11. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Um 320 manns á alþjóðlegri lungnaráðstefnu í Hörpu: ICLAF 2022

„Við þurfum að hugsa um að greina lungnatrefjun fyrr og meta hvort við eigum að skima fyrir þessum sjúkdómi, hvort sem er með myndgreiningu eða blóðrannsóknum,“ segir Gunnar Guðmundsson, læknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Hann leiddi 320 manna ráðstefnu, International Colloquium on Lung and Airway Fibrosis, ICLAF 2022, sem haldin var í Hörpu í byrjun október. Þátttakendur komu frá 25 löndum.

Gísli Þór Axelsson kynnti niðurstöður rannsóknar frá Hjartavernd á ráðstefnunni.

„Það er vaxandi áhugi á að greina bandvefsmyndanir áður en skemmdir verða miklar og vísbendingar um að hægt sé að greina þær fyrr en áður,“ segir hann. Meingerðin hafi nú verið skilgreind á þann máta að finna megi ný lyf við vandanum. Gunnar bendir á að sjúkdómurinn valdi þungri byrði og hafi háa dánartíðni og þeim fjölgi sem glími við hann.

„Ástæðan er sú að allar þjóðir eru að eldast.“ Lungnatrefjun megi líkja við að fá ör á húðina svo bandvefur myndast. „Sjúklingurinn fær ör á lungun og situr uppi með þau. Það gengur ekki til baka og með tímanum heldur lungnastarfsemin áfram að versna.“ Lungnatrefjun geti leitt til öndunarbilunar.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, hélt áhugaverðan fyrirlestur um eldfjöll á Íslandi og áhrif þeirra á heilsufar jarðarbúa.

Gunnar segir þróunina kringum þekkingu á sjúkdómnum hafa verið hraða síðustu 5-10 ár. Þá hafi athyglisverð þekking myndast við COVID-19. „Nýr bandvefur myndaðist eftir COVID en það er svo stutt liðið frá faraldrinum að erfitt er að leggja mat á þekkinguna. Við höfum ekki alltaf vitað hvað kemur bandvefsmyndun af stað en þarna gátum við fylgst með því,“ segir hann. „Við gátum nánast horft á hann myndast. Allt hefur þetta stuðlað að meiri upplýsingum.“

Gunnar segir ráðstefnu sem þessa hér heima hafa mikla þýðingu fyrir lækna hér á landi. „Við sem stundum mikla alþjóðlega samvinnu við rannsóknir náum að efla tengslin frekar auk þess sem við getum fylgst með því nýjasta,“ segir hann.

 

Alls voru 320 gestir á ráðstefnunni sem haldin var í Hörpu og miklar umræður sköpuðust eftir hvern fyrirlestur. Myndir/Gunnar

Twitter fyrir umræðuna

„Það sem er gaman í dag og breytt á ráðstefnum er að Twitter leiðir umræðuna. Margt fólk tekur myndir um leið og fyrirlesturinn er haldinn. Skrifar smá texta og tístir. Ef læknar vilja nýjustu fréttir af rannsóknum lesa þeir gjarnan það sem fólk setur inn tengt ráðstefnum á Twitter,“ segir Gunnar Guðmundsson og bendir á #iclaf2022 fyrir lungnaráðstefnuna í Hörpu.

„Við sáum að #iclaf2022 var ofarlega á listum yfir mest lesnu þræðina á Twitter einn daginn,“ segir hann og að ekki aðeins hafi 320 sótt ráðstefnuna í raunheimum heldur hafi 100 manns alls staðar að fylgst með á streymi.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica