10. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Hugleiðingar um að breyta um stefnu, bæta aðgengi sjúklinga og stöðu sérgreinalækna á stofu. Ragnar Freyr Ingvarsson

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.

 

Ég ætlaði aldrei að flytja heim aftur eftir framhaldsnámið í Lundi. Við fluttum út rétt fyrir hrun og fylgdumst með sjónarspilinu úr öruggri fjarlægð frá fyrirmyndarríkinu, Svíþjóð. Svo viss var ég um framtíð mína í Svíaríki að við hjónin höfðum sótt um ríkisborgararétt, farið í viðbótarnám, keypt hús og bíl og alles. Ljúfa lífið!

En svo breytist allt. Haustið 2015 eldaði ég fyrir brúðkaup vinahjóna minna. Ég hafði lofað þessu á einhverju kenderíi og maður stendur við gefin loforð. Þetta var dásamleg helgi þar sem ég hitti fullt af gömlum vinum, skálaði við brúðhjónin, hitti stórfjölskylduna, fór í sund í glampandi sól og knúsaði fleiri vini, fór í heimsókn til afa og ömmu í Hlunnó og fékk hrært skyr og brauð með kæfu. Daginn eftir vaknaði ég með hnút í maganum, eitthvað sem togaði óstjórnlega í mig – ég var með svakalega heimþrá.

Það var morgunljóst að flutningur til Íslands var ekki rökrétt ákvörðun, heldur tilfinningaleg. Það var og er á brattann að sækja á flestum stöðum – og fátt sem dregur að unga lækna. Of fáir heimilislæknar, heimaþjónusta í mýflugumynd, of fá hjúkrunarrými, endurhæfingarrými af skornum skammti, engir samningar við sérgreinalækna og þjóðarsjúkrahúsið bókstaflega að springa af sjúklingum.

Ég fékk vinnu á Landspítalanum og opnaði stofu, fyrst í Klíníkinni og seinna með fleiri gigtarlæknum í Gigtarmiðstöðinni í Höfðanum.

Á spítalanum fékk ég fékk að taka þátt í að opna nýja lyflækningadeild í Fossvogi þar sem við reyndum að straumlínulaga vinnubrögð, sinntum sjúklingum sem ílengdust á bráðamóttökunni og opnuðum sýklalyfjagjafaeiningu. Spennandi verkefni sem áttu að bæta þjónustu við sjúklinga. Svo kom COVID með öllum sínum þunga – ég var gerður að yfirlækni nýrrar göngudeildar sem sinna átti sívaxandi hópi smitaðra. Göngudeildin spratt upp á leifturhraða, mótuð af starfsmönnunum sjálfum sem vildu gera hvað þau gátu til að stöðva bylgjuna.

Og það virkaði. Auðvitað höfðu samfélagslegar aðgerðir einnig áhrif. En það að bjóða upp á þjónustu, veita fólki bæði öryggi og aðgengi – virtist draga úr veikindum. Ég hafði auðvitað vitað, líkt og flestir, að þetta skipti máli. Og væri mikilvægt – en ég hafði aldrei áttað mig á hversu mikilvægt. Hvert er vægi aðgengis? Mér fannst það breyta gangi sjúkdómsins – færri lögðust inn, færri þurftu á gjörgæslu, færri létust. Þarna fékk hugvit heilbrigðisstarfsmanna, af öllum stéttum, að njóta sín við að leysa flókin vandamál. Mér fannst vægið vera orðið mælanlegt.

Þetta hafði líka mikil áhrif á það hvernig ég rek stofuna mína. Mig langar til að stórefla hana – byggða á eigin hugmyndum – sjá fleiri sjúklinga, kenna sérnámslæknum, ráða hjúkrunarfræðing, iðjuþjálfa, bæta samskiptaleiðir og fjárfesta í nýjum tækjabúnaði. Ég er sannfærður um að slíkt myndi bæta heilsu skjólstæðinga minna.

Og þó að það sé spennandi að sinna sjúklingunum á stofu þá verður að játast að rekstrarumgjörðin er brotin. Ekki hefur verið samið við okkur sérgreinalækna síðan 2013. Engar nýjungar hafa verið teknar inn í gjaldskrár Sjúkratrygginga í meira en áratug, engar leiðréttingar á verði frá hinu opinbera í næstum þrjú ár. Engar eiginlegar viðræður.

Það er ótrúlegt að hið opinbera sjái ekki hið augljósa – hversu gríðarlega stórt hlutverk sjálfstætt starfandi læknar spila í heilbrigðiskerfinu – 500 þúsund heimsóknir – sem er langtum meira en göngudeildarþjónusta Landspítala og fleiri læknisheimsóknir en á heilsugæslur höfuðborgarsvæðisins á hverju ári. Né virðast þau sjá hversu hagkvæm hún er – en heimsókn á stofu kostar 25-50% minna en koma á göngudeild Landspítala. Og kannanir hafa sýnt að sjúklingarnir okkar eru ánægðir með þjónustuna.

Auðvitað gengur þetta ekki svona til lengdar. Ekki nema að markmið hins opinbera sé að minnka aðgengi sjúklinga að heilbrigðisþjónustu og auka greiðslubyrði þeirra. Það getur varla verið markmið stjórnvalda að festa tvöfalda kerfið í sessi til framtíðar?

Við viljum auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu og bæta heilbrigði landsmanna – þá þarf hið opinbera að koma að máli við sjálfstætt starfandi sérgreinalækna með raunveruleg áform um að bæta þjónustuna.

Það væri öllum Íslendingum til mikilla heilla.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica