09. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

„Ég er á réttum stað“ - Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir í viðtali

Blað brotið í sögu íslenskrar læknisþjónustu. Fyrsta konan er tekin við sem sóttvarnalæknir. Reykvíkingurinn Guðrún Aspelund er barnaskurðlæknir. Hún kleif metorðastigann í Bandaríkjunum en lagði hnífinn á hilluna fyrir þremur árum og fór að vinna á sóttvarnasviði Embættis landlæknis – sem hún stýrir nú

„Ég varð að spyrja sjálfan mig hvort ég gæti uppfyllt þetta hlutverk. Ég er ekki Þórólfur Guðnason og ætla ekki að reyna að vera eins og hann. En hann er fyrirmynd og ég hef lært af honum og vona að ég geti tileinkað mér kosti hans. Ég hefði ekki sótt um starfið ef ég hefði verið hrædd við að takast á við hlutverkið,“ segir Guðrún Aspelund, nýr sóttvarnalæknir landsmanna.

Guðrún Aspelund tók formlega við starfi sóttvarnalæknis nú um mánaðamótin. Hún er spennt og hlakkar til að huga að heilsu fjöldans. Mynd/gag

Starfið er fjölbreytt og áhugavert. Það er mikið að gera,“ segir hún. Álagið af heimsfaraldrinum síðustu tvö ár hafi ekki fælt hana frá. „Nei, mér finnst það frekar hafa hvatt mig til að sækja um starfið. Ég hef kynnst því vel og var mikill þátttakandi. Hefði ég ekki verið það, heldur á hliðarlínunni, gæti ég ímyndað mér að ég hefði ekki gert þetta,“ segir hún.

Læknablaðið · Guðrún Aspelund, nýr sóttvarnalæknir - viðtal í september 2022

viðtal

Læknablaðið hittir Guðrúnu þar sem hún mátar skó forverans rétt fyrir daginn stóra þann 1. september. Guðrún var lektor og barnaskurðlæknir við Columbia-háskóla í New York um 10 ára skeið, til 2017. Hún lærði skurðlækningar í Yale í New Haven í Bandaríkjunum.

Fylgdi Margréti Odds

„Ég byrjaði á að fara á rannsóknarstofu hjá einum yfirmanni skurðdeildarinnar í gegnum skurðlækninn Margréti Oddsdóttur, sem var mikill frumkvöðull hérna á Íslandi. Margrét og Jónas Magnússon eru ástæða þess að ég valdi almennar skurðlækningar.“ Hún valdi í framhaldinu barnaskurðlækningar sem undirsérgrein og útskrifaðist frá Hospital for Sick Children í Toronto í Kanada áður en hún tók við starfinu hjá Columbia. Hún varð svo yfirlæknir á Westchester Medical Center í New York um tíma áður en fjölskyldan flutti til London.

„Það var mikil áskorun fyrir mig að leiða skurðdeildina,“ segir Guðrún og þar starfaði hún þegar eiginmaður hennar, Gunnar Jakobsson, færði sig um set til London hjá Goldman Sachs-bankanum haustið 2018. Þau fluttu með dæturnar tvær, Kolbrúnu og Kristínu, yfir hafið. Hún ákvað endurmeta stöðuna.

„Ég sótti um læknaleyfi í London en það tekur tíma að fá slík leyfi. Ég hafði ákveðið að vera heima til að byrja með og koma stelpunum í skóla, hjálpa þeim að aðlagast.“ Eftir hálft ár hafi hún séð auglýsta stöðu hjá Embætti landlæknis á sviði eftirlits og gæða.

„Ég hafði fengist við slíkt, bæði á Columbia og fyrir New York-fylki sem ráðgjafi. Mér fannst þetta því áhugavert en vildi vinna sem mest í fjarvinnu,“ segir hún. Það hafi ekki hentað því starfi fyrir COVID og henni var boðin staða á sóttvarnasviði.

„Ég endaði á að vera ráðin hjá Þórólfi,“ segir hún. Kom í vikutíma heim hvern mánuð. „Við Gunnar vorum oft að velta fyrir okkur hvort við færum heim. Við vorum ekki ákveðin í því og fannst alveg eins líklegt að við yrðum úti,“ segir hún en þau hafi slegið til, flutt heim um miðjan COVID-mars 2020 þegar Gunnar þáði stöðu varaseðlabankastjóra.

„Það voru viðbrigði að koma heim. Kostirnir hér voru að ég var nálægt foreldrum mínum og fjölskyldu,“ segir hún. Þau hafi orðið að venjast aftur veðrinu, já og nálægðinni í smærra samfélagi.

„Hér er gott að vera,“ segir Guðrún afslappað. „Viðbrigðin voru meiri fyrir dæturnar sem höfðu aldrei búið á Íslandi. Fyrir þær var Ísland því nýtt land, nýtt tungumál,“ segir Guðrún. Þeim hafi líkað sérstaklega vel í bandarískum skóla í London. Viðbrigðin þar því minni. „Það var ekki frábært að gera þeim þetta og fyrsta árið þeim erfitt. En þær eru komnar í mjög góðan gír.“

Heim á hárréttum tíma

Guðrún lýsir því hvernig þau hjónin héldu að lífið yrði rólegra heima á Íslandi. „En allt fór á hvolf hjá okkur báðum í faraldrinum. Við vorum á kafi í vinnu,“ segir hún og hlær. „Við hér á sviðinu vorum stanslaust að læra og ég auk þess að fræðast um bólusetningar og smitsjúkdóma og sýkingavarnir. Við þurftum öll að skrifa ýmsar leiðbeiningar og svara erindum,“ segir skurðlæknirinn.

„Starfið snertir líka stjórnsýsluna mikið og ég varð að læra hratt,“ segir Guðrún, sem er rúmlega hálfnuð með diplómanám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. „Það er gagnlegt fyrir sóttvarnalækni.“

Guðrún er rétt yfir fimmtugt, yngst fjögurra systkina. Á þrjá eldri bræður sem allir bjuggu í Bandaríkjunum í barnæsku, og einn enn, en ekki hún. Hún var ekki fædd þá. „Ég náði samt 20 árum þar ytra.“ Foreldrar hennar voru Kolbrún Þórhallsdóttir og Erling Aspelund.

„Ég sá ekki fyrir að kveðja foreldra mína svona fljótt eftir að við komum heim, en aldur þeirra var þáttur í ákvörðuninni að flytja heim. Þau voru orðin fullorðin og mér fannst verðmætt að geta verið nær þeim, hitt þau meira og hjálpað til ef þyrfti,“ segir hún.

„Eftir á að hyggja tel ég að það hafi verið ómetanlegt fyrir mig að geta varið þessum stundum með þeim.“ Henni hafi þó þótt miður að COVID hafi fækkað þeim stundum en hún haldi þétt um minningarnar.

„Við bjuggum fyrsta árið í íbúð fyrir ofan þau og svo í sömu götu. Ég hjólaði oftast við hjá pabba á leið heim úr vinnu eftir að mamma dó í fyrra. Við settumst niður og spjölluðum,“ segir Guðrún sem nú í lok ágúst fylgdi föður sínum til grafar.

Eini umsækjandinn

Guðrún var hissa á að hún væri eini umsækjandinn enda Þórólfur mjög í sviðsljósinu. „Þess vegna taldi ég að það yrðu fleiri. En á móti kemur að kannski hefur fólki fundist það yfirþyrmandi.“

En saknar hún ekki hnífsins? „Auðvitað sakna ég þess á ákveðinn hátt að fara úr skurðlækningum. Starfið er mjög gefandi. Það er ekki venjuleg vinna, heldur lífið manns. Skurðlækningar verða að hafa forgang og maður að sinna því 100%. En það tekur líka á og ég hafði stundað þær lengi. Það var því ákveðin endurnýjun að gera eitthvað annað,“ segir Guðrún og fagnar umbreytingunum.

„Mér finnst ég ekki vera að svíkjast um þótt ég sé ekki að skera. En ég fékk þá tilfinningu svolítið í fyrstu þegar ég ákvað að hætta að skera með allt þetta nám og reynslu á bakinu. Ég fékk samviskubit. En á þessum 20 árum, 10 í náminu og 10 þar á eftir, hef ég gert heilmikið á löngum vinnudögum með mörgum aðgerðum,“ segir hún.

„Ég hef bara ekki fundið þörfina fyrir að fara aftur til baka. Ég er mjög sátt að vera læknir og gera gagn á annan hátt. Þetta er á öðrum skala. Hér fæst ég við lýðheilsu og hugsa um heildina í stað þess að hugsa um einn einstakling í einu,“ segir hún.

„Ég tel mig einnig geta náð árangri nú og finn að ég er á góðum stað.“

Þurfum sóttvarnaúrræði

„Við þurfum að hafa úrræði fyrir þá sem hafa ekki í önnur hús að venda,“ segir nýr sóttvarnalæknir um þá stöðu þegar setja þurfi fólk í sóttkví eða einangrun vegna smitsjúkdóma. Hún sjái ekki fyrir sér að grípa þurfi til þess að flytja fólk á sóttvarnahótel aftur vegna COVID-19 sýkinga eins og staðan er nú.

„Við þurfum að vera undirbúin fyrir ný afbrigði en ég sé ekki fyrir mér að sama staða komi upp og í upphafi faraldursins. Við erum vel bólusett og því betur sett,“ segir Guðrún Aspelund. „En við erum við öllu búin.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica