05. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Frá Læknafélagi Íslands. Þróun og horfur innan sérgreina á Íslandi

Læknafélag Íslands (LÍ) hefur gert spálíkan um mannaflaþörf lækna til ársins 2040. Þá hefur LÍ kallað eftir upplýsingum frá sérgreinafélögum til að kanna þróun og horfur innan sérgreina lækna og þær eru mikilvægar til að skoða framtíðarþörf fyrir sérfræðinga.

Sérgreinar læknisfræði hafa ótvíræðu hlutverki að gegna og nauðsynlegt að tryggja þar nægjanlegan fjölda.1

Embætti landlæknis hefur veitt sérfræðileyfi í um 60 sér- og undirsérgreinum læknisfræði. Þörfin fyrir þessar sérgreinar er stöðugt að breytast þar sem ný þekking og tækni kallar á breytta nálgun.2

LÍ hefur greint þessar sér- og undirsérgreinar eftir kyni og aldri.3 Sú greining leiðir meðal annars í ljós að endurnýjun í nokkrum sérgreinum er ekki nægjanleg, þar sem meirihluti sérfræðinga er 60 ára og eldri. Þessar sérgreinar eru:

· Almennar skurðlækningar

· Atvinnu- og umhverfislækningar

· Augnlækningar

· Barna- og unglingageðlækningar

· Blóðmeinafræði

· Brjóstholsskurðlækningar

· Endurhæfingarlækningar

· Erfðalæknisfræði

· Félagslækningar

· Geðlækningar

· Heimilislækningar

· Húðlækningar

· Krabbameinslækningar

· Lungnalækningar

· Meinafræði

· Meltingarlækningar

· Meinaefnafræði

· Myndgreining

· Ofnæmis- og ónæmislækningar

· Taugalífeðlisfræði

· Taugalækningar

· Veirufræði og örverufræði

· Þvagfæraskurðlækningar

· Æðaskurðlækningar

· Öldrunarlækningar

Hafa verður í huga að þetta er einn mælikvarði á skorti á endurnýjun, sumar sérgreinar glíma án efa við mun meiri skort en þessi tölfræði gefur til kynna vegna vaxandi eftirspurnar og fjölgunar verkefna.

Hér verða tvær breiðar sérgreinar teknar til sérstakrar skoðunar: öldrunarlækningar og heimilislækningar.

Staðan í öldrunarlækningum er sú að 15 sérfræðingar eru starfandi, auk fjögurra sérnámslækna og fjögurra sérfræðilækna sem komnir eru yfir 70 ára aldur (og eru fæstir í fullu starfi). Þegar meta á þörfina fyrir öldrunarlækna er hægt að hafa til hliðsjónar fjölda Íslendinga sem eru 67 ára eldri en þeir eru um 46.000 í dag. Rannsóknir gefa til kynna að um 15% af þessum hópi þurfi á þjónustu öldrunarlækna að halda, eða 7046 einstaklingar. Að meðaltali má áætla að hver og einn sem þarf á þjónustu öldrunarlæknis að halda, þurfi um 10 klukkutíma af tíma læknisins árlega (miðað er við göngudeildarkomur og læknisþjónustu á hjúkrunarheimilum og legudeildum), sem gera samtals um 70.046 klukkutíma á ári og er það líklega varlega áætlað. Árlegt vinnuframlag sérfræðilæknis er um 1800 klukkustundir (þegar teknir eru út frídagar og rauðir dagar og miðað er við 8 klukkutíma dagvinnu). Út frá þessum forsendum er núna þörf á rétt rúmlega 39 öldrunarlæknum til þess að sinna verkefninu. Ef tekið er með að læknar þurfa líka að sinna stjórnun, rannsóknum og kennslu, myndi um 20% viðbótarvinnuframlag bætast ofan á og þá yrði þörfin um 47 öldrunarlæknar.4

Helsta áskorunin er að mennta nægilega marga öldrunarlækna og einnig að þeir fái sem fjölbreyttasta menntun. Það er mikilvægt að hluti hópsins haldi áfram að fá sérmenntun erlendis til að viðhalda fjölbreytileika og víðsýni hópsins. Þjóðin er að eldast. Elstu aldurshóparnir stækka hraðast og þörf þeirra fyrir þjónustu öldrunarlækna er meiri en þörf yngri aldraðra. Þörfin fyrir öldrunarlækna verður því enn meiri á komandi árum.

Heimilislæknar eru mikilvægur hluti heilbrigðiskerfisins því gert er ráð fyrir að þeir séu fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Sú nálgun að hver og einn hafi sinn heimilislækni hefur sýnt að það getur komið í veg fyrir sjúkrahúsinnlagnir og alvarleg veikindi. Áður var talið að hver heimilislæknir í fullu starfi gæti sinnt 1500 skjólstæðingum. Á síðustu áratugum hefur þessi forsenda verið endurskoðuð alls staðar á Norðurlöndunum í ljósi vaxandi starfsemi og starfsviðs heilsugæslunnar. Í dag er miðað við að hver heimilislæknir geti sinnt 1200 skjólstæðingum í þéttbýli og um 800-1000 í dreifbýli, eða færri en í þéttbýli vegna vaktþjónustu og fjarlægðar frá sjúkrahúsi.

Byggt á mannfjöldatölum í sveitarfélögum á Íslandi á árinu 2021 sést að 252 heimilislæknar þarf til að þjóna þéttbýli Íslands og 67 í dreifbýli. Nú eru um 200 heimilislæknar á Íslandi, eða um 13% af starfandi læknum.5

Skoðunin á fjölda öldrunarlækna og heimilislækna sýnir með óyggjandi hætti að talsverður skortur er þegar á læknum í þessum sérgreinum. Sérnám þarf að styrkja í báðum sérgreinum með betri fjármögnun til að hægt sé að fjölga sérnámslæknum.

Greina þarf fleiri sérgreinar og mun það verða gert hjá LÍ. Þessar upplýsingar eru bæði nauðsynlegar fyrir skipulag heilbrigðisþjónustunnar en einnig fyrir lækna, sem eru að ákveða í hvaða sérgrein þeir vilja fara. Mikilvægt er að bregðast við yfirvofandi skorti í sérgreinum með því að greina ástæður hans og möguleg viðbrögð til að tryggja nýliðun.

Heimildir

1. Ólafsson E. Sérgreinar læknisfræðinnar. Hugleiðingar um stöðu sérgreina á íslensku háskólasjúkrahúsi. Læknablaðið 2005; 91: 725.

2. Skipulag sérgreina lækninga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. landspitali.is.

3. Starfsleyfaskrá. landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/heilbrigdisstarfsfolk/finna-heilbrigdisstarfsfolk/ - apríl 2022.

4. Upplýsingar frá formanni Félags íslenskra öldrunarlækna, Önnu Björgu Jónsdóttur.

5. Upplýsingar frá fyrrverandi formanni Félags íslenskra heimilislækna, Salóme Arnardóttur.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica