05. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Ljós kviknaði á gjörgæslunni og Theódór Skúli stillti líf sitt af

Theódór Skúli Sigurðsson læknir er aftur kominn á fulla ferð eftir að hafa farið í
þriggja mánaða veikindaleyfi. Andartaks andrými á næturvakt þar sem hann settist
niður með aðstandanda sjúklings í banalegu á gjörgæslunni olli því að hann áttaði
sig á að hann væri á leið í kulnun

„Við áttum innilegt samtal um lífið og tilveruna. Við ræddum tilgang lífsins. Allt í einu kviknar ljós og ég fer að hugsa málið þessa næturvakt að ég sé kominn á skrítinn stað í lífinu,“ segir Theódór Skúli Sigurðsson, sérfræðingur í barnasvæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala og formaður Félags sjúkrahúslækna, um samtalið við aðstandandann á gjörgæslunni.

Læknablaðið · Theódór Skúli Sigurðsson - viðtal í maí 2022


„Ég hugsaði um stærstu fyrirmyndirnar mínar í læknisfræðinni sem maður setur á stall – alla svæfingalæknana sem kenndu mér, sem margir höfðu klúðrað einkalífi sínu og því miður allt of margir svipt sig að lokum lífi, einn náinn vinur þar á meðal síðasta sumar,“ segir hann og vísar til Torstens Lauritsen yfirlæknis á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn sem hann kenndi með í allnokkur ár á vegum skandinavísku svæfinga- og gjörgæslusamtakanna. Inn í þennan erfiða tíma hafi veikindi móður hans tvinnast, en hún lést um miðjan febrúarmánuð.

„Hún var komin á öldrunarheimili, orðin önnur kona en hún var og þekkti mig varla. Ég var með krónískt samviskubit að vera ekki meira hjá henni og á meðan ég var þar var ég ekki heima hjá fjölskyldunni. Konan mín og dætur fengu því aðeins pirring og frústrasjón,“ segir hann og lýsir því hvernig hann nýtti tímann heima í vinnuna. „Ég var alltaf andlega fjarverandi. Alltaf að svara tölvupóstum.“

Stimplaði sig í veikindaleyfi

Eftir samtalið við aðstandandann á gjörgæsludeildinni í lok nóvember hafi hann skrifað tölvupóst á yfirlækninn. „Þennan morgun stimplaði ég mig út og fór beint í veikindaleyfi.“

Theódór Skúli er kominn á fullt eftir þriggja mánaða veikindaleyfi. Hann stefndi í kulnun vegna álagsins og varð að rétta kúrsinn til að geta haldið áfram. Mynd/gag

Gleðin var farin. Reiðin yfir ástandinu á spítalanum hafði náð yfirhöndinni. Draumar hans og loforð um að kæmi hann heim frá Svíþjóð með sérþekkingu sína á svæfingu barna, fengi hann að tækifæri til að bæta þjónustu við börnin, höfðu verið hunsuð. Einnig loforð um tíma til að klára doktorsnám sitt og fá að stunda vísindi. Launaforsendur voru heldur ekki virtar.

„Fyrstu skilaboðin frá Landspítala þegar ég var kominn heim var að ég væri ekki metinn verðugur þess launaflokks sem talað var upphaflega um og svo var ekki hægt að veita frí eða aukatíma til að klára vísindavinnu af því að það væri svo lítill mannskapur,“ segir hann.

„Mér bregður þegar ég átta mig á ástandinu: Hvernig spítalinn er útbúinn, skortur á mannskap, legurýmum, gjörgæslurýmum.“ Forsendurnar fyrir því að koma heim hafi því strax brostið. „Ég hugsaði því: Já, ok, svona gerast kaupin á Landspítala en ég hafði gert 5 ára áætlun og ákvað að klára þessi 5 ár. Ég var kominn heim fyrir börnin og fjölskylduna og við náðum lendingu.“ Markmiðin viku svo fyrir COVID.

Úrvinda í vinnunni

„Ég ákvað að klára doktorsrannsóknirnar í frítíma mínum: Um helgar, kvöld og nætur. En þetta þýddi líka að metnaður minn fyrir því að byggja upp barnasvæfingar og gjörgæslu á Íslandi og færa til framtíðar þurfti að víkja.“

Hann hafði verið settur á hamsturshjól spítalans. „Þegar ég fór inn í helgina vissi ég að það yrði ekki frí. Símtalið um að koma á spítalann kæmi.“ Hann hafi sofið lítið, legið andvaka og því mætt í vinnuna í stað þess að stara út í loftið. „Oft á tíðum þegar ég var að fara í vinnuna á morgnana mundi ég ekki eftir bílferðinni úr Kópavogi inn á Hringbraut. En sem betur fer bakka ég út áður en það urðu uppákomur eða slys.“

Theódór fór að berjast fyrir breytingum og fór inn í Læknaráð Landspítala. Varð svo formaður Félags sjúkrahúslækna í maílok í fyrra. Hann fór á fullt í gagnrýni á ástandið og stóð fyrir ákalli yfir 1000 lækna um bætt heilbrigðiskerfi. Undirskriftirnar voru afhentar yfirvöldum á sólríkum degi í júní í fyrra.

„Ég var ekki vinsælastur í Skaftahlíð eða stjórnarráðinu,“ segir hann. „Svo gerðist eitthvað. Storminn lægði og allt datt í logn. Mér leið eins og misheppnaðri sögupersónu Cervantes. Lenti eins og Don Kíkóti í tilvistarkreppu. Allar vindmyllur fallnar. Forstjóri farinn, ráðherra farinn, breytingar í Læknafélaginu og allt í einu gat ég hugsað um mig á mínum forsendum.“ Fimm ára áætlunin hans hafi skotið upp kollinum.

„Ég gat metið hvar ég stóð, hverju ég hefði komið í verk og ég varð fyrir svo miklum vonbrigðum. Mér fannst ég hafa brugðist litlu sjúklingunum mínum að koma þjónustunni fyrir þá ekki á legg og þegar ég tók þetta upp fannst mér ekki á mig hlustað. Ég fór að hugsa: Af hverju er ég á Landspítala ef ég get ekki sinnt börnunum sem ég brenn fyrir og vil sinna almennilega?“ Þótt reynslu hans hafi vantað á Íslandi, hafi hún ekki verið nýtt sem skyldi.

Þriðja kynslóð á spítalanum

„Mér fannst ég hafa lent á vegg. Ég endurskoðaði val mitt. Ég er þriðja kynslóð heilbrigðisstarfsmanna á Landspítala. Ætla ég að vera þar, eins og ég hélt alltaf að ég yrði, eða er kominn tími til þess að ég prófi eitthvað nýtt?“

Afi hans, Theódór Skúlason, hjarta- og innkirtlalæknir, kom úr læknanámi frá Danmörku með bátnum Frekjunni í seinni heimsstyrjöldinni árið 1940. Mamma hans, Auður Ingibjörg Theodórs, var meinatæknir í Blóðbankanum og pabbi hans, Sigurður Helgi Björnsson, forstöðumaður launa- og starfsmannamála spítalans um árabil.

„Báðir foreldrar mínir voru miklir unnendur spítalans,“ segir hann. „Ég er stofnanabarn í húð og hár. Kom í heiminn á Landspítala með keisara. Var á leikskóla spítalans og hef unnið flest störf sem hægt er að vinna á Landspítala; allt frá því að skúra og sjá um umönnun sjúklinga, vinna með pípulagningamönnum, rafvirkjum og smiðum við niðurbrot og uppsetningu legudeilda og skurðstofa, jafnvel ein jólin við eldamennsku í eldhúsinu. Svo á endanum læknir eins og ég ákvað snemma.“ Vonbrigði hans yfir stöðunni hafi því verið mikil.

„Ég er mikill hugsjónamaður og með ríka réttlætiskennd. Þetta hefur alltaf þvælst fyrir mér í lífinu.“ Hann hafi alltaf þurft að laga það sem var brotið og lagt hart að sér. „Ég þurfti frí til að vinna með þetta; fara á dýpið.“ Konan hans, Guðbjörg Vigdís Guðmundsdóttir gjörgæsluhjúkrunarfræðingur, hafi gripið inn í.

„Hún var hörð á því að ég færi ekki heim í sófann að horfa á fótbolta heldur yrði ég að vinna í vandamálum mínum í veikindaleyfinu. Ég þyrfti aðeins að taka til og ég áttaði mig á því að mig vantaði verkfæri til þess.“

Átti ekki að gera neitt

Theódór sótti því tíma hjá Ólafi Þór Ævarssyni geðlækni, kominn í veikindaleyfi. „Hann bannaði mér að gera nokkurn hlut í mánuð eða taka stórar ákvarðanir,“ segir hann og hvernig það afstýrði uppsögninni á Landspítala. Hann hafi farið í ræktina sem hann hafði ekki gert lengi. Farið að mála með vatnslitum. „En ég var mjög góður í því sem barn.“

Hann dustaði rykið af gítarnum, slökkti á símanum, hætti að horfa á fréttir og gerði hluti sem hann hafði ekki gert lengi. „Smám saman varð tilveran bærilegri. Hver einasti morgun hófst á að ég borðaði morgunmat með dætrum mínum og skutlaði í skólann, sem ég gerði aldrei – var alltaf farinn í vinnuna,“ segir hann.

„Allt í einu fór ég að upplifa og sjá hluti sem ég hafði ekki gert áður, pæla í skugga og ljósi, litbrigðum náttúrunnar, og var örugglega hættulegri í umferðinni en þegar ég mundi ekki eftir bílferðum mínum á leið í vinnu,“ segir hann og hlær. „Ég sá hvað ég var orðinn blindur á eigin forgangsröðun og umhverfið. Samtöl við sálfræðing hjálpuðu líka mikið, að vinna kerfisbundið í mínum kostum og göllum.“

Theódór er ánægður að hafa stigið út áður en hann missti stjórn á skapi sínu. „Ég horfi alla daga upp á félaga sem eru í kulnun eða nærkulnun að missa sig. Margir eru með einkennin en kveikja ekki á því. Lærdómur minn er að það er í lagi að segja að maður sé mannlegur og þurfi aðstoð og ráðleggingar. Ég vona að með því að stíga fram átti fólk sig á því; og að þetta skref hjálpi einhverjum.“

Theódór er formaður Félags sjúkrahúslækna og situr í stjórn Læknafélags Íslands. Mynd/gag

Hefði hann á starfstíma sínum fengið að taka út þann frítíma sem hann hafði áunnið sér, hefði hann hugsanlega ekki þurft veikindaleyfi. „Tíminn sem ég átti uppsafnaðan er einmitt sá sem ég tók á endanum út í veikindaleyfi,“ segir hann.

Theódór kvaddi móður sína á síðasta degi veikindaleyfisins. Hún lést með COVID nú um miðjan febrúarmánuð. „Endurkoma mín úr veikindaleyfinu dróst því um viku,“ segir hann og Læknablaðið vottar honum samúð.

Samningurinn lagaður

Hann lýsir því hvernig veikindaleyfi hans hafi á endanum orðið til þess að samningarnir um heimkomu hans fyrir 5 árum hafi verið teknir aftur upp. Nú fái hann skilgreindan tíma til að kenna og stunda vísindi og hann ferðast um Skandinavíu og kennir.

„Ég kem í vinnuna og er spenntur fyrir verkefnunum,“ segir Theódór og þakkar fyrir að yfirlæknir hafi séð tækifæri í að hjálpa honum þótt það hafi nánast verið orðið of seint. Ákveðin viðhorfsbreyting hafi orðið og í fyrsta sinn í apríl hafi skurðstofum verið lokað þar sem svæfingalækna vanti. Þá hafi verið reiknað út hversu mörg stöðugildi svæfingalækna vanti. „Nú vantar um 10 svæfingalækna á Landspítala, bara til að dekka áunnin frí starfsmanna.“ Kynslóðaskipti og fjölgun verkefna svæfingadeildarinnar skýri skortinn.

„Ég átti til dæmis tæplega 500 tíma í óúttekið frí og aðra 400 tíma umfram í stimpilklukku. Almannaksár svæfingalæknis á Landspítala hefur ekki verið 52 vikur heldur 65 því við eigum svo mikið af uppsöfnuðum vikum. Svo eru þessir umframtímar greiddir út í dagvinnu einu sinni á ári og við sitjum eftir með uppsafnaða þreytuna,“ lýsir hann. „Þessu þurfum við að breyta, það endist enginn í svona mikilli vinnu við stanslaust álag.“

Theódór segir nóg af efnilegu fólki sem hafi lært svæfingar erlendis en komi ekki heim í þetta andrúmsloft. Hann vonar að þær veigamiklu breytingar sem gerðar hafi verið á 30 ára úrsérgengnu vaktakerfi þeirra breyti því. „Við erum til dæmis ekki lengur á bakvakt á tveimur stöðum í einu, enda er það ekki hægt.“

Nú vonist hann til þess að halda heilsu til að haldast í vinnu á gamla draumavinnustaðnum sínum. „Nú þarf ég að passa að detta ekki í sama fasann og fyrr.“


 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica