0708. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Heppni og samstarf viðhæfileikaríkt fólk litar starfsferilinn - Guðmundur Jóhannsson í Gautaborg

„Það er erfitt að hafa annað hobbí en læknastarfið og rannsóknarvinnuna sem því tengist,“ segir Guðmundur Jóhannsson innkirtlalæknir sem hefur síðustu áratugi fengið hvert stóra verkefnið á fætur öðru í Svíþjóð þar sem hann hefur starfað síðustu 35 ár

„Ég get sagt að ég vinn styttri vinnudaga en ég gerði fyrir 10 árum síðan. Maður verður skilvirkari með árunum að mörgu leyti en ég nýti enn mörg kvöld og margar helgar,“ segir Guðmundur Jóhannsson, sérfræðingur í lyflækningum og innkirtlafræðum við Sahlgrenska-sjúkrahúsið í Gautaborg og prófessor og aðstoðardeildarstjóri lyflækningadeildar Háskólans í Gautaborg.

Guðmundur Jóhannsson hefur búið lengur í Svíþjóð en á Íslandi, hefur fest þar rætur og náð langt í læknastéttinni. Hann á sinn þátt í yfir 300 vísindagreinum. Mynd/aðsend

Guðmundur sest niður eftir langan vinnudag og ræðir við Læknablaðið. Rafrænt. Hann hefur með elju komið ár sinni vel fyrir borð. Vann sig upp af minni sjúkrahúsum á stærri og kveðst hafa notið sannmælis þrátt fyrir að vera ekki innfæddur.

„Já, ég held það. Ég hef aldrei fundið annað,“ segir hann en bætir við: „Ég segi þó stundum að því lengra sem þú kemst upp fjallstindinn þeim mun harðara blæs.“ Hann brosir, er hógvær um leið og hann lýsir því hvernig það geti þó verið gott að þekkja mann og annan á leiðinni upp metorðastigann.

„En á sama tíma finnst mér að ég hafi alltaf fundið meira en minna fyrir því að vera alltaf tekinn fyrir það sem ég er. Horft er til þekkingarinnar sem maður býr yfir,“ segir hann. „Ég get ekki sagt að ég hafi fundið fyrir öðru.“

Guðmundur var lengi ritari og síðan forseti Fagráðs vaxtarhormónarannsókna (Growth Hormone Research Society Council) og einn ritstjóra Evrópska innkirtlatímaritsins (European Journal of Endocrinology). Hann hefur setið í European rare network, ráði Evrópusambandsins, frá upphafi. Það miðar að því að veita fólki með sjaldgæfa innkirtlaröskun sömu þjónustu óháð búsetu. Svo hefur hann fylgt fjölda sérnámsnema eftir í doktorsnámi og er vísindamaður.

Yfir 300 vísindagreinar hans hafa verið birtar í ritrýndum tímaritum. Heila-dingulssjúkdómar, vaxtarhormón og áhrif kortisóls eru efst á áhugasviðinu. Verkefnin eru mörg. Hann átti ríkan þátt í þróun lyfsins Plenadren® sem hefur verið notað við kortisólskorti allt frá árinu 2011. Afrek sem bætir lífsgæði margra.

Ávísar eigin lyfi

„Afrek og afrek,“ segir hann góðlátlega og dregur úr þætti sínum. „Segja má að það sé heppni eða hæfileiki til að velja sér góða samstarfsaðila. Það er það sem gefur mest við að leysa vandamál og finna lausnir. Samvinna er svo mikilvæg og að vinna í hópi sem gefur og tekur. Það er skemmtilegast í starfi og skiptir þá ekki máli hvort maður er í rannsóknarvinnu, að stjórna eða á klíníkinni,“ segir hann.

„Það er þó svolítið sérstakt að standa á bak við hugmynd sem lifir. Það er skemmtilegt. Ég var heppinn að hitta rétt hæfileikaríkt fólk á sínu sviði. Niðurstaðan var lyf sem virkar vel, er til um alla Evrópu og er notað til að hjálpa sjúklingum – gerir gagn.“ Það sé sérstök tilfinning að hafa síðasta áratuginn getað skrifað út eigið lyf sem hann varði mörgum misserum í að vinna að. En getur hann lýst tilfinningunni?

„Nei það er svolítið erfitt,“ segir hann. „Ætli það sé ekki neikvæður eiginleiki hjá mér að þegar ég er búinn með einn hlut tekur næsti við á einhvern hátt.“

Sænska lífið

Annir í starfi Guðmundar eru miklar og hann viðurkennir að fjölskyldutíminn hafi stundum verið skorinn við nögl. „Já, það er erfitt þegar börnin eru lítil, en núna eru engin smábörn og því auðveldara að stela sér tíma hér og þar,“ segir Guðmundur sem á þrjú uppkomin börn; í Malmö, Amsterdam og á Íslandi. Lífið sé gott og hann giftur Titti Ölmstjerna sem á sín tvö.

„Við höfum verið gift í nær 15 ár. Hún þjálfar hunda í hæsta klassa. Það er áhugamálið hennar og þýðir að maður þarf að vera mikið úti, fara í gönguferðir og verja mörgum klukkutímum í skóginum.“ Þá sé gott að geta stokkið úr amstri miðborgar Gautaborgar í sveitina.

„Við erum við með lítið hús suður af Gautaborg, fyrir utan Halmstad, sem við erum í þegar tími gefst til. Það er algjör andstæða við miðborgarheimilið þar sem er umferð allan sólarhringinn og þyrlur sem fljúga með sjúklinga fram og til baka. Sporvagnar á ferð. Í staðinn heyrist í trjánum og hafinu í sveitinni, sem myndar góðar andstæður,“ segir hann.

Guðmundur flutti fyrst til Svíþjóðar tveggja ára. Jóhann Guðmundsson bæklunarlæknir var faðir hans, Sigríður Jóna Árnadóttir móðir. Þau mæðgin fylgdu Jóhanni út í sérnám og þar eignaðist Guðmundur þrjú systkin. Fjölskyldan kom heim þegar hann var rétt 10 ára og hann kláraði menntaskóla og læknanámið hér heima og fór aftur út í sérnám. Alfarinn 1987 ári eftir útskrift úr læknadeild þótt það hafi ekki verið planið.

Dýralæknir draumurinn

„Ég festist. Fór úr í einu og annað. Svo líður tíminn. Nýir möguleikar, ný verkefni,“ segir Guðmundur sem ætlaði sér ekki að verða læknir. „Það var heldur ekki planið,“ segir hann og hlær. „Ég ætlaði að verða dýralæknir.“ Á þeim tíma hafi íslenska ríkið átt eitt pláss á ári í háskólanum í Osló. Annar hafi fengið sætið árið sem hann varð stúdent.

„Þá ætlaði ég að lesa eitt ár í læknadeildinni og sækja síðan aftur um.“ En lífið breytti um stefnu og honum líkaði lífið í læknadeildinni. „Síðan fæddist líka elsta dóttir mín á því ári, sem flækti stöðuna,“ segir hann.

Guðmundur gerir ekki framtíðarplön. „Nei, það er kannski ástæðan fyrir því að ég fór aldrei aftur til Íslands. Það tekur eitt verkefnið við af öðru og leiðin markast,“ segir hann. „Maður er ekkert að plana allt of langt fram í tímann.“

En hvernig sér hann þá fyrir sér næstu ár? „Nú vinn ég mikið fyrir háskólann,“ segir Guðmundur sem situr í mörgum ráðum og nefndum sem vinna að breyttu námi, úr kandídatsfasanum í fullt læknaleyfi eftir 6 ára nám. Hann er ábyrgur fyrir stórum hluta læknadeildarinnar í Gautaborg sem hann segir hafa breytt læknanámi sínu hvað mest síðustu ár í Svíþjóð.

„Nýja læknanámið tekur smátt og smátt yfir það gamla. Þau sem lesa núna eru á annarri önn og árið 2027 verður nýja læknanámið allsráðandi. Þetta er mjög spennandi,“ segir hann og sér fyrir sér að næstu þrjú verði svipuð stefnunni nú. „Halda áfram á klíníkinni og ég vinn í rannsóknum, reyni að skilja betur áhrif kortisóls á líkamann,“ segir hann.

Heldur alltaf áfram

„Ég reyni að finna nýtt lífmerki (biomarker) til að mæla kortisólið. Það er verkefni sem við höfum unnið lengi að og fengið góða styrki fyrir. Við munum því halda áfram næstu árin. Svo erum við með stór verkefni í kringum heiladingulsæxli. Þannig að þessi verkefni eru komin vel á legg. Það er því ljóst að þau ganga áfallalaust næstu árin og engar dramatískar breytingar í augsýn.“

Þótt rætur Guðmundar liggi hingað heim til Íslands, nafnið hans rammíslenskt og stórfjölskylda hans hér heima, á Svíþjóð stóran hlut í hjarta hans.

„Ætli maður sé ekki orðinn meiri Svíi en Íslendingur. Ég býst við að aðrir myndu segja það. Íslenskan mín er ágæt þegar ég er búinn að æfa hana nokkra daga, en eins og núna þegar ég hef unnið heilan vinnudag og aðeins talað sænsku og ensku þá gengur ekki alltaf vel að skipta svo yfir á íslensku,“ heldur hann áfram. Blaðamaður er ekki sammála. „Tja, þetta er nú sérstaklega ef einhver hringir og biður mig um að tala um sjúkling á íslensku. Það er nánast ómögulegt,“ segir hann og hlær. En kom aldrei upp að koma til starfa á hér heima?

„Ég fékk einu sinni símtal frá Íslandi. Þá var einhver staða sem var verið að spá í. Það var skemmtilegt samtal því það fjallaði ekki um hvort ég hefði reynslu eða áhuga á vinnunni heldur hvort ég hefði ekki heimþrá og hvort konan og börnin vildu ekki flytja til Íslands,” segir hann og hlær. „Spurt var hvort ekki væri tími til að ég kæmi heim. En hér á ég nú heima.“

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica