10. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Lyfjaandlát aldrei fleiri vegna ópíóíða, - Valgerður Rúnarsdóttir læknir og ofurhlaupari fer yfir málið

Fíkn í ópíóíða vex stöðugt. Aldrei hafa fleiri látist hér á landi vegna lyfja en í fyrra. „Það gerist þrátt fyrir að gripið hafi verið til fjölda aðgerða,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir læknir og hvetur lækna til að skima fyrir og greina fíkn áður en
þeir ávísi lyfjunum

„Við sjáum ekki lát á þróuninni í ópíóíðafíkn,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Vogs og framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, um þá staðreynd að aldrei hafa fleiri látist af ofskammti lyfja en í fyrra. Samkvæmt tölum Embættis landlæknis létust 46 manns, 9 fleiri en árið á undan. Tíu þeirra við sjálfsvíg.

Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Vogs og framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, hvetur lækna til að greina hvort sjúklingar séu í áhættu á fíkn áður en þeir ávísa ópíóíðum. Mynd/gag

„Margt hefur verið gert til að sporna við útskrift ópíóíða,“ segir Valgerður, sem sat í starfshópi heilbrigðisráðherra gegn lyfjamisnotkun. Hópurinn skilaði 9 aðgerða lista árið 2018. „Búið er að ýta stórum hluta hans í framkvæmd.“ Til að mynda hafi lögum verið breytt svo lyfjafræðingar gætu skipt upp pökkum og afhent minna magn.

„Eftir sem áður er nóg af lyfjum á markaði.“ Hún nefnir einnig að bráðamóttaka Landspítala skrifi helst ekki út ópíóíða og aðgengi að Naloxon, sem notað er þegar þörf er á tafarlausri neyðarmeðferð vegna ofneyslu ópíóða, hafi verið aukið. „Naloxon er úði, jafnnauðsynlegur búnaður og hjartastuðtæki,“ segir hún.

Yfir 200 eru nú í gagnreyndri lyfjameðferð við ópíóíðafíkn á göngudeildinni á Vogi; meðferð sem dregur úr fíkn og fráhvörfum. „Þeir hafa heldur aldrei verið fleiri,“ segir hún. Tíu úr hópi þeirra sem hafa gengist undir meðferðina létust í fyrra en alls hafi um 600 farið í hana. „Lyfjameðferðin fækkar sannarlega andlátum. Hún bjargar mannslífum.“ Fjallað var um málið á málþingi á Læknadögum í mars.

Valgerður gagnrýnir áhugaleysi yfir-valda á meðferð SÁÁ við ópíóíðafíkn. Samningur um hana hafi ekki verið uppfærður frá því að ritað var undir hann árið 2014. „Hann nær til 90 sjúklinga en við þjónustum yfir 200 manns. Við segjum ekki nei við neinn því meðferðin er lífsbjargandi fyrir alvarlegri ópíóðafíkn,“ segir hún. Ekki hafi verið gengið í að uppfæra hann.

„Það er ekki hlustað á okkur. Við köllum út í tómið. Efast er um að við segjum rétt frá,“ segir hún og ítrekar þó að allir vilji sinna málefninu betur. Gjörðir þurfi hins vegar að fylgja orðum.

Í fréttum RÚV um andlátin segir að flogaveikislyfið pregabalín hafi fundist í blóði 15 þeirra sem létust. „Við erum ekki að standa okkur þar og höfum miklar áhyggjur af ávísunum á lyfið, sem hefur fjölgað aftur,“ segir Valgerður. Dregið hafi verið úr ávísun á lyfið þegar hætt hafi verið að niðurgreiða það. „Þetta er mjög varasamt lyf fyrir þennan hóp sem misnotar lyf að einhverju leyti.“

Valgerður segir mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk átti sig á því að fólk á ópíóíðum líti ekki endilega þannig á að það sé haldið fíkn og uppfylli ekki staðalímynd fólks með fíkn. Mikilvægt sé að gera greiningu og ef um fíknsjúkdóm er að ræða er það sérstakt heilbrigðisvandamál sem þurfi skilning og inngrip.

„Ávísun ópíóíða við langvinnum verkjum getur verið vítahringur fyrir marga, líka án þess að um fíkn sé að ræða. Lyfjagjöfin heldur áfram en aldrei fara verkirnir,“ segir hún. Fólkið þurfi önnur úrræði en lyf.

„Fólk með fíknsjúkdóm er að deyja alltof ungt. Við verðum að bregðast við og hafa dyrnar í meðferð opnar, ekki síst fyrir þá sem taka ópíóíða.“

Hún segir að bæði læknar og almenningur þurfi leiðbeiningar og hvetur lækna til að vera meðvitaðir. Þeir þurfi að meta áhættu á fíkn og gera greiningar. „Spyrja þarf fólk beint út um neyslu þess og meta áhættuþætti og ávísa ópíóíðum með sérstöku umhaldi ef áhætta á fíkn er til staðar.“

 

Hljóp 100 kílómetra kringum Mont-Blanc

Lífið er ekki aðeins vinna. Valgerður Rúnarsdóttir hljóp 100 km í Ultra trail Mont-Blanc, einu fjölmennasta utanvegahlaupamóti í heimi, nú í ágúst. Leiðin nefnist Courmayeur Champex Chamonix (CCC) og nam hækkunin í hlaupinu alls 6000 metrum, upp og niður 6 tinda. Já, það gekk vel,“ segir Valgerður sem hljóp með systur sinni, Matthildi.

„Hlaupið tók heilan dag og eina nótt. Ég skipti um skó, stoppaði til að fá mér súpu og fylla á vatnsbrúsana. Svo hélt ég áfram,“ segir Valgerður sem var farin að labba stiga og skokka létt þegar Læknablaðið náði tali af henni rúmri viku eftir hlaupið, sem var 26. ágúst. Alls luku 1727 keppni og kom Valgerður í mark á 22:56:57 með Matthildi á hælum sér. Hún var 4. í sínum aldursflokki og fagnaði 58 árum daginn eftir hlaupið.

Valgerður hafði áður hlaupið 60 kílómetra lengst. „Við æfðum vel og hlupum við systur til dæmis Hengilinn. Ég var tilbúin, ekkert syfjuð en viðurkenni að ég var þreytt í vöðvunum við að fara upp og niður fjöllin í kringum Mont Blanc. Seinasta fjallið var erfitt en ég var upptendruð,“ segir hún og lýsir því hvernig hún var tilbúin í næstu 50 kílómetra þegar fyrstu 50 voru frá.

„Um 2100 hlupu þennan dag og komust 82% í mark,“ segir ofurhlauparinn.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica