05. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Dagur í lífi kviðarholsskurðlæknis á Akranesi. Fritz H. Berndsen

06:21 Sony útvarpsvekjaraklukkan sem ég fékk í fermingargjöf 1979 hringir. Hún er stillt 9 mínútum of fljótt þannig að hún sýnir 06.30. Ástæðan fyrir því er sú að í henni er innbyggt 9 mínútna snús, þannig að ef mér dytti í hug að snúsa (sem gerist sjaldan) vakna ég samt 06.30.

06:35 Ég vakna í bílnum. Bý í Grjótaþorpinu og vinn á HVE á Akranesi. Búinn að vinna þar í 20 ár. Frábær vinnustaður. Samstarfsfólkið frábært og ekkert rotið epli, sem er mjög mikilvægt á svo lítilli einingu. Í dag er þriðjudagur og þá er ég á bakvakt og gisti á Skaganum.

Fyrsta aðgerð dagsins á Skaganum. Fanney Svala skurðhjúkrunarfræðingur tók myndina.

07:00 Í botni Kollafjarðar. Dagurinn lofar góðu. Ef ég er í botni Kollafjarðar þegar sjöfréttirnar byrja á Rás eitt boðar það gott. Ég reyni þess vegna að vera nákvæmlega í botninum klukkan sjö. Ef ég er snemma í því hægi ég á mér en gef aðeins í ef ég er seinn.

07:20 Mæti til vinnu. Fæ mér fyrsta kaffibollann úr Nespressovél sem ég er með á skrifstofunni. Fer yfir pósta og fer í gegnum sjúklinga deildarinnar auk þess sem ég skoða aðgerðarsjúklinga dagsins. Enda á fréttamiðlum. Ekkert nýtt, stríð.

08:00 Fer upp á skurðstofu og skipti um föt og ræði við fyrsta aðgerðarsjúkling dagsins sem er fimmtugur maður með nárakviðslit.

08:15 Stofugangur. Þekki flesta sjúklinga og enginn alvarlega veikur. Stofugangurinn tekur 25 mínútur.

08:45 Kaffi í matsalnum. Ég borða ekki morgunmat. Kaffi- og matartímar eru mjög mikilvægir á litlu landsbyggðarsjúkrahúsi. Þar hittumst við læknarnir, förum yfir málin og gefum hvort öðru ráð og styrk.

08:55 Fyrsta aðgerð dagsins gengur vel. TEP-aðgerð sem er nárakviðslitsaðgerð með holsjá. Rútínuaðgerð sem ég geri mjög mikið af. Eftir að hafa rætt við næsta aðgerðarsjúkling skoða ég mann á bráðamóttökunni með kandídatnum (ég hef ekki tileinkað mér að nota orðið sérnámsgrunnslæknir, það fer ekki vel í munni). Maðurinn fékk slípirokk í höndina, rispaði aðeins í vöðvann en hreyfingar og skyn í lagi.

09:55 Önnur aðgerð dagsins, nárakviðslit beggja vegna. Aðgerðin gengur vel. Ræði við þriðja aðgerðarsjúkling dagsins sem er fertug kona með gallsteina með slæmum endurteknum verkjaköstum. Aðgerðin gengur vel. Diktera og fer yfir blóðprufur og rannsóknir inniliggjandi sjúklinga.

11:10 Þriðja aðgerð dagsins. Gallkögun sem gengur vel. Greinilega krónískar bólgubreytingar og samvextir í kringum gallblöðru. Diktera og ræði við fjórða aðgerðarsjúklinginn sem er rúmlega tvítugur smiður með stórt nárakviðslit.

12:15 Fjórða aðgerð dagsins. TEP-aðgerð. Gengur vel. Stórt hliðlægt kviðslit, í raun opin processus vaginalis, þurfti því að taka í sundur sekkinn. Diktera aðgerðalýsingu og ræði við fimmta og síðasta aðgerðarsjúkling dagsins. Unglingur með tvíburabróður (sinus pilonidalis). Löng saga um endurteknar sýkingar og ígerðir. Ömurlegur kvilli. Er oft í ættum og árangur aðgerða er lélegur með hárri tíðni endurkomu.

12:50 Hádegismatur. Mötuneytið okkar er framúrskarandi. Frábær kokkur og starfsfólk. Fiskur þrisvar í viku, alltaf ferskur og góður. Er aðeins of seinn í mat í dag, flestir búnir að borða.

13:50 Síðasta aðgerð dagsins. Unglingurinn með tvíburabróðir. Aðgerðin gengur vel og þetta lítur mjög vel út í lok aðgerðar. Ég er eldri en tvævetur í þessu og veit því að það segir ekkert um framhaldið. Hann gæti verið kominn til mín aftur með endurkomu eftir nokkrar vikur en vonandi grær þetta vel. Diktera og skoða sjúkling með kandídatnum á bráðamóttökunni.

15:00 Eftirmiddagskaffi. Mjög mikilvægur hluti af vinnunni og flestir læknar reyna að mæta. Það er farið yfir daginn og rætt um dægurmál.

16:00 Eftir að hafa farið upp á deild og athugað hvort allt sé í lagi fyrir vaktina, fer ég yfir í íbúðina mína sem er á sjúkrahús-lóðinni og undirbý mig fyrir æfingar kvöldsins.

17:00 Hljómsveitaræfing Handyman sem er starfsmannahljómsveit sem hefur starfað við stofnunina í 15 ár. Þar spila ég á bassa og syng. Við erum að æfa fyrir mjög stórt gigg í maí. Þetta verður fyrsta post-covid giggið og við reiknum með 5-600 manns. Við erum danshljómsveit og auk þess að æfa gömul lög förum við sérstaklega yfir „stórar spurningar“ með Birni og Páli Óskari og „Mér er drull“ með Flott. Við gerum okkur nefnilega grein fyrir því að þó við séum allir á sextugs- og sjötugsaldri verðum við að vera „current“. Starfsfólkið á stofnuninni yngist meðan við eldumst.

19:00 Sæki Dómínóspizzuna. Kosturinn við að vera alltaf á bakvakt á þriðjudögum er þriðjudagstilboð Dómínós.

19.30 Æfing byrjar í kirkjukór Akraness. Við erum að æfa Requiem eftir Faure og Fuglakabarett eftir Hjörleif Hjartarson og Daníel Þorsteinsson sem er frábærlega skemmtilegt verk.

21:30 Kem við á deildinni og skoða einn sjúkling með kviðverki. Fylgjumst með honum. Endurmat og nýjar blóðprufur í fyrramálið. Bakvaktin er búin að vera róleg. Komst í gegnum báðar æfingarnar án truflunar. Bakka í sjónvarpinu og horfi á leik í Evrópukeppninni.

00.00 Fer að sofa. Er ekki vakinn. Góð vakt.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica