06. tbl. 108. árg. 2022

Ritstjórnargrein

IPS – starfsendurhæfing sem skilar árangri. Nanna Briem

Nanna Briem |geðlæknir |forstöðumaður geðþjónustu Landspítala

doi 10.17992/lbl.2022.06.692

Í þessu tölublaði Læknablaðsins er áhugaverð og vönduð grein eftir Rögnu Kristínu Guðbrandsdóttur læknanema og Odd Ingimarsson geðlækni sem fjallar um rannsókn á náms- og atvinnuþátttöku ungs fólks sem fékk meðferð og endurhæfingu á Laugarásnum, meðferðargeðdeild á Landspítala, á 10 ára tímabili.1

Laugarásinn býður upp á snemmíhlutun í geðrofssjúkdóma fyrir ungt fólk yngra en 35 ára. Geðrofssjúkdómar, en algengastur þeirra er geðklofi, eru sjúkdómar ungs fólks. Þetta eru alvarlegir sjúkdómar þar sem fyrstu einkenni koma fram snemma á lífsleiðinni, oft á unglingsárum þegar unga fólkið er að taka fyrstu skrefin inn í fullorðinsárin með öllu sem því fylgir. Áhrif geðrofssjúkdóms geta því varpað skugga langt inn í framtíð þeirra. Í dag vitum við að með því að grípa inn með öflugri meðferð sem fyrst eftir að einkenni sjúkdómanna koma fram getum við bætt batahorfur.2 Markmið snemmíhlutunar á Laugarásnum, sem felur í sér bæði lyfjameðferð og sálfélagsleg úrræði, er að draga úr alvarlegum áhrifum geðrofssjúkdóma á líf og líðan þessa unga fólks og styðja þau til virkari samfélagslegrar þátttöku. Þar getur öflug starfsendurhæfing skipt sköpum.

Eins og niðurstöður rannsóknar Rögnu og Odds sýna er starfsendurhæfing ein mikilvægasta íhlutunin til að auka náms- og atvinnuþátttöku ungs fólks eftir fyrsta geðrof.1 Hin hefðbundna starfsendurhæfing, sem felur meðal annars í sér verndaða vinnu, starfsþjálfun, sjálfboðastörf og atvinnu með stuðningi, sýnir oft takmarkaðan árangur fyrir notendur með þyngstu geðraskanirnar.3 Árið 2014 var tekin ákvörðun um að innleiða IPS (Individual Placement and Support) á Laugarásnum. IPS er vel rannsökuð og gagnreynd starfsendurhæfing sem á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna og hefur náð útbreiðslu um alla Evrópu. IPS-starfsendurhæfingin á Laugarásnum var byggð upp í farsælu samstarfi við VIRK starfsendurhæfingarsjóð en heldur hefur dregið úr aðkomu hans á síðustu árum.

IPS byggir á þeirri grunnhugmynd að hægt sé að finna störf fyrir alla sem vilja vinna. Virk sjúkdómseinkenni, skortur á fyrri reynslu á vinnumarkaði eða vímuefnaneysla eru engin hindrun. Notendur fá störf á almennum vinnumarkaði og óskir þeirra og áhugasvið ráða för. Þjálfun og stuðningur fer fram samhliða til þess að auka getu og færni til að takast á við starfið. Atvinnuráðgjafar eru hluti af klínískum teymum og starfa þétt með notendum og atvinnurekendum.4 Mikil áhersla er lögð á fræðslu til atvinnurekenda og opið samtal um geðheilbrigði á vinnustöðum. Árangurinn af þessari nálgun er ótvíræður og hefur sýnt yfirburði yfir hefðbundna starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga með alvarlegar geðraskanir. Mælist hann meðal annars í fjölda þeirra sem fá starf á almennum vinnumarkaði, fjölda daga og vinnustunda sem unnar eru og í launagreiðslum.3

Niðurstöður rannsóknar Rögnu og Odds sýna gagnsemi IPS sem hluta af meðferð og endurhæfingu ungs fólks með geðrofssjúkdóma en einnig mikilvægi þess að hún verði efld enn frekar.1 Geðþjónusta Landspítala vinnur að því að geta boðið fleiri notendum upp á IPS-starfsendurhæfingu, ekki bara á Laugarásnum heldur einnig í öðrum teymum. Mikilvægt skref var stigið 2021 þegar Hlynur Jónasson, atvinnulífstengill og IPS-frumkvöðull, var ráðinn til starfa í geðþjónustunni, en hann fékk nýverið verðlaun frá IPS International Learning Community fyrir störf sín. Í samstarfi við Hlyn er Landspítali nú virkur þátttakandi ásamt öðrum Evrópuþjóðum í ELC (IPS European Learning Community).5

IPS er eitt besta verkfærið sem við höfum í dag til þess að auka samfélagslega virkni ungs fólks og annarra með alvarlegan og langvinnan geðrænan vanda. Þetta er hópur notenda sem síður getur nýtt sér þau starfsendurhæfingarúrræði sem almennt eru í boði á Íslandi. Okkur ber fagleg, siðferðisleg og samfélagsleg skylda til að tryggja notendum geðþjónustu aðgengi að virkri og öflugri starfsendurhæfingu. Það er góð fjárfesting til framtíðar.

Heimildir

 

1. Guðbrandsdóttir RK, Ingimarsson O. Náms- og atvinnuþátttaka ungs fólks á Íslandi eftir snemmíhlutun í geðrof. Læknablaðið 2022; 108: 288-97.
 
2. Posselt CM, Alber N, Nordentoft M, et al. Services for first-episode psychosis: a phase 4 prospective cohort study with comparison of randomize trial and real-world data. Am J Psychiatry 2021; 178: 941-51.
https://doi.org/10.1176/appi.ajp.2021.20111596
PMid:34315283
 
3. Hoffmann H, Jäckel D, Glauser S, et al. Long-term effectiveness of supported employment: 5-year follow-up of a randomized controlled trial. Am J Psychiatry 2014; 171: 1183-90.
https://doi.org/10.1176/appi.ajp.2014.13070857
PMid:25124692
 
4. www.ipsworks.org - maí 2022
 
5. Jónasson H, Weeghel J, Koatz D, et al. Boosting the development of individual placement and support in Europe. Epidemiol Psychiatr Sci 2022; 31: E29.
https://doi.org/10.1017/S2045796022000129
PMCid:PMC9069580
 

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica