurinn skilaði loka-
skýrslu í febrúar 20092 en brýnt þótti að hefja lýðgrundaða skimun. Bent var á að hópleitin væri kostnaðarlega ábatasöm. Mælt var með að bjóða 60-69 ára FOBT* annað hvert ár og þeim sem greindust með blóð í hægðum ristilspeglun. Vegna niðurskurðar eftir bankahrunið 2008 var ekki unnt að hefja hópleitina.

Árið 2014 kom Krabbameinsfélag Íslands ásamt 11 fag- og sjúklingafélögum að áskorun til heilbrigðisráðherra og alþingismanna um að hefja strax skipulega leit að KRE. Með veglegum styrk frá Okkar líf tryggingafélagi var verkefnastjóri ráðinn og undirbúningur í samvinnu við landlækni og heilbrigðisyfirvöld hafinn. Ítarlegri skýrslu var skilað 2015.3 Lagt var til að skima með nýju hægðaprófi, mótefnavakaprófi (FIT, Fecal immunochemical test) í stað FOBT og fylgja leiðbeiningum Evrópusambandsins með skipulegri hópleit hjá 50-75 ára (meðaláhætta) en byrja innleiðingu hjá 60-69 ára. Lögð var áhersla á miðlæga stjórnstöð sem héldi utan um alla þætti skimunarinnar. Árið 2016 var stærsta skrefið tekið í átt að skipulegri hópleit. Velferðarráðuneytið lagði 25 milljónir til undirbúningsins og Krabbameinsfélagið 20 milljónir á móti. Keypt var tæki til að greina blóð í hægðasýnum með FIT, skrifaður gagnagrunnur fyrir innkallanir, speglanir, kröfulýsing gerð og klínískar leiðbeiningar. Undirritað var samkomulag milli Krabbameinsfélagsins og velferðarráðuneytisins um að skimun hæfist 2017. Ekki náðist að hrinda hópleit af stað og fjármunir sem ætlaðir voru til verksins fjarri því að duga.

Læknar, einkum meltingarsérfræðingar og skurðlæknar, viðhéldu athygli á KRE og umræða skapaðist á alþingi um þjóðhagslegan ávinning af markvissum forvörnum og heilbrigðisráðherra var hvattur til að hefja formlega skimun. Helsta álitamál var í hópi læknanna sjálfra um hvort nota ætti eingöngu ristilspeglanir eða skima fyrst með FIT-mótefnavakaprófi.

Árið 2018 skipaði Embætti landlæknis fagráð 5 sérfræðinga með sérþekkingu á KRE og hópleit. Fagráðið skilaði tillögum um skimun4 til skimunarráðs sem var skipað 7 sérfræðingum úr ýmsum sérgreinum og var landlæknir til ráðlegginga um allar krabbameinsskimanir. Mælt var með að hafin yrði skipuleg frumskimun hjá 50-74 ára (meðaláhætta) samkvæmt evrópskum ráðleggingum með FIT-prófi annað hvert ár og ristilspeglun hjá þeim sem greinast með blóð í hægðum. Byrja skyldi hjá 60-69 ára. Að auki skyldi einstaklingum á 51. aldursári boðin ristilspeglun sem frumskimun en þeim gefinn sá valkostur að þiggja FIT-próf einu sinni. Lögð var áhersla á að hefja strax miðlæga speglunarskráningu. Sátt var um vinnu fagráðs og hún samþykkt af skimunarráði og síðan heilbrigðisráðuneytinu 2021.

Í framhaldi af breytingum á skipulagi, stjórn og framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum á Íslandi sem færðist inn í opinbera heilbrigðiskerfið og með opnun Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana 2021 var Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins falið að undirbúa skipulega hópleit vegna KRE í samvinnu við Embætti landlæknis. Sú vinna er í gangi og stuðst er við tillögur fagráðsins.4 Mikil áhersla er þar lögð á víðtækt samráð á öllum sviðum með fulltrúum allra sem að verkefninu koma, þar á meðal þeim sérfræðingum sem áður skipuðu fagráðið. Ráðinn hefur verið verkefnastjóri og fyrirhugað er að hefja skimun á árinu 2023.

Heimildir

1. Skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi. Niðurstaða starfshóps á vegum Landlæknis. Reykjavík, 2001
 
2. Skýrsla um bólusetningar og skimanir vegna smitsjúkdóma og krabbameina. Mat á forvörnum með bólusetningum og skimunum gegn smitsjúkdómum og krabbameinum. Ráðgjafahópur heilbrigðisráðherra. Skýrsla frá október 2008, endurskoðuð í febrúar 2009.
 
3. Guðlaugsdóttir S. Ristilkrabbameinsleit. Undirbúningur fyrir skipulega leit á Íslandi. Krabbameinsfélagið, 2015.
 
4. Skýrsla um skimanir. Tillögur fagráðs um skimanir fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. 2019 stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Alit%20skimunarrads%202020%20(003).pdf - október 2022


Þetta vefsvæði byggir á Eplica