0708. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Persónulegur sigur í söltu Ermarsundi! - rætt við Elsu Valsdóttur skurðlækni og sundkappa

„Að synda yfir Ermarsundið gaf okkur þá tilfinningu að við getum hvað sem er. Það verður ekkert verkefni það stórt að ekki sé hægt að yfirstíga það,“ segir Elsa Valsdóttir, skurðlæknir

„Sundið tók á. Það var hrikalegt og æðislegt á sama tíma. Það er ekki hægt að lýsa þessari reynslu öðruvísi. Mér tókst að synda yfir Ermarsundið, sem gerir aðrar áskoranir léttari í lífinu,“ segir Elsa Valsdóttir, skurðlæknir á kviðarholsskurðdeild á Landspítala. Hún synti í boðsundssveitinni Bárunum með Jórunni Atladóttur sem einnig er ristilskurðlæknir á deildinni og fjórum öðrum þann 7. júní.

Sigríður Lárusdóttir, Harpa Leifsdóttir, Bjarnþóra Egilsdóttir og Elsa Valsdóttir í efri röð. Jórunn Atladóttir og Guðmunda Elíasdóttir fyrir framan. Mynd/aðsend

Með þeim tveimur voru Bjarnþóra Egilsdóttir, Harpa Leifsdóttir, Sigríður Lárusdóttir og Guðmunda Elíasdóttir. „Við erum fimmta íslenska boðsundssveitin sem klárar,“ segir Elsa. Sundið tók þær 16 klukkustundir og 4 mínútur. „Við syntum 54 kílómetra en loftlína Ermarsundsins er 33 kílómetrar,“ segir hún.

„Við erum enn að jafna okkur. Höfum synt smá og hlaupið smá. Svona sund reynir minna á líkamann en hausinn. Hann er númer 1, 2 og 3,“ segir hún og lýsir ströngum reglum. Þær hafi ekki mátt hjálpast að eða snertast milli spretta og urðu að vera klukkustund hver ofan í í einu. Matsmaður hafi verið um borð sem skar úr um hvort sundið væri gilt.

„Það þurfti sterkan vilja til að koma sér út í og halda sér ofan í 13-14 gráðu heitum sjónum í klukkutíma,“ segir Elsa. Passa þurfi að panikka ekki í svona erfiðum aðstæðum. „Við vorum að súpa sjó og hósta upp. Þetta var rosalega erfitt, skítkalt bæði í sjónum og í bátnum.“

Elsa og Jórunn huga að fæti Bjarnþóru Egilsdóttur sem náði landi fyrir hópinn í Frakklandi. Mynd/aðsend

Ölduhæðin hafi náð einum metra og aðstæður til sundsins svo erfiðar að tvísýnt var hvort þeim yrði hleypt af stað og hvort þær fengju að klára. Tveir af 6 hópum hættu við sund þennan dag vegna veðurs. „Við vorum harðar á því að láta reyna á þetta. Við erum jú Íslendingar og vitum að veðurspá er bara spá. Hún getur breyst hratt,“ segir hún.

„Við tókum stuttan fund á bryggjusporðinum og ákváðum að ef okkur tækist ekki að klára, myndum við líta á sundið sem æfingu og fara aftur seinna. Sundið stóð tæpt allan tímann. Þegar fór að líða á var farið að hvessa. 66 gráður norður kraftgallarnir voru lífsbjörg um borð í bátnum,“ segir hún.

Fimm ár eru síðan Elsa tók fyrsta sjósundssprettinn. „Vinkona mín hafði reynt að draga mig í mörg ár. Mér fannst þetta fáránlegt. Af hverju að fara út í sjó þegar sundlaugar eru allt um kring. Síðan fór ég að heyra fleiri tala um að sjósund væri æðislegt og ég ákvað því að láta undan þrábeiðninni og það varð ekki aftur snúið. Ég féll fyrir sportinu frá fyrsta sundi.“

Hópurinn var búinn undir allskonar veður á Ermarsundi. „En aðstæður voru töluvert verri en okkar svartsýnustu hugmyndir höfðu verið,“ segir Elsa. „Helming leiðarinnar voru þetta frekar slagsmál við öldurnar en sund. Þetta var eins og að synda í þvottavél. Manni leið eins og við kæmumst ekki áfram. Vorum að passa að kastast ekki á bátinn því öldugangurinn var svo mikill,“ segir hún.

„Við fengum aldrei góðan kafla. Vorum alltaf með vindinn og ölduna í fanginu.“ Þær höfðu beðið lengi eftir sundinu, bókuðu það í janúar 2019. „Og ég segi: Þetta var rosalegt en algjörlega þess virði. Til-finningin að hafa klárað þetta er mögnuð. Geta horft til baka og sagt: Ég synti yfir Ermarsundið. Það er meiriháttar.“


 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica