10. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Ragna Sigurðardóttir sveiflast á milli pólitíkur og læknisfræði

„Skurðlækningar heilla mest um þessar mundir en upphaflega voru það geðlækningarnar,“ segir Ragna Sigurðardóttir sem er komin á fleygiferð á kandídatsárið sitt. Ragna hefur afhent formannskefli Ungs jafnaðarfólks til arftakans, er stigin úr hlutverki borgarfulltrúa og komin að nýju á kaf í læknisfræðina

„Allir sem stýra heilbrigðiskerfinu verða að átta sig á að læknar og aðrar heilbrigðisstéttir eru mjög hreyfanlegur starfskraftur, fólk getur farið í önnur störf. Auðvitað er ákveðin hætta á því að ef álagið verður of mikið, eins og var til dæmis í COVID, að fólk hætti og farið annað,“ segir Ragna Sigurðardóttir, fyrrum formaður Stúdentaráðs, leiðtogi Röskvu, formaður Ungs jafnaðarfólks og læknakandídat. „Ég vil klárlega starfa sem læknir,“ segir hún en það eigi eftir að skýrast hvar hún muni starfa.

Ragna Sigurðardóttir fyrrum borgarfulltrúi hefur nú sett pólitíkina á hliðarlínuna og hafið kandídatsárið sem hún mun stunda víða um land. Mynd/gag

„Kannski í Bandaríkjunum, kannski Svíþjóð eða á Íslandi. Ég veit það ekki.“ Allt sé opið en margt eigi eftir að skýrast þegar líður á kandídatsárið. „Lífið er þannig að tækifæri koma og fara. Brautin sem maður fetar fer kannski að einhverju leyti eftir þeim tækifærum sem birtast á hverjum tíma,“ segir hún.

„Tækifærin í læknisfræði eru svo mörg,“ segir hún þar sem hún hittir Læknablaðið yfir kaffibolla á Te og kaffi í miðborginni. Ragna leiddist úr læknisfræðinni í pólitík og er nú aftur komin til baka. Lífsskoðunin er ljós.

„Það er mér svo mikilvægt að fólk fái jöfn tækifæri í lífinu og að fólk sem fæðist ekki með þau tækifæri sem aðrir hafa geti samt komist áfram – geti menntað sig til þess sem það vill eða starfað við það sem það kýs,“ segir hún aðspurð um pólitíska sýn hennar sem mótaðist meðal annars í stúdentapólitík en líka á yngri árum í Bandaríkjunum. Fólk verði að geta staðið óháð stuðningi eða efnahag foreldra. Þar eigi samfélagið að stíga inn.

„Fólk nær til dæmis ekki að framfleyta sér almennilega á námslánum, sem er andstætt tilgangi þeirra. Það á að vera tilgangur stuðningskerfa fyrir námsmenn, hvort sem það eru styrkir eða lán, að gera fólki kleift að þurfa ekki að vinna með námi. Alla vega ekki þannig að það taki frá þeim námið,“ segir hún.

Á tímamótum

Nýr tugur. Ný verkefni. Ný tækifæri. Ragna hefur nú snúið frá pólitíkinni að læknisstarfinu. Stendur á þrítugu en hefur mikla reynslu á bakinu. Nú í ágúst afhenti hún formannskefli Ungs jafnaðarfólks til arftakans. Steig í vor úr borgarfulltrúahlutverkinu og hóf í sumar kandídatsárið sitt.

„Ég finn að orðið hefur vendipunktur í lífi mínu,“ segir hún og lýsir því hvernig hún leiddist óvænt út í stúdentapólitík og þaðan í borgarstjórnarmálin. Var í Röskvu, fór í Stúdentaráð og varð forseti þess og síðar kosningastýra Samfylkingarinnar árið 2018 í borginni. Sat í 9. sæti framboðslistans.

„Við bjuggumst ekki við að ég færi inn sem borgarfulltrúi en það gerðist,“ segir hún og lýsir hvernig hún setti læknisfræðina á hliðarlínuna á meðan. Nú sé pólitíkin á hliðarlínunni þótt hún hafi ekki alveg getað sleppt hendinni af borgarmálunum. Er fimmti varaborgarfulltrúi.

„Ég vildi ekki sleppa stjórnmálunum alveg en vissi að mig langaði að einbeita mér að læknisfræðinni, klára kandídatsárið og fara í sérnám.“ Hún hafi lagt mikla vinnu í pólitíkina. „Mjög skemmtilegt en samt skrýtin tilfinning að minnka svona mikið við mig.“ Hún hefur verið í nokkurra vikna fríi. „Ég vildi gefa mér tíma til að skila af mér þessu tímabili sem forseti ungs jafnaðarfólks,“ segir hún. En hvernig leiddist hún út í pólitíkina?

„Ég ólst ekki upp í flokkspólitískri fjölskyldu eins og margir sem taka þátt í ungliðapólitík,“ segir Ragna. Áhuginn kviknaði þegar hún var í háskólanum að reyna við inntökuprófið í læknisfræði.

„Ég tók það þrisvar. Eftir fyrsta skiptið fór ég að vinna, var nálægt því að komast inn í annað sinn og ákvað að gera eitthvað skemmtilegt um haustið og skráði mig í sálfræði. Þar gekk mér vel og ég eignaðist góða vini,“ lýsir hún, og hvernig þráseta á Þjóðarbókhlöðunni með vinkonum sínum hafi leitt hana í pólitík.

„Svo fóru þær í framboð. Langt var í prófin og ég mætti í partí til þeirra og sogaðist inn í starfið,“ segir Ragna og hlær. „Áður en ég vissi af var ég farin að stýra kosningabaráttu Röskvu.“

Bjó í Bandaríkjunum

Ragna er elst fjögurra systkina og bjó í Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum þar sem pabbi hennar, Sigurður Einarsson, stundaði sérnám í meltingarlækningum. „Ég flutti út 6 ára og bjó þar í 9 ár. Foreldrar mínir ákváðu að sækja um ríkisborgararétt fyrir okkur,“ segir hún og að hún hafi ekki mikið nýtt rétt sinn hingað til. „En ég hef þó kosið,“ segir hún og vill hreint ekki viðurkenna að pabbi hennar sé fyrirmyndin að því að hún stökk í læknisfræði.

„Ég ætlaði lengi vel ekki að verða læknir út af pabba. Ég er svolítið þrjósk,“ segir hún og hlær. Heimspeki hafi heillað en áhugasviðspróf leiddi hana á rétta braut. „Prófið snerist fyrst og fremst um það hvort maður vildi vinna með fólki, hlutum, gögn eða hugmyndir. Mig minnir að ég hafi áttað mig á því að mig langaði að vinna með fólki en líka með hugmyndir og þar hafi læknisfræðin svolítið staðið upp úr,“ og hún viðurkennir að niðurstaðan eigi bæði við læknisfræðina og pólitíkina.

„Mörgum finnst þetta alls ekki passa saman, mér finnst ég hafa lært margt af hvoru tveggja sem getur styrkt mig í hinu. Svo hefur læknisfræðin sínar takmarkanir,“ segir hún. „Ég hef haft mikinn áhuga á geðheilbrigðismálum og stofnaði geðfræðslufélagið Hugrúnu með nokkrum úr stúdentapólitíkinni,“ segir hún.

„Ég vann á endurhæfingargeðdeild sumarið eftir fjórða ár. Þá áttaði ég mig á því að það er svo margt sem pólitíkin ákveður sem hefur mikil áhrif á líf fólks,“ segir hún. Það að fólk búi í húsnæði og hafi eitthvað milli handanna skipti máli fyrir geðheilsu fólks. Ekki megi aðskilja þetta alveg.

„Mér finnst skipta máli að læknar séu ekki skoðanalausir þegar kemur að pólitík. Þeir eiga að beita sér í þágu skjólstæðinga sína, því læknisfræðin getur ekki lagað allt.“

Eins og heyra má hefur Ragna sveiflast milli pólitíkur og læknisfræðinnar. „Það hentar sumum að vera allt í öllu, en ég fann að það að vera svona virk í stúdentapólitík hafði áhrif á námið mitt. Ég tók því þá ákvörðun og þegar ég varð forseti Stúdentaráðs, sem er launuð staða, að taka árs frí frá námi,“ segir hún.

„Ég tók hlé frá nám þegar ég varð borgarfulltrúi til að sinna því starfi en tók síðan hlé frá borgarfulltrúastarfinu til að klára námið. Nú er ég aftur komin í smá hlé frá pólitík til að sinna læknisfræðinni,“ segir hún og hlakkar til ársins framundan.

„Ég verð á flakki kandídatsárið mitt. Var tvo mánuði á háls-, nef- og eyrnadeildinni sem var valið mitt. Þar kláraði ég í byrjun ágúst,“ segir hún. Nú fer hún á lyflækningasvið í einn mánuð, eftir mánaðarfrí, fyrst og fremst á hjartadeildinni.

„Svo fer ég til Húsavíkur á heilsugæsluna í tvo mánuði og á Heilsugæsluna í Garðabæ í aðra tvo. Loks er það Akranes í fjóra mánuði: bæði á skurð- og lyflækningadeild. Svo klára ég kandídatsárið með mánaðardvöl á lyflækningasviði Landspítala,“ segir hún.

„Ég hef alltaf unnið öll sumur á Landspítala og langaði að kynnast einhverju öðru,“ segir hún og hlakkar til mánaðanna. „Ég hef gaman af því að fara á mismunandi staði og kynnast fólki. Mér finnst fjölbreytnin mjög skemmtileg.“

Framtíðin skýrist

En hvað svo? Verður Ragna næsti Dagur B? Borgarstjóri og læknir: „Ég hef nú fengið þessa spurningu áður. Ég veit það ekki. Ég þekki Dag vel og við höfum unnið vel saman. Hann hefur náð árangri í pólitík og er góð fyrirmynd en ég hef alltaf farið mínar eigin leiðir,“ segir hún og brosir.

„Mig langar núna að helga mig kandídatsári og sérnámi. Svo kemur framtíðin í ljós. Kannski leiðist ég aftur út í pólitík. Ég veit það ekki. Það gæti gerst,“ segir Ragna og lokar engum dyrum eins og sannur pólitíkus.

„Það er liðin tíð að fólk ákveði starfsvettvang fyrir alla starfsævina,“ segir hún og minnir því á mikilvægi þess að læknastarfið komi til til móts við þarfir fólks. Við þurfum að mæta þörfum þeirra sem hafa lagt þetta nám á sig og fengið jafnvel sérhæfingu. Það er svo mikilvægt að það þurfi ekki að hörfa frá, séu vinnuaðstæðurnar ósamræmanlegar lífi þeirra,“ segir hún.

„Nú helga ég mig læknisfræðinni en veit ekkert hvað gerist eftir 5, 10 eða 20 ár.“

 

Pólitískur ferill Rögnu Sigurðardóttur

• 2016-2018 Fulltrúi stúdenta í háskólaráði Háskóla Íslands

• 2017-2018 Formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands

• 2018-2020 Varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík

• 2020-2022 Borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík

• 2020-2022 Forseti Ungs jafnaðarfólks

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica