06. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Lyf án skaða,alþjóðlegt átak um öryggi sjúklinga

Verkefnið Lyf án skaða er alþjóðlegt gæðaátak sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin stendur fyrir og var hleypt af stokkunum árið 2017. Hérlendis hófst verkefnið árið 2020 og er í umsjón stýrinefndar undir forystu landlæknis.

Bakhjarlar verkefnisins eru Embætti landlæknis og heilbrigðisráðuneytið en helstu samstarfsaðilar eru Landspítali, Sjúkrahúsið á Akureyri (SAK), Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Læknafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Lyfjafræðingafélag Íslands og Lyfjastofnun. Amelia Samuel, verkefnastjóri á gæðadeild Landspítala, er framkvæmdastjóri verkefnisins.

Óvænt atvik og frávik sem verða í meðferð sjúklinga í heilbrigðisþjónustu víða um heim má helst rekja til mistaka við umsýslu lyfja og/eða aukaverkana af völdum lyfja. Mesta hættan er þegar sjúklingur þarfnast margra lyfja hverju sinni (fjöllyfjameðferð) eða þegar viðkomandi flyst milli þjónustueininga í heilbrigðiskerfinu.

Markmið verkefnisins er að draga úr alvarlegum skaða af völdum lyfja um 50% á næstu 5 árum. Á þessu stigi er lögð áhersla á þrjá þætti:

  • bæta lyfjaöryggi við flutning upplýsinga og meðferðar milli aðila innan heilbrigðisþjónustunnar
  • draga úr óviðeigandi fjöllyfjameðferð
  • stuðla að öruggari notkun áhættusamra lyfja

Til að ná markmiðum verkefnisins þarf að vinna að umbótum á mörgum sviðum, verkferlum, tæknilausnum, þjálfun heilbrigðisstétta og efla aðkomu lyfjafræðinga, bæði innan og utan stofnana. Einnig felast mörg tækifæri í að valdefla notendur lyfja með aðgengilegum upplýsingum um lyf, fræðslu um lyf og aðrar meðferðarleiðir ásamt virkri þátttöku í eigin meðferð.

Heimasíðan landspitali.is/lyfanskada var formlega opnuð og kynnt á Læknadögum í mars. Þar er að finna allar helstu upplýsingar um verkefnið og framvindu þess.

Það er von þeirra sem standa að verkefninu Lyf án skaða að sú markvissa gæðaþróun sem er hafin á þessum vettvangi muni vekja áhuga meðal lækna, styrkja teymisvinnu og leiða á næstu árum til umbóta sem bæta öryggi í lyfjameðferð á Íslandi.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica