11. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Báru saman stöðu lækna í Svíþjóð og á Íslandi, - fulltrúar sænska læknafélagsins í vinnuferð til LÍ

Einn af hverjum 5 sænskum læknum hugsar um að yfirgefa stéttina. „Ekki aðeins vinnustaðinn heldur starfsgreinina,“ leggur Ove Rang, forstöðumaður vinnu, lífs og lögfræðideildar sænska læknafélagsins, áherslu á. Hann heimsótti Læknafélagið í október ásamt Söru Altino, umboðsmanni hjá sænska læknafélaginu og forsvarsmanni verkefnisins Framtíð kjarasamninga

Ove Rang vitnar til rannsóknar sem sænska félagið gaf nýverið út þegar hann nefnir flóttahugleiðingar fimmtungs lækna úr stéttinni. Svarhlutfallið var 40%. Læknar hafi kosið starfið til að hjálpa öðrum. „Svo upplifa þeir sig á framleiðslufæribandi,“ segir hann og það hljómar kunnuglega.

  Ove Rang og Sara Altino frá sænska læknafélaginu hittu íslenska kollega og ræddu jafnvægi vinnu og einkalífs og áhrifin á kjörin. Mynd/gag

„Þessir læknar telja sig einfaldlega ekki hafa tíma til að gera það sem þeir þurfa í starfi sínu,“ segir hann. „Staðan er skelfileg,“ segir Rang í heimsókn sinni. Þau Altino áttu fundi með leiðtogum íslenskra lækna. Þeirra á meðal voru Þórdís Þorkelsdóttir, formaður Félags almennra lækna, Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, Theódór Skúli Sigurðsson, formaður Félags sjúkrahúslækna og Oddur Steinarsson, varaformaður LÍ. Einnig hittu þau Dögg Pálsdóttur framkvæmdastjóra og Steinunni Þórðardóttur formann Læknafélags Íslands. Altino er nú á leið til annarra Norðurlanda til að safna gögnum.

„Við vissum ekki hvernig íslenska heilbrigðiskerfið virkaði miðað við það sænska,“ sagði Rang, og að þau hafi sérstaklega einblínt á jafnvægi vinnu og einkalífs. „Við vildum vita hverjar áherslurnar væru hér,“ segir hann og hún bætir við: „Já, og hverjar áskoranirnar eru og við fundum því miður að við eigum margt sameiginlegt. Báðir hóparnir upplifa mikla vinnubyrði. Það er leitt að heyra. Læknar fá ekki áunnin frí heldur kýs vinnuveitandinn almennt frekar að greiða upp tímann svo læknarnir vinna og vinna án hvíldar“ segir hún.

„Við heyrðum líka að hér eins og í Svíþjóð séu nú að verða kynslóðaskipti. Ungir læknar meta frítímann sinn meira,“ segir hún. „Þeir líta ekki á það sem köllun sína að vera læknir og að starfsheitið skilgreini þá á sama máta og eldri kynslóðir lækna, heldur að þetta sé starfið þeirra,“ lýsir hún, og þeir vilji ekki að klára sig fyrir köllunina. En bregðast sjúkrastofnanir við þessu kalli ungu kynslóðarinnar?

„Ég tel ekki að það gerist án mótstöðu,“ segir Altino. „En þetta er kynslóð sem krefst frítíma, jafnvægis og að á þau sé hlustað og að vinnuveitandinn bregðist við. Ég býst ekki við að þessar breytingar verði hnökralausar, en tel að þær séu nauðsynlegar.“

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica