05. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Prófessor í umhverfislæknisfræði hvetur lækna til að berjast gegn mengun

„Auðvitað á fólk að lifa heilsusamlega, en til að krefjast þess af þeim er mikilvægt að umhverfið sé þannig að fólk geti það,“ segir Philippe Grandjean, prófessor í umhverfislæknisfræði. Hann segir lækna eiga að berjast fyrir ómenguðu umhverfi til
að forða fólki frá sjúkdómum framtíðarinnar

„Við höfum ekki hugað nægilega að því að takmarka og stjórna notkun þrávirkra kemískra efna,“ segir Philippe Grandjean, prófessor í umhverfislæknisfræði við Háskóla Suður-Danmerkur allt frá 1982. Einnig við Harvard-háskóla í tæp 20 ár. Grandjean talaði í streymi á Læknadögum á málþingi um umhverfi og heilsu en hann hefur í áratugi bent á skaðsemi þrávirkra efna í umhverfinu – með árangri.

„Við þurfum einkum að vernda komandi kynslóðir. Þróun á fósturskeiði er svo flókin og fari eitthvað úrskeiðis fáum við ekki annað tækifæri til að endurgera,“ segir Grandjean þegar Læknablaðið nær í hann með Teams-tækninni til Danmerkur. Mikilvægt sé að fólk þekki áhrif mengunar á lífsgæði sín, því yfirvöld hafi ekki staðið sig í stykkinu að vernda það frá henni.

Philippe Grandjean, prófessor í umhverfislæknisfræði, hvetur lækna til að láta til sín taka gegn mengun, því ekki sé ávinningur af heilsusamlegu líferni í óheilbrigðu umhverfi. Mynd/Jacob Rosenvinge

„Við sem stundum rannsóknir vitum að áhugi almennings er það sem við þurfum til að drífa málin áfram. Við höfum séð að þótt mjög mikilvæg vísindagrein sé birt í virtu tímariti gerist ekkert,“ segir þessi ríflega sjötugi aðalritstjóri vísindatímaritsins Environmental Health, tímarits sem hann stofnaði. Hann tekur dæmi af rannsókn sinni frá upphafi COVID-19 heimsfaraldursins sem birt var í PLoS ONE fyrir tveimur árum.

Mengun auki COVID-veikindi

„Ég vildi vita hvort mengun gæti gert sýkingu af völdum kórónuveirunnar verri og við sáum að fólk með hátt gildi perflúoraðra alkýlefna (perfluorinated alkylate substances (PFASs) veiktist verr, það jók líkur á sjúkrahúsvist, lengd sjúkrahúsdvalarinnar, líkur á gjörgæsluþjónustu, þörf á öndunarvél og dauða. Ég sagði að við yrðum að gera eitthvað í þessu en ekkert gerðist,“ segir hann.

Niðurstöðuna byggði hann á því að bera gögn 323 COVID-jákvæðra sjúklinga saman við blóðsýni þeirrra úr danska lífsýnasafninu (National Biobank) sem sýndu að þau höfðu komist í tæri við efnasambandið. En við hverju bjóst hann?

„Ég hefði viljað sjá danska heilbrigðisráðuneytið bregðast við. Yfirvöld vörðu 100 milljónum danskra króna í að stúdera bóluefni við kórónuveirunni en segja við okkur að þau eigi ekki nægileg blóðsýni til að rannsaka málið frekar,“ segir hann. „Ég segi: En þetta getur haft áhrif á alvarleika veikindanna og virkni bóluefna.“ Hugsanlega virki þau ekki eins vel hafi fólk verið útsett fyrir þessu þrávirka PFAS-efni. „En yfirvöld benda mér á að þetta sé ekki forgangsverkefni.“

Þetta pólýflúoralkýl-efni sem um ræðir sé notað til að hrinda efnum frá, eins og af pottum og pönnum og af regnfatnaði, sem og til að vatnsverja skó. „Þetta er líka sama efnið og er sprautað á húsgögn svo þau blettist síður. Efni sem hefur áhrif á ónæmiskerfið okkar og við sjáum nú einnig að það leiðir til verri kórónuveirusýkingar. Gerum eitthvað í því, segi ég,“ og það er ljóst að málið er Grandjean ofarlega í huga.

Koma eigi í veg fyrir veikindi

„Já, mörgum finnst að það þurfi að vera sjáanleg einkenni til staðar til þess að menn fái greiningu og því hafa yfirvöld ekki áhuga þótt fólk hafi komist í tæri við mengun ef það sýnir ekki einkenni,“ segir hann.

Þetta séu hefðbundin heilbrigðissjónarmið. „En ég segi: Þetta eru sjúklingar framtíðarinnar og við þurfum að sýna því áhuga að viðhalda heilsu þeirra. Það eru nútímalækningar að reyna að koma í veg fyrir sjúkdóma í stað þess að greina þá og meðhöndla, sem hingað til hefur verið meginþungi læknisfræðinnar.“

Grandjean hefur átt í áralöngu rannsóknarsambandi við Færeyjar. Á 9. áratugnum sýndi hann, ásamt færeyska lækninum Pál Weihe, fram á skaðsemi kvikasilfurs á fóstur. Nú hafa 100 lönd skuldbundið sig til að takmarka útblástur kvikasilfurs verulega með Minamata-sáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2013.

„Við sáum að neysla kvenna á barneignaaldri á grindhval dró úr greindarvísitölu barna þeirra. Allt vegna kvikasilfurs, en grindhvalur er efstur í fæðukeðjunni og þegar Færeyingar veiða hvalinn veiða þeir því einnig mengun hafsins.“ En er skaðinn varanlegur?

„Já, aðeins fæst eitt tækifæri til að þróa heilann í móðurkviði og það er heilinn sem einstaklingur hefur út lífið,“ segir Grandjean, sem skrifaði bókina Only One Change: How Environmental Pollution Impairs Brain Development og gaf út 2013.

„Mengun hefur áhrif á vitræna færni komandi kynslóða og miðað við vandamálin sem við sköpum núna þurfum við virkilega að stóla á að gáfað fólk taki við stjórnartaumunum svo það leysi úr þessum vanda.“

Ekki borða efst úr fæðukeðjunni

Vert er að spyrja hvort hann hvetji þá fólk til þess að forðast sjávarfang? „Nei, ég er læknir. Ég mæli með sjávarfangi í mataræðinu. Við þurfum fiskiolíuna, d-vítamínið og selen. En nú er mælt með að borða frekar það sem liggur lágt í fæðukeðjunni. Borðaðu frekar smærri fisk en þann stærri – flundru og makríl í stað lúðu og túnfisks.“

Grandjean segist finna að áhugi fólks á umhverfisvernd hafi stóraukist. Hann voni að þekkingin á áhrifum mengunar á heilsu okkar og líkama hvetji yfirvöld á endanum enn frekar til að draga úr mengun. Í hittifyrra hafi Matvælaöryggisstofnun Evrópu lækkað viðmiðunarmörk fyrir PFAS í drykkjarvatni fimmtíufalt.

„Það er fáheyrt og sýnir að við höfum horft framhjá vandanum sem veldur þessari áhrifaríku ákvörðun. Það sýnir líka hvað yfirvöld hafa brugðist seint við vandanum.“ Hann leggur áherslu á að það sé ekki nóg sem læknir að hvetja fólk til heilsusamlegs lífernis.

„Heilbrigðissamfélagið hefur gert of lítið til að hvetja yfirvöld til athafna til að vernda umhverfið og snertingu fólks við skaðleg efni. Við erum í stöðugri snertingu við þessi PFAS-efni og öndum þeim að okkur eða innbyrðum án þess að vita það. Við höfum því þessi efni í líkamanum enda snertileiðirnar margar og hefur ekkert með heilbrigðan lífsstíl að gera.“

Grandjean segir erfitt fyrir lækna að segja sjúklingum sínum að passa sig á umhverfinu. „Það er miklu auðveldara að segja við skjólstæðinginn: Nú er ráð að fara í langa göngu. Minnst 5 daga vikunnar. Venja hann á heilsusamlegan lífsstíl, en góð heilsa er líka spurning um heilbrigðan búskap. Mengun í vatninu og matnum og í neysluvörum hefur þar áhrif.“

En getur hann þá gefið einföld ráð, eins og að sleppa meðhöndlaðri vefnaðarvöru eða skordýraeitri, plastflöskum? „Það eru engar einfaldar reglur aðrar en gagnrýnin hugsun: Ef þú vilt kaupa nýjan sófa, ný ílát fyrir örbylgjuofninn, spurðu þá sölumanninn hvort þau innihalda truflandi efni. Í flestum tilfellum færðu engin svör í verslunum en því fleiri sem spyrja því meiri verður krafan á framleiðandann um svör. Þannig myndast þrýstingur.“

Þannig hafi það verið þegar ljóst varð að plastpelar barna innihéldu hormóna-raskandi efnið BPA. „Ekkert gerðist þegar greint var frá þessum niðurstöðum en þegar neytandinn spurði um málið í stórmörkuðum, eins og til dæmis í Walmart, tóku þeir vöruna úr hillum. Það var vegna þrýstings frá neytendum en ekki vegna gjörða yfirvalda,“ segir hann og heldur áfram.

Fólk treysti læknum

„Við læknar þurfum að bindast skjólstæðingum okkar traustari böndum og styðja þá í kröfunni um heilbrigðara umhverfi, því ef við gerum það ekki er engin innistæða fyrir því að krefja þá um heilbrigðan lífsstíl,“ segir Grandjean. „Við verðum að tryggja að samkomulag sé um að við séum ekki útsett fyrir mengun í umhverfi okkar.“

Læknar búi yfir mikilvægri þekkingu því þeir geti gert áhættumat. „Við getum rannsakað áhrifin. Svo treysta sjúklingar okkur, því við viljum þeim það besta. Þannig að ef við stígum inn og leiðbeinum um notkun kemískra efna munum við öll sjá ávinning, skjólstæðingar okkar og heilbrigðiskerfið.“

Það sé ekki lengur forsvaranlegt að setja heilsuna í hendur skjólstæðinganna. „Það sem við sögðum í fortíðinni – að fólk ætti bara að lifa heilsusamlegar, á ekki lengur við eitt og sér nema umhverfið sé þannig að fólk geti það. Það á ekki að bjóða fólki upp á kemískt umhverfi sem skaðar efnaskiptin og hormónabúskapinn.“

Mengun skaðar heilann

„Vandinn við uppruna ADHD er sá að flestir horfa í gjörðir barnanna en skýringuna á hegðuninni er ekki að finna þar heldur jafnvel frekar fyrir getnað þeirra,“ segir Philippe Grandjean, prófessor í umhverfislæknisfræði.

„Barnið er greint og fær meðferð en forvarnirnar ættu að byrja löngu fyrr,“ segir hann og bendir á áhrif mengunar á fósturþroska. Hann hvetur til þess að fólk sýni gagnrýna hugsun við neyslu og forðist kemísk efni. En á fólk að vera áhyggjufullt vegna framtíðarinnar?

„Við ættum að vera áhyggjufull yfir því sem við vitum ekki og ekki láta eins og allt sé öruggt. Við ættum að leggja áherslu á að vernda næstu kynslóðir og gjalda almennt varhug við nýjum kemískum efnum því þau eldri eru enn utan reglna. Fóstur eru svo viðkvæm. Þau eru að þróa líffæri og það verður ekki aftur snúið ef eitthvað fer úrskeiðis við myndun heilans.“


 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica